Þegar fólk ákveður að slíta hjónabandi eða langtímasambandi fylgja því ávallt átök. Jafnvel þótt báðir aðilar séu sammála um að besta leiðin sé að slíta samvistum. Sú er hins vegar ekki raunin í tilfelli Nikulásar og Beu í skáldsögu Mou Herngren, Skilnaður. Bea er þess fullviss að hjónaband þeirra sé traust og gott og skilur þess vegna ekkert hvað gengur að eiginmanni hennar þegar hann gengur út eftir smávægilegt rifrildi og segist vera búinn að fá nóg.
Lesendur fá fyrst að kynnast hlið Beu, hvernig fótunum er kippt undan tilveru hennar og hún skilin eftir í frjálsu falli. Þau hafa verið saman í þrjátíu og tvö ár og þótt gefið hafi á bátinn af og til eru þau bestu vinir, helstu stuðningsmenn hvors annars og henni dettur helst í hug að Nikulás sé að ganga í gegnum einhvers konar miðlífskrísu eða sé beinlínis búinn að missa vitið. Alla vega þekkir hún hann ekki fyrir sama mann.
Síðan fær Nikulás orðið og þá kemur í ljós að skilnaðurinn á sér sannarlega aðdraganda. Í mörg ár hefur honum fundist hann lifa lífi sínu til að þóknast öðrum. Hans þarfir séu ævinlega settar til hliðar, ekki sé á hann hlustað og engan stuðning að fá, hvorki frá Beu né fjölskyldunni. Bea raunar elskar fjölskyldu hans og passar betur þar inn en hann sjálfur. Starfið er hætt að gefa honum lífsfyllingu, hann vinnur alltof mikið en samt er allt í járnum í fjárhagnum og ekkert af draumum Nikulásar hafa fengið að rætast.
Ekkert gerist í tómarúmi
Moa Herngren er höfundur bókarinnar Tengdamamman sem kom út á íslensku í fyrra. Þar eins og hér er varpað ljósi á erfiða togstreitu og átök í fjölskyldum frá sjónarhóli tveggja deiluaðila. Hér erum við neydd til að velta fyrir okkur hvort skilnaður eigi sér nokkru sinni stað í tómarúmi eða komi eins og þruma úr heiðskíru lofti. Allt á sér aðdraganda og enginn er nokkru sinni alsaklaus í samskiptum við annan. Bea er stjórnsöm, ákveðin og fókuseruð á að láta sína drauma rætast. Hún hlustar aldrei á eiginmanninn þegar hann reynir að koma sínum löngunum og tilfinningum í orð. En Nikulás er ekki saklaus heldur. Hann er fórnfús og hjálpsamur og vill styðja. Þess vegna er hann átakfælinn og þegar ekki er á hann hlustað flýr hann af vettvangi fremur en að berjast fyrir sínu. Og þegar menn gefa alltaf eftir og bakka safnast upp gremja og sárindi sem á endanum geta drepið þá ást sem eitt sinn var til staðar.
Bea skilur ekki hvað hún hefur gert rangt og festist í sjálfsvorkunn og biturð einkum eftir að Nikulás finnur fljótlega aðra konu og verður ástfanginn. Það er sorglegt, já í raun eiginlega átakanlegt að fá svona skýra innsýn inn í líf annarra. Finna sársauka þeirra og vanmátt við að takast á við aðstæður en einmitt það gerir þessa bók svo góða, svo raunsæja og sanna. Það er erfitt að finna hér sökudólg eða áfellast annað hvort þeirra. Bea missir auðvitað mest, frá hennar sjónarhóli í raun allt. Nikulás virðist með pálmann í höndunum eftir að rykið tekur að setjast. Samt er ekki hægt annað en að skilja hvers vegna hann fór.
Þetta er frábærlega skrifuð bók, vel úthugsuð og til þess fallin að vekja mann til umhugsunar um eigin sambönd og tengsl. Hvenær segjum við nóg? Getum við áfellst aðra fyrir að skilja ekki líðan okkar ef við tölum ekki um hana, ef við segjum aðeins hálfa söguna og gefum eftir við minnstu mótstöðu? Hver og einn svarar auðvitað fyrir sig en Moa Herngren hefur skapað sannfærandi fjölskyldudrama, hrífandi bók sem grípur lesandann föstum tökum og sleppir ekki fyrir en hún hefur verið lesin til enda.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.