Nýlega kom fram í fréttum að íslensk rannsókn hefði sýnt fram á að ef manneskju tækist að bæta 1000 skrefum við daglega hreyfingu sína hefði það umtalsverð áhrif á heilsu hennar og hægði á öldrun. Þá er vert að hafa í huga að gönguferðir eru frábær skemmtun. Hvort sem fólk velur að ganga um borgir og bæi eða úti í náttúrunni. Sumir þurfa engan hvata til að reka sig af stað en öðrum gengur illa að halda rútínu nema að hafa eitthvað sem rekur þá áfram. Nokkrar góðar leiðir eru til að gera gönguferðirnar meira spennandi og gefa þeim tilgang.
Það er best að koma sér upp ákveðinni rútínu, ganga alltaf á sama tíma og í jafnlangan tíma í það minnsta til að byrja með. Auk þess er gott að finna hring út frá þeim punkti sem byrjað er á. Af mörgum ástæðum er hagkvæmt að ganga í hring. Í fyrst lagi er eitthvað í eðli mannsins sem kallar á einhvern ákveðinn áfangastað og þegar genginn er hringur endar hann á sama stað og byrjað var á. Þar með er hægt að ganga inn heima hjá sér setjast upp í bílinn þegar hringurinn lokast. Það tryggir líka að umhverfið er annað á bakaleiðinni en það var í byrjun ferðar.
Maðurinn er safnari í eðli sínu og kappsamur. Þess vegna getur verið mjög gaman að gefa gönguferðum sínum þann tilgang að safna einhverju til dæmis fjöllum. Heill hópur fólks um allan heim stundar þá iðju. Það einsetur sér að ná að ganga á ýmist ákveðið mörg fjöll á ári eða ákveðin fjöll eitthvert árið. Síðan er skráð á netinu hvort og hvenær markmiðin nást.
Þegar gengið er um í borgum eru það byggingar sem vekja mesta athygli. Til að skapa sem mesta fjölbreytni má einsetja sér að ganga um eitt hverfi í einu, skoða arkitektúrinn og leitast við að taka eftir einhverju nýju. Til dæmis má nefna að oft eru skreytingar eða áhugaverð atriði að sjá efst á húsum og því gaman að einbeita sér að því að skoða efstu hæðir húsanna einn daginn en þann neðri næsta dag.
Myndavélinni beint að hinu smáa
Ljósmyndun er skemmtilegt áhugamál og sameinar ansi margt, m.a. listrænt auga þar sem form og litir ná að fanga sjónarhorn sem aðrir sæju ekki endilega neitt athyglisvert. Ljósmyndir eru sömuleiðis leið til að varðveita minningar og augnablik í tíma og rúmi. Náttúruljósmyndun á Íslandi er einstaklega spennandi vegna þess hve fjölbreytt náttúran er og birtan. Hér eru ótal litbrigði ljósi sem hvergi eru sambærileg. Fjólublár litur íslenskra sumarnátta, bleik sólarupprás, gult síðdeigssólskin og gráir rigningardagar. Í raun væri endalaust hægt að telja upp spennandi ljósbrigði birtunnar. Að rölta um með myndavél og leita að flottu myndefni er verðugur tilgangur góðrar gönguferðar.
Fuglaskoðun
Að grípa með sér sjónauka og ganga meðfram vötnum eða við sjó er fín leið til að skoða fuglalífið. Sumir leita að sjaldgæfum flækingum og skrá vandlega hjá sér alla fugla sem þeir sjá. Listanum er lokað um hver áramót og byrjað að nýju í janúar. Það þarf svo ekki endilega að leitast við að sjá sem flestar tegundur, það má líka einfaldlega njóta þess að fylgjast með fuglunum við fæðuöflun, hreiðurgerð og uppeldi unganna sinna.
Blómin blíð
Að skoða íslensk villiblóm og læra að þekkja þau er enn ein leið til að njóta gönguferða um landið. Það er hins vegar mismunandi hvað vekur áhuga fólks. Sumum nægir að þekkja nöfnin aðrir vilja gjarnan vita til hvers þessar jurtir voru notaðar ef þær höfðu einhverjar nytjar. Aðrir njóta þess að horfa á þær og snerta og teyga ilminn. Það getur verið einstaklega góð upplifun að rekast á fallegt blóm á eyðilegum mel.
Náttúruvætti og minnismerki
Að sjá eitthvað þekkt minnismerki eða náttúruvætti er ánægjulegur tilgangur gönguferðar. Þá er valinn foss, hellir, klettar, stytta, kirkja eða staður og gengið þangað. Byrjaðu á að finna hagkvæmustu leiðina, rétt eins og þú myndir gera í útlöndum. Farðu svo af stað en einskorðaðu þig ekki við áfangastaðinn. Njóttu einnig alls þessa sem blasir við á leiðinni þangað.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.