Grái herinn lætur reyna á tekjutengingar fyrir dómstólum.

Þessar miklu tekjutengingar hjá okkur eru einsdæmi og hvergi í nálægum löndum getur það gerst að regluverkið þurrki alveg út grunnlífeyri fólks frá hinu opinbera. Hér gera brattar tekjutengingar eða skerðingar það að verkum, að löngu áður en aðrar tekjur einstaklings ná því að slaga upp í miðlungstekjur í landinu, þá hafa tekjutengingar almannatryggingakerfisins þurrkað út allar lífeyrisgreiðslur frá því opinbera. Af þessu leiðir líka að hvergi í nálægum löndum er hlutur hins opinbera í eftirlaunum aldraðra minni en hér. Hér var hann 2,6% af vergri landsframleiðslu á árinu 2017 en á sama tíma var hann frá 5,4 til 11% af VLF á hinum Norðurlöndunum og meðaltal OECD landa var 8,2%.

Innan Gráa hersins, sem upphaflega var komið á laggirnar sem aðgerðarhópi innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hefur það lengi verið ríkjandi skoðun, að nauðsynlegt sé að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort þessar miklu skerðingar í almannatryggingakerfinu standist stjórnarskrá og almenn mannréttindaákvæði, t.d. um eignarrétt, jafnræði, meðalhóf og aflahæfi einstaklinganna. Í slíku máli myndu það vera einstaklingur eða einstaklingar, sem hefðu orðið fyrir barðinu á skerðingunum, sem væru kærendur, en þeir myndu þurfa að hafa öflugan fjárhagslegan bakhjarl og virkan stuðning frá öðrum þeim sem ættu þarna hagsmuni undir. Helsti þröskuldur í veginum fyrir því að hrinda þessu í framkvæmd hefur verið fjárhagslega hliðin, en ljóst er að slíkur málarekstur myndi kosta mikið fé, ekki síst ef málið þyrfti að fara upp eftir öllum dómsstigum og jafnvel enda fyrir Mannréttindadómstólnum úti í Strassborg.

En málið fékk nýlega góðan byr í seglin og tók mikinn kipp, þegar stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur ákvað að styrkja Gráa herinn um eina milljón króna til að ráðast í slík málaferli. Síðan hafa einnig borist loforð frá fleiri stéttarfélögum um stuðning uppá minni upphæðir. Í framhaldinu ákvað aðgerðarhópurinn að hafa það fyrirkomulag á fjármálum verkefnisins að stofna sjóð, Málsóknarsjóð Gráa hersins, með sérstaka stjórn og staðfesta skipulagsskrá sem uppfylli formkröfur laga nr. 19/1988 um sjóði og sjálfseignarstofnanir. Með þessu móti teljum við að fullkomið gagnsæi og öryggi verði best tryggt og sjóðurinn geti þannig notið óskoraðs trausts bæði þeirra sem styðja hann með framlögum og þeirra sem munu eiga hagsmuni sína undir honum.

 

Ritstjórn apríl 12, 2019 14:15