Göngur örva heilann

Þessi áhugaverða grein um tengsl gönguferða og hugsana birtist nýlega á vef New Yorker.

Í jólaútgáfu tímaritsins Vogue árið 1969 ráðlagði rússneski rithöfundurinn Vladimir Nabokov þeim sem kenndu og rannsökuðu skáldsögu James Joice, Ulysses, að hætta langsóttum og flóknum bókmenntaskýringum og draga frekar fram götukort af borginni Dublin. Á kortið mætti  draga upp allar ferðir helstu persóna bókarinnar. Áratugum síðar tóku bókmenntafræðingar svo áskorun Nabokovs og útbjuggu gagnvirkt götukort af borginni upp úr atburðum bókarinnar.  Hið sama hefur  verið gert uppúr ritverkum Virginiu Woolf er fjalla um fólk  í London.

Náin tengsl

Kort eins og þessi varpa ljósi á hversu náin tengsl eru milli „hugar og fóta“ þegar sumar skáldsögur eru samdar. Bæði Joice og Woolf voru höfundar sem áttu gott með að koma hugrenningum á blað og iðulega senda þau sögupersónur sínar út að ganga. Þegar frú Dalloway, ein söguhetja Woolf, gengur um London sér hún ekki aðeins borgina eins og hún blasir við, heldur sér hún einnig fortíð sína og mótar landslag borgarinnar sífellt upp á nýtt í huga sér. Frá því í fornöld þegar grískir heimspekingar flökkuðu um hafa höfundar þekkt tengslin milli annars vegar hugsunar og skrifta og hins vegar göngu. „Hversu hégómlegt er það að sitja við skriftir ef maður hefur aldrei staðið upp til að lifa“ skrifaði bandaríkjamaðurinn Henry Thoreau í dagbók sína, „Um leið og fætur mínir byrja að hreyfast flæðir hugsunin af stað.“

Hugsað á göngu

Ljóð bandaríska skáldsins William Wordsworth eru full af gönguferðum um fjöll, skóga og  sveitavegi. Skáldið var mikill göngumaður og það hefur verið áætlað að hann hafi gengið um 290 þúsund kílómetra um ævina eða að meðaltali um tíu og hálfan kílómetra á dag frá fimm ára aldri. Af hverju fara göngur og hugsun svona vel saman? Svarið liggur í efnafræðinni. Þegar við göngum slær hjartað hraðar og meira súrefni berst til allrar líffæra, þar á meðal til heilans. Fjölmargar kannanir hafa sýnt að fólk stendur sig betur á prófum eftir að hafa hreyft sig, jafnvel aðeins smávægilega, heldur en það sem sat kyrrt. Minni og athygli batna.  Regluleg ganga er einnig talin orsaka myndun nýrra tengsla milli heilafruma og hægir á  hrörnun heilavefs.

Eflir starfsemi heilans

Hvernig við svo hreyfum okkur hefur áhrif á heilastarfsemina. Sálfræðingar sem rannsaka tengsl tónlistar og hreyfingar hafa sýnt fram á það sem við hin höfum alltaf talið okkur vita að tónlist með hröðum takti fær okkur til að hreyfa okkur hraðar og því hraðar sem við hreyfum okkur því hraðari viljum við hafa tónlistina. Sama getur gerst þegar ökumaður heyrir tónlist með hröðum takti, honum er hættara við að stíga fastar á bensíngjöfina. En þegar við göngum á okkar eigin hraða myndast ótrufluð tenging milli eiginlegs líkamstakts okkar og hugarástands sem við getum ekki upplifað í ræktinni, á hjóli, við akstur eða þegar eitthvað annað stjórnar eða hefur áhrif á hreyfingar okkar. Í göngu tifa fætur okkar náttúrulega í samræmi við hugarástand okkar og málróm okkar innri raddar. Hraða hugsunar má einfaldlega breyta með því að ganga hægar eða hraðar.

Krefst ekki hugsunar

Þar sem ganga krefst ekki mikillar hugsunar er meðvitund okkar frjálst að sýna okkur heiminn með heilli skrúðgöngu atriða úr leikhúsi hugans. Þetta er nákvæmlega það hugarástand sem er talið ýta undir snilldarhugmyndir. Snemma á þessu ári birti Stanfordháskóli fyrstu niðurstöður vísindarannsókna um það hvernig ganga hefur bein áhrif á sköpunargáfuna. Hugmyndina að rannsókninni fengu vísindamennirnir auðvitað í göngutúr

Að leysa þrautir

Í stuttu máli kom í ljós að þáttakendur í rannsókninni sem voru látnir leysa þrautir eins og t.d. að finna upp óvenjulega notkun fyrir hnappa eða hjólbarða, voru frjóastir í hugsun ef þeir voru látnir ganga um háskólahverfið á meðan þeir leystu verkefið. Samanburðarhópurinn sem annað hvort sat í stól  eða gekk  á hlaupabretti stóð sig verr í þessum mælingum. Þó kom í ljós að ganga gagnaðist síður og var jafnvel truflandi þegar leysa átti flókin verkefni sem kröfðust nákvæmrar rökhugsunar. Þannig töldu vísindamennirnir að ganga setti hugann á flot í hafsjó hugsana og slík ofgnótt hugmynda væri einfaldlega til trafala þegar verkefni krefðist mikillar einbeitingar.

Umhverfið skiptir máli

Það skiptir líka máli hvar við göngum. Ein rannsókn hefur sýnt að háskólastúdentar sem voru látnir ganga í trjágarði bættu minni sitt umfram þá sem voru látnir ganga á götum borgar. Æ fleiri rannsóknarniðurstöður hníga að því, að það að vera í grænu umhverfi eins og görðum og skógum geti fjörgað huga og heilastarfsemi en manngert borgaumhverfi hafi neikvæð áhrif á sömu þætti. Sálfræðingar hafa merkt að athygli er ekki ótakmörkuð heldur minnkar hún eftir því sem líður á daginn. Sem dæmi má nefna fjölfarin gatnamót í borg þar sem ægir saman, gangandi vegfarendum, bílum og auglýsingum.  Þannig ástand rífur athygli okkar og tætir á meðan vera við tjörn eða læk leyfir huga okkar að flytjast rólega frá einum hlut til annars, frá lækjarniði til skrjáfs í laufi.

Að ganga í borg

Gönguferðir í borg og sveit veita andanum þó mismunandi möguleika. Ganga í borg veitir huganum tækifæri til að takast á við hraðari örvun og margbreyttari upplifanir. En sé örvunin of mikil má alltaf leita aftur út í náttúruna. Virginia Woolf hreifst af þeirri skapandi orku sem hún sá og fann á götum Lundúnaborgar og lýsti því í dagbókum sínum „Eins og hún væri á toppi stærstu öldunnar í hringiðunni.“ Henni þótti þó einnig nauðsynlegt að komast í sveitina í Suður – Englandi  „Að hafa nóg pláss til að breiða úr huga mínum“ eins og hún orðaði það en hún hafði á yngri árum vanist löngum göngum í Cornwall.

Göngur og skriftir

Ef til vill koma hin nánu tengsl göngu, hugsunar og skrifta best í ljós þegar komið er til baka úr göngutúrnum og sest er við skrifborðið. Þá kemur í ljós hversu náskyldar göngur og skriftir eru í raun. Þegar við veljum okkur leið í gengum skóg eða borg verður heilinn að taka eftir umhverfinu og skapa hugarkort og taka ákvörðun fyrir fæturna um það hvaða leið þeir eigi að bera okkur. Á sama hátt láta skriftir heilann útbúa mynd af huglægu landslagi og finna leið í gegnum það og stjórna svo höndum okkar til að skrifa leiðina upp. Þannig raða göngur upp þeirri mynd sem við höfum af veröld okkar og skriftir raða svo upp hugsunum. Þannig má halda fram að kort þau sem Nabokov teiknaði séu endurkvæm, þau eru kort af kortum.

 

Ritstjórn janúar 2, 2015 17:02