Guðjón Þórðarson sestur á skólabekk

„Ég er í einskismannslandi þessa stundina, atvinnulaus og hef verið það í tvö ár. Það er leiðindatími en það þarf að takast á við það eins og hvað annað. Þó að ég hafi ekki alltaf verið með vinnu samfellt þá er ég óvanur því að vera atvinnulaus svona lengi,“ segir knattspyrnuþjálfarinn Guðjón Þórðarson.

Atvinnuleysið er „niðurdrepandi tími og reynir svolítið á“ og Guðjón hefur fengið á tilfinninguna að hann „sé kominn fram yfir síðasta söludag“ þegar hann hefur sótt um vinnu og reynt að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. „Það er mjög áberandi í því ferli þegar sótt er um vinnu að maður þykir gamall. Það er líka alveg ný upplifun fyrir mig,“ segir hann.

Ekkert stoppar hann

Guðjón er á besta aldri, fæddur 1955, og spyr hvernig í ósköpunum hann geti þótt gamall þegar hann sé á þeim stað í lífinu að ekkert stoppi hann. „Á þessum aldri þarf maður ekki að taka sér frí af því að það er starfsdagur í leikskólanum. Maður veikist ekki þó að það fréttist af flensu í þjóðfélaginu. Maður er heilsuhraustur og leggst ekki í rúmið þó maður fái kvef eða flensu. Ég myndi halda að svoleiðis maður væri góður starfskraftur,“ segir hann.

Guðjón hefur sótt um tugi starfa síðustu tvö árin, svo mörg störf að hann hefur misst töluna á því hve margar umsóknirnar eru orðnar. Honum finnst eins og hann eigi frekar möguleika á að fá vinnu erlendis en hér á landi. Hann bjó erlendis í rúm átta ár en var búinn að fá nóg þegar hann flutti heim um áramótin 2009-2010 og ætlaði ekki að flytja aftur utan. Hann var með vinnu við knattspyrnuþjálfun á Vestfjörðum 2011 og Grindavík 2012 og hefur ekki verið í fastri vinnu síðan.

Guðjón sótti í sumar um að komast í nám, verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun, í Endurmenntun HÍ, „til að reyna að hræra í hausnum á mér,“ segir hann og útskýrir að námið taki einn vetur. Það sé ætlað fólki í fullri vinnu þannig að skólinn sé síðdegis og á kvöldin og hópavinna svo þar fyrir utan.

Reynir að potast áfram

Námið þykir honum spennandi og skemmtilegt og hann segist líta það björtum augum. „Það er ný reynsla að labba inn í skóla. Reyndar tók ég krefjandi námskeið í Englandi fyrir fimm árum en það var æðsta þjálfaramenntun hjá enska knattspyrnusambandinu. Maður er alltaf að reyna að potast áfram,“ segir hann.

Frá 1990 hefur Guðjón verið þjálfari að aðalstarfi og gegnt ýmsum fótboltatengdum störfum. Í Englandi starfaði hann sem framkvæmdastjóri og það segir hann að sé allt öðruvísi en hér á landi. Framkvæmdastjórar í Englandi sjái um samningamál, peningamál og fjárhagsáætlun sem lýtur að leikmönnum. Starfið í atvinnumennskunni sé töluvert umfangsmeira en hér heima, framkvæmdastjórarnir þurfi til dæmis að skipuleggja öll ferðalög í samráði við aðila innan félagsins.

Fótboltann til hliðar

Guðjón Þórðarson árið 1987

Guðjón Þórðarson árið 1987

Með því að fara í námið vill hann reyna að þroska sjálfan sig, fá áskorun og takast á við eitthvað sem hann hefur ekki gert áður. „Mér finnst það heillandi en svo er aldrei að vita nema það leiði af sér eitthvað annað. Það verður bara að koma í ljós,“ segir hann og kveðst vera með æðstu gráðuna sem hægt sé að taka í Evrópu í sínu fagi, fótboltanum, en sé til í að breyta um og fara í allt annað. „Ég hef verið tilbúinn til að skoða eitthvað allt annað, leggja fótboltann til hliðar og sótt um þannig störf en ekki komist inn,“ segir hann.

Þegar Guðjón sækir um störf heyrir hann mikið þá skýringu að hann sé of gamall. Hann segir áberandi að leitað sé að yngra fólki, þannig hafi til dæmis opinber stofnun, Vegagerðin, skorað á ungt fólk að sækja um. Hann hefur lengi unnið sem stjórnandi og veltir því upp hvort þá sé kannski verra að komast í hefðbundin störf, hvort menn haldi að hann verði eins og heimaríkur hundur á nýjum vinnustað af því að hann hafi unnið við stjórnun í langan tíma.

„Ég hefði haldið að það væri ávinningur að fá til starfa menn með reynslu sem sýnt hafa aga í vinnu og tileinkað sér ýmsa þætti,“ segir hann og bætir við að atvinnulífið „snertir mann ekki ef litið er svo á að maður sé kominn fram yfir síðasta söludag. Það virðist því miður vera þannig. Þegar ég heyrði að fólk yfir fimmtugu ætti erfitt með að fá vinnu þá hélt ég alltaf að það væri kjaftæði þar til ég reyndi það sjálfur,“ segir hann.

Guðjóni Þórðarsyni finnst hann ekki vera að eldast. Hárin á hausnum segir hann að séu kannski heldur færri en áður og kílóin of mörg en hann segist hafa driftkraftinn og eldinn ennþá. „Ég finn ekki að ég sé kominn með hátt hrörnunarstig en auðvitað lít ég ekki út eins og þrítugur. Ég er ekki sama stálfjöðrin og ég var en ég hef reynslu og hugurinn er í meira jafnvægi. Ég er í miklu betra standi að mörgu leyti. Það er óhemjumargt sem maður hefur fengist við í gegnum tíðina, reynslan kemur ekki nema maður upplifi hlutina,“ segir hann.

Guðjón á Florida ásamt sambýliskonu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur

Guðjón á Florida ásamt sambýliskonu sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur

 

 

 

Ritstjórn nóvember 8, 2014 11:00