„Göngurnar ekki síður góðar fyrir sálina en líkamann“

Margrét í vetrargöngu fyrir fjórum árum.

Þegar blaðamaður náði í Margréti S. Pálsdóttur var hún stödd í Nepal. Margrét er fædd 1941 og verður því 85 ára í ár. Hún var á göngu í Nepal í annað sinn á ævinni en hún fór þangað fyrra sinni fyrir 35 árum, þá fimmtug og það var hennar fyrsta fjallganga. Hún réðist því ekki á garðinn þar sem hann var lægstur.

Margrét bjó í Bandaríkjunum í mörg ár með þáverandi eiginmanni sínum en flutti heim þegar þau voru um fimmtugt. Hún segir að þegar yngsta barn þeirra vildi fara heim til Íslands til að fara í menntaskóla hafi þau látið slag standa og slitið hjónabandinu. ,,Það voru komnir brestir í hjónabandið eins og oft vill verða þegar börnin eru orðin uppkomin. Við tókum þessa ákvörðun yfirvegað, vorum vinir og erum enn og ég fór heim með dóttur okkar. Magnús  kynntist síðar annarri konu og við erum öll góðir vinir,“ segir Margrét en fyrrverandi eiginmaður hennar er Magnús Gústafsson, oft kenndur við Coldwater.

Fyrsta fjallgangan í Nepal

Margrét segist alltaf hafa stundað einhverja leikfimi en ekki byrjað að ganga á fjöll fyrr en hún flutti heim til Íslands. ,,Fram að því hafði ég auðvitað verið með ung börn og búið erlendis

Margrét S. Pálsdóttir á Hornströndum 2023.

en á þessum tímapunkti vildi ég finna fólk sem hefði göngur að áhugamáli. Ég vissi sem var að það var skemmtilegra að ganga í hópi en ganga einn svo ég gekk strax í Útivist og Ferðafélagið segir Margrét og brosir. ,,Þá voru það bara þau sem buðu upp á göngur en þó ekki að vetrinum. Svo var mér sagt frá kraftgöngunni í Öskjuhlíðinni sem var mjög góð og var í raun það sem kom mér almennilega af stað. Nú hafa sprottið upp fjöldinn allur af gönguhópum og fólk búið að átta sig á ánægjunni við göngurnar fyrir utan hvað það er heilsusamlegt,“ segir Margrét. Hægt er að fara inn á  Facebook og sjá þar möguleikana sem eru í boði eða bara inn á Kraftganga. T.d. eru Toppfarar góður hópur með vikulegar göngur og um helgar. Margrét hvetur alla til að prófa. ,,Það er aldrei of seint að byrja og hreyfingin er sannarlega ekki síðri fyrir sálina en líkamann,“ bætir hún við. ,,Svo kom einn daginn auglýsing frá Útivist þar sem var verið að auglýsa eftir fólki sem hefði áhuga á að ganga í Nepal. Dóttir mín rak augun í þetta og segir strax: ,,Mamma er þetta ekki eitthvað fyrir þig.“ Ég hafði strax samband við systur mína og mág og við fórum á kynningarfund þar sem var verið að segja frá þessari göngu og við létum slag standa. Það varð mín fyrsta fjallganga,“ segir Margrét og hlær.

,,Í fyrra sinnið sem ég gekk í Nepal gekk ég upp að grunnbúðum Everest eða að Kala Patthar sem er í 5550 metra hæð en um daginn  gengum við að grunnbúðum Annapurna sem er í 4200 metra hæð og er enn fallegri leið finnst mér en það eru mörg þúsund tröppur á leiðinni,“ segir Margrét.

Toppfarar að ganga á Réttarháls fyrir þremur árum, Margrét er lengst til vinstri. 

Vesen og vergangur og Álfarnir

Margrét segir frá sínum aðal gönguhópi sem nefnist ,,Vesen og vergangur“ þar sem Einar Skúlason ræður ríkjum. „Einar vinnur ómetanlegt starf fyrir okkur sem höfum tíma og áhuga á göngum og það eru ansi margir

Augað við Rauðufossa á leið inn í Landmannalaugar.

nú orðið,“ segir Margrét. „Svo er alltaf ball á nýju ári þar sem við komum saman og borðum og svo er dansað á eftir,“ segir Margrét og er alsæl og hlær að því að nú komist hún ekki svo glatt á ball lengur. Einar er með marga hópa í vikulegum göngum og um helgar ásamt lengri ferðum um landið að sumrinu og svo er Margrét nýfarin að ganga líka með hópi sem kallaður er Álfarnir. „Það er opinn hópur á Facebook sem gengur á mánudags- og fimmtudagsmorgnum klukkan 10 og alltaf gengið rösklega í tvo tíma. Þá eru ýmis svæði í Reykjavík og nágrenni skoðuð sem er mjög skemmtilegt. Einu sinni var til dæmis gengið um Setbergslandið en það hverfi þekkti ég ekki áður. Upplýsingar um hvar á að hittast er alltaf sett inn á Facebook kvöldið áður og ég mæli með þessum hópi.“

Var álitið skrýtið fólk

Ganga á Kirkjufell fyrir fjórum árum.

Margrét minnist þess að hér áður hafi þeir, sem sáust á göngu, svo ekki sé talað um að vera úti að hlaupa, vera skrýtið fólk. „Sem betur fer er  fólk almennt orðið meðvitaðra um heilsu sína en áður og verður þess vegna heilsuhraustara lengur,“ segir hún. „Ég er heppin með genin því foreldrar mínir voru heilsuhraust en þau voru uppi þegar fólk lét sér ekki detta í hug að auka erfiði sitt með því að hreyfa sig meira en nauðsynlega þurfti. Samt gengu þau á Eiríksjökul um sjötugt. Fengu ekki útsýni svo þau fóru aftur daginn eftir,“ segir Margrét og brosir. „Það var eins og bóndinn á Borgarfirði eystri sem var fenginn til að ganga með hópi fólks sem vildi ganga inn í Stórurð sem er einn stórkostlegasti staður á Íslandi. Þessi bóndi hafði sjálfur aldrei komið þangað og var mjög spenntur en sagði: „Af hverju hefði ég átt að ganga alla leið í Stórurð? Kindurnar fóru aldrei þangað.“ Svo var hann algerlega uppnuminn þegar þangað kom því landslagið þar er svo stórkostlegt. Þegar ég fór fyrst að ganga Víknaslóðirnar lentum við í snjókomu um miðjan júlí svo útsýni var ekkert. Þá benti leiðsögumaðurinn í áttina að Stórurð og sagði: „Þarna er til dæmis mjög fallegt landslag, þið verðið bara að trúa mér“ en við sáum ekki neitt. Svo fékk ég tækifæri til að fara þangað aftur seinna og þá gengum við í stórkostlegu veðri og fengum að upplifa dýrðina. Stórurð er einn af þeim stöðum sem ég vildi að allir sæju því staðurinn er svo magnaður.

Önnur stórkostleg ganga sem ég fór í var í Þórsmörk á afmælisdegi mínum fyrir nokkrum árum. Þá gengum við með Toppförum upp á Réttarháls og þaðan upp á Útigönguhöfða og áfram inn úr. Þar er líka svona stórbrotið landslag eins og í Stórurð sem lætur mann taka andköf af hrifningu.“

Hefur reynt ýmislegt um ævina

Margrét segir brosandi frá því að hún sé af þeirri kynslóð þegar konur fylgdu mönnum sínum. „Ég var að fljúga hjá Loftleiðum í eldgamla daga. Svo gifti ég mig og fór með manninum mínum til Danmerkur þar sem hann var að fara í nám.“ Þegar þau komu heim eftir Danmerkurdvölina starfaði Margrét sem einkaritari hjá Globus og Olíufélaginu. ,,Mig hafði alltaf langað til að vinna með

Hornstrandir á fallegum degi.

gömlu fólki og ákvað að prófa að vinna á Sóltúni þar sem ég endaði með að starfa í átta ár og virkilega naut þess tíma.“

Margrét og Magnús bjuggu í Óðinsvé þar sem fyrsta barn þeirra, Björn, fæddist 1966. Hann varð bráðkvaddur fyrir þremur árum aðeins 56 ára gamall. Næstur á eftir Birni fæddist annar sonur, Sigfús, 1968 en hann lést aðeins tuttugu mánaða. „Ég hafði verið að aðstoða móður mína sem hafði handleggsbrotnað og var að ryksuga hjá henni þegar Sigfús kom fram með blautar pillur í hendinni,“ segir Margrét. „Ég fékk pabba til að keyra mig upp á slysavarðstofu og man að ég sagði við hann á leiðinn: „Mikið er gott að búa ekki langt uppi í fjöllum og geta bara ekið til að fá hjálp.“ Ég rétti hjúkrunarkonu pilluglasið sem fór með það á bak við til að ráðfæra sig við lækna. Hún kom svo fram með glasið og sagði að þetta væri allt í lagi og ég skyldi bara fara heim með barnið. Það var aldeilis ekki allt í lagi því Sigfús sofnaði í fanginu á mér og ég gat ekki vakið hann. Ég fór þá í ofboði aftur upp á spítala en þá var það orðið of seint og hann lést. Ég fékk þarna sprautu í handlegginn óumbeðið, en var ekki boðin nein önnur hjálp. Þá þekktist ekki fyrirbærið áfallahjálp. Þetta var rosalegt áfall eins og gefur að skilja en það var ekkert um annað að ræða en halda áfram að lifa. 1970 eignuðumst við svo Einar og Jórunni, 1972 svo börnin urðu fjögur talsins.“ Og nú verður Margrét langamma í lok janúar í fyrsta sinn. Hún er búin að prjóna heimferðarsettið fyrir barnið og senda það til Noregs þar sem sonardóttir hennar býr en með henni hefur hún gengið bæði innanlands og í Noregi, Skotlandi og á Krít.

Hópurinn í Strútslaug síðastliðið sumar.

Það fer sem fer

„Ég hef það sem lífsmottó að það sé sama hvernig lífið snúist að þá verði það sem verða vilji. Ég hef þá staðföstu trú og þykir léttara að lifa þannig,“ segir Margrét eftir langa ævi og alls konar reynslu. „Mér þykir fólk oft leggja of mikla orku í áhyggjur og svartsýni. Suma hluti getur maður ekki ráðið við. Ég er til dæmis að fara í skíðaferð til Austurríkis fljótlega og ég er spurð að því hvort ég sé ekki búin að athuga hverjar líkur séu á góðu eða vondu veðri. Mér dettur ekki í hug að athuga það því ég mun ekki geta breytt neinu og það fer sem fer.“

Svo verðmætt að geta gengið á þessum aldri

Margrét segist ekki fá jafnaldra sína með sér í lengri göngur, sérstaklega ekki ef eitthvað er að veðri. ,,Það sem gerist þegar maður finnur vellíðunina við að ganga og yfirleitt vera úti undir beru lofti er að maður fer út hvernig sem veðrið er. Að ganga í vondu veðri getur oft verið mikil áskorun en um leið mjög skemmtilegt,“ segir Margrét. Síðustu áramótum varði Margrét í Þórsmörk með Útivist þar sem hún gekk í góðu veðri og naut lífsins. Hún var þar líka í fyrra á sama tíma en þá var allt á kafi í snjó en ekki síður skemmtilegt. „Þá vorum við bara meira inni við að spila og spjalla,“ segir hún og hlær.

Nú þegar Margrét fer til Austurríkis segir hún að hópurinn muni dvelja á dásamlegu hóteli þar sem maturinn sé unaðslegur og niðri sé svo einstaklega skemmtilegt svæði til að slaka

Skíðaferð í Austurríki 2023.

á eins og gufur og heitir pottar. „Þar er meira að segja vatnsrúm sem er himneskt að leggjast í eftir langan skíðadag,“ segir þessi fullorðna kona sem kann sannarlega að njóta lífsins, láta drauma sína rætast og lætur fátt aftra sér í því. Hún bætir við að ef áhugi, geta og efnahagur séu fyrir hendi skipti aldur ekki máli. Þó segir hún að eitt af því fáa sem hún haldi að sé ekki fýsilegt á þessum tímapunkti sé að hefja eitthvað alvarlegt nám. Hún segir hlæjandi að flest annað komi til greina.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.