Ferðaraunir í faraldri

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

„Farið strax til herbergja ykkar og haldið ykkur þar,” skipuðu tveir vopnaðir lögregluþjónar sem stöðvuðu kvöldskemmtun hótelsins þar sem við hjónin vorum í marsbyrjun á Tenerife. Við höfðum dvalið þar í viku með vinahjónum okkar, í ferð sem var löngu skipulögð áður en bannsett veiran lét á sér kræla. Við vissum svo sem af því austræna kvikindi þegar nær dró en tókum sénsinn. Enn var allt opið, bæði hér á landi og á Tenerife. Þar hafði veirunnar að sönnu orðið vart á einu hóteli en það var sett í sóttkví í heilu lagi þar sem lögregla stóð vakt dag og nótt og gætti þess að enginn laumaðist út.

Við höfðum notið veðurblíðunnar í viku þegar löggurnar komu og breyttu öllu. Það var raunar að mestu rólegt í veirumálum á Tenerife á þeim tíma en hið sama átti ekki við á Spáni meginlandsins. Þar fjölgaði smitum hratt. Öllu var því skellt í lás þar í landi. Tenerife tilheyrir Spáni, þótt langur vegur sé á milli, og sömu reglur gilda á hjáleigunni og höfuðbólinu. Við vorum því sett í stofufangelsi í miðju vetrarfríinu. Það er óspennandi, svo ekki sé meira sagt. Ekki bætti úr skák að norskt flugfélag, sem flutt hafði okkur í suðurhöfin, aflýsti heimflugi okkar. Við vorum því strandaglópar ofan í kaupið.

Góð ráð voru því dýr. Þótt dásemd sé að dvelja um stund í suðrænum hita og láta sjóinn leika um tærnar í flæðarmálinu versnar í því ef öllu er lokað. Það var sett á okkur útgöngubann. Lögreglubílar með gjallarhorn óku eftir götunum og ráku alla heim. Strandlíf og gleði var fyrir bí. Heimild var gefin fyrir einn úr hverri fjölskyldu eða hópi til að fara í nálæga matvörubúð, hraðbanka eða apótek. Annað var bannað.

Hótelherbergi er fínt til síns brúks, þ.e. að sofa þar yfir blánóttina og sturta sig á morgnana. Þar er hins vegar daufleg vist daglangt, jafnvel þótt svalir fylgi. Við settum því allt í gang til að koma okkur heim sem fyrst. Það tókst, með góðra manna hjálp, eftir þriggja daga innilokun. Björgunarflugvélar frá Icelandair voru sendar eftir okkur og öðrum strandaglópum, þökk sé því ágæta flugfélagi. Það stóð sig betur en norsku skrattakollarnir sem skildu okkur eftir – og hafa enn ekki endurgreitt okkur heimferðina og munu sjálfsagt aldrei gera.

Við vissum fyrirfram að engin þjónusta yrði um borð, aðeins vatnsflaska afhent við innganginn. Við hjónakornin sátum ekki saman í vélinni og sættum okkur vel við það, flóttamenn sem við vorum. Ég sat við glugga, innan við tvær konur, og drakk ekki úr flöskunni fyrr en við lendingu í Keflavík, svo ákveðinn var ég í að pissa ekki á heimleiðinni þótt flugtíminn sé alllangur. Við vorum svo fegin heimkomunni að við lá að við kysstum malbik föðurlandsins, líkt og páfi gerir í heimsóknum sínum til hinna ýmsu landa.

Við fórum beina leið í fjórtán daga sóttkví. Börnin okkar fóru í búðir og svo við fengjum næringu í kroppinn og barnabörnin komu annað slagið og horfðu á ömmu og afa í gegnum stofugluggann, líkt og þau hafa áður skoðað aðra prímata í dýragarði. Við vinkuðum.

Við vorum sammála um að láta þetta okkur að kenningu verða og sleppa öllum utanlandsferðum á næstunni, eða þar til um hægðist í veirumálum heimsbyggðarinnar. En holdið er veikt þótt andinn sé að sönnu reiðubúinn. Þegar Þórólfur og hans fólk slakaði á og hleypti ferðabransanum í gang á ný freistaði það okkar að heimsækja okkar fólk í Kaupmannahöfn, en þar eigum við son, tengdadóttur og fjögur barnabörn. Eitt þeirra á afmæli í ágúst svo við létum slag standa og pöntuðum okkur vikuferð til borgarinnar við sundin. Þar áttum við dásamlegar stundir eins og vænta mátti. En ballið var ekki búið. Um miðja þá viku bárust þau tíðindi yfir hafið að nefndur Þórólfur hefði fengið nóg af ferðamönnum, hvort heldur innlendir væru eða útlendir og ætlaði sér að setja stopp á allt flandur manna og veiru landa á milli. Fór þá um Gvend og meyna, eins og sagt er. Við sáum fram á aðra sóttkví við heimkomu og tvöfalda skimun og allt það vesen sem slíku fylgir. Einkum óttaðist ég skimunina en í sjónvarpinu hef ég séð fólk í geimfarabúningum troða pinnum svo langt upp í nef fórnarlamba að þeir hljóta að nema við litla heila, eða jafnvel sjálfan heilastofninn. Við slíku má maður varla, einkum þegar komið er á virðulegan aldur og full not eru fyrir þær heilasellur sem enn eru í kollinum.

Við sluppum þó með skrekkinn. Heimferð okkar frá Kaupmannahöfn var rétt áður en ferðabannið skall á með sóttkví og tilheyrandi. Við sátum grímuklædd í flugvélinni, með vatnsflöskur, og hreyfðum okkur hvergi úr sætunum uns lent var á Miðnesheiðinni. Ég leyfði mér þó að drekka úr flöskunni á miðri leið enda styttra heim frá Köben en Tenerife.

Við vorum algerlega sammála um það, enn og aftur, þegar heim kom að nú létum við allar utanlandsferðir eiga sig það sem eftir er þessa undarlega árs, 2020.

Auðvitað er hugsanlegt að Þórólfur slaki á klónni um veturnætur og opni á ný. Þá er vissulega möguleiki á því, ef enn lifa einhver ferðaþjónustufyrirtæki og flugfélög, að boð berist um einkar hagstæðar ferðir til heitu landanna, þar sem volgur sjór leikur um tærnar. Hverju ætti maður þá að svara ef frúin gleymir sér í íslenskum hríðarhraglanda og skammdegismyrkri og segir si svona: „Ættum við að skreppa?”

Jónas Haraldsson september 21, 2020 08:44