Greiðslur ellilífeyris eða eftirlauna, frá Tryggingastofnun ríkisins, til fólks sem býr erlendis margfölduðust á árunum 2014 til ársins 2019. Árið 2014 fengu 160 manns greiddar samtals 44,7 milljónir króna inná erlenda reikninga, en á síðasta ári voru 450 manns með greiðslur erlendis, sem námu um 586 milljónum króna.
Ástæðan er sú að stöðugt fleiri sem búa í útlöndum eiga rétt til ellilífeyris á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá TR má skipta hópnum í tvennt. Annars vegar þá sem eru erlendir ríkisborgarar búsettir í útlöndum en hafa unnið hér á landi í lengri eða skemmti tíma, en hins vegar Íslendinga sem hafa sest að í útlöndum, einkum á Norðurlöndunum. Það er gjarnan fólk sem fór í nám til Norðurlandanna og ílentist þar, eða ungt fólk sem flutti út í kjölfar efnahagskreppunnar eftir að síldin hvarf 1968. Þetta fólk á gjarnan einhvern rétt í íslenska almannatryggingakerfinu og margir sem fóru til útlanda á árunum kringum 1970 eru nú komnir á eftirlaunaaldur og sækja rétt sinn hér. Annað sem hefur aukið þessar greiðslur er sú staðreynd, að eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur, öðlaðist erlent fólk réttindi hér sem það hafði ekki haft áður. Það eru því fleiri sem búa erlendis sem eiga réttindi hér á landi. Þá má sjá af tölunum að upphæðir sem greiddar voru inná erlenda bankareikninga tóku stökk milli áranna 2016-2017. Það er vegna breytinga á almannatryggingalögunum sem tóku gildi í byrjun árs 2017, en þá hækkuðu ellilífeyrisgreiðslur almennt. Langstærsti hluti þeirra sem býr erlendis var þegar búsettur þar þegar umsókn um ellilífeyri frá TR var send inn.
Af þessu dregur blaðamaður þá ályktun að þeir sem fá þessar greiðslur séu yfirleitt ekki fólkið sem ákvað þegar það var komið á eftirlaun, að setjast að í útlöndum til að drýjgja tekjurnar. Það fólk hefur að öllum líkindum ákveðið að nota áfram íslenska heimabankann sinn og getur í raun annast öll sín fjármál í gegnum hann. Það fær því áfram greiðslur frá TR inná sína íslensku bankareikninga, enda auðveldara en að opna erlenda bankareikninga sem er nokkuð mikið umstang og útheimtir töluverða vinnu.