Nýr formaður Landssambands eldri borgara kjörinn

Um 130 manns eru á landsfundi Landssambands eldri borgara sem nú stendur yfir á Selfossi. Nýr formaður verður kjörinn á fundinum og eini  frambjóðandinn í kjöri  er Helgi Pétursson tónlistarmaður sem um tíma var hershöfðingi Gráa hersins. Helgi varð landsþekktur með Ríó Tríóinu á sínum tíma.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir lætur af formennsku í Landssambandinu, þar sem hámarkslengd þeirra sem gegna formennsku í því  eru 4 ár og hún hefur nú lokið sínum fjórum árum í formennskunni. Þórunn hefur hins vegar gefið kost á sér í þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík og er því ekki hætt baráttunni.   Þórunn er margreynd félagsmálakempa, hún var formaður Sóknar og Eflingar á sínum tíma og var fyrsta konan sem tók sæti í stjórn lífeyrissjóðs hér á landi.

Tvær kjarnakonur. Þórunn fráfarandi formaður og Aldís Hafsteinsdóttir

Miklar umræður eru á landsfundinum um kjaramál og  þau atriði sem Landssambandið hefur lagt fram sem áhersluatriði fyrir næstu alþingiskosningar. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að almennt frítekjumark í Almannatryggingum verði 100.000 krónur og að aldurrstakmarkanir verði lagðar af, til dæmis sú regla að opinberir starfsmenn hætti störfum sjötugir. Þórunn Sveinbjörnsdóttir lýsti sig á fundinum andvíga hvers kyns aldurstakmörkunum og vill að þær verði lagðar niður.

Þá hefur verið um það rætt að það þurfi að koma til einhvers konar millistigí búsetu  fyrir fólk, sem á orðið erfitt með að búa eitt heima, en þarf ekki að komast á hjúkrunarheimili. Þorbjörn Guðmundsson stjórnarmaður í LEB sagði á fundinum að þessi mál þurfi bráðnauðsynlega að leysa þannig að eldra fólk geti búið heima við öryggi og fengið þjónustu ef þörf er á.

Hjúkrunarheimilismálin eru einnig á dagskrá og bygging hjúkrunarheimila. Bent er á að það sé enn langt í lang í byggingu hjúkrunarheimila  og bent er á vanda sjúkrahúsanna við að útskrifa eldri sjúklinga.  Fyrir landsfundinum liggur ályktun þar sem lýst er yfir miklum áhyggjum af stöðu hjúkrunarheimilanna sem eigi í miklum rekstrarerfiðleikum.

 

Ritstjórn maí 26, 2021 14:11