Göngustafir auka öryggi og minnka álag

Ólafur Örn Haraldsson, göngugarpur, þjóðgarðsvörður og forseti Ferðafélags Íslands.

Ólafur Örn Haraldsson, göngugarpur, þjóðgarðsvörður og forseti Ferðafélags Íslands.

„Ég mæli tvímælalaust með því að fólk noti göngustafi þegar það er að ganga upp og niður fjöll, til dæmis þegar gengið er á Úlfarsfell, Mosfell, Esjuna svo dæmi séu tekin. Stafirnir létta gönguna og taka álag af hnjám. Hins vegar mæli ég ekki með því að fólk noti stafina á sléttlendi eða á malbiki. Þá eiga þeir til að þvælast fyrir,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, göngugarpur og forseti Ferðafélags Íslands. Stafirnir gagnast lítið í grýttu landslagi þar eiga þeir til að festast milli steina. Ólafur Örn minnir á að fólk þurfi að nota stafina með gát, þegar farið er um óspillta náttúru. Mosi tætist tætist til dæmis auðveldlega upp þegar fólk er með stafi og eins og flestir vita tekur áratugi fyrir mosann að jafna sig.

Sjálfsagður búnaður í fjallgöngum

Flestum sem ganga reglulega á fjöll þykja göngustafir sjálfsagður búnaður. Þeir þykja auka öryggi og gangan verður auðveldari þar sem þyngdin dreifist á fjóra punkta í stað tveggja. Fólk sem gengur í halla verður stöðugra og þeir eru mikið þarfa þing þegar farið er yfir ár eða gengið í óstöðugum jarðvegi.   Stafirnir létta álagi af hnjám og baki. Úrval af göngustöfum í útivistarverslunum er gott. Dýrari stafir eru oft léttari en þeir ódýru og gjarnan með dempara. Það þarf að vera auðvelt að stilla lengdina á stöfunum svo hæðin á þeim henti vel.  Þá þarf að hafa í huga að kriglurnar við broddinn séu með góðum frágangi. Annars stingast stafirnir í jörðina og festast þar og þá er lítið gagn að þeim.

Borgarbókasafn lánar göngustafi

Fyrir þá sem langar til að prófa göngustafi er hægt að heimsækja Ábæjarútibú, Borgarbókasafns Reykjavíkur. Þar er boðið upp á þá þjónustu að fá lánaða stafi í ákveðinn tíma. Það eina sem þarf til að fá lánaða stafi er að eiga gilt bókasafnskírteini. Svo er bara að drífa sig af stað, finna góða brekku og prófa stafina.

 

 

Ritstjórn júní 29, 2015 14:43