Hægt að ná góðum myndum af öllum

Allir hafa einhvern tíma staðið andspænis því að þurfa að láta taka af sér ljósmynd, fyrir vegabréf, til að birta í félagtali, samfélagsmiðlum og þannig mætti áfram telja. Ásta Kristjáns rekur ljósmyndastofuna Studíó 8 og hefur sérhæft sig í portrett-myndum af fólki á öllum aldri. Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður talaði við hana fyrir Lifðu núna.

Hvernig á fólk að undirbúa sig fyrir ljósmyndatöku?

„Undirbúningur undir ljósmyndatöku á stofu er margvíslegur. Fólk þarf að ákveða í hverskonar klæðnaði það vill vera í. Ég bið fólk gjarnan að koma með föt til skiptanna og svo tek ég bæði andlitsmyndir og heilmyndir. Konur undirbúa sig oft með því að fara í förðun og hárgreiðslu áður en þær koma í myndatökuna en það er alls ekki nauðsynlegt,“ segir Ásta.

Hvernig fær eldra fólk fallegar myndir af sér?
„Ég legg áherslu á góða lýsingu og svo vinn ég mikið með myndirnar í Photoshop. Þá er ég að gera húðina fallegri, lýsa upp svæði á andlitinu sem gera fólk meira aðlaðandi, svo sem að hvítta augu og tennur, jafna húðlit og laga stundum „kjálkalínuna“. Ég legg mikla áherslu á að fólki líði vel í myndatökunni, hjálpa því að slaka á, reyni að ná „inn í sálarkjarnann“. Þá er fólk síður stíft og óeðlilegt á myndunum.“

Bros í augum mikilvægt

Hvaða litir eru bestir fyrir eldra fólk á mynd?
„Það er allur gangur á því, fer eftir því hvernig húðliturinn er og hvernig „stíll“ fólks er. Aðalmálið er að fólkinu líði vel í því sem það er í, hvort sem það er hvítur stuttermabolur eða dragt, svo dæmi sé nefnd. Ég nota yfirleitt náttúrulega liti í bakgrunni, svo sem hvítt, grátt, svart eða ljósbrúnt. Liti sem stela ekki athygli frá manneskjunni. Ég legg líka mikla áherslu á að hjálpa fólki að slaka á fyrir myndatökuna, ná „inn í sálarkjarnann“, þá er það síður stíft og óeðlilegt á myndunum.““

Hvort er betra fyrir öldruð andlit að brosa eða vera alvarleg?
„Ég reyni alltaf að fá fólk til að brosa, að minnsta kosti í augunum. Ég reyni að taka bæði alvarlegar og brosandi myndir. Svo getur fólk valið á eftir hvað því líkar.“

Er mikill munur að taka myndir af eldra fólki eða ungu fólki?
„Já, það er mjög mikill munur. Aðallega er munurinn sá að nýja kynslóðin er alltaf að taka myndir af sér fyrir samfélagsmiðla og er þar af leiðandi vant myndavélinni. Kann að stilla sér upp og þekkir bestu hliðarnar á sér. En að sama skapi setur það gjarnan upp ákveðinn gervisvip sem erfitt er að brjóta upp. Eldra fólki getur fundist erfitt að vera fyrir framan myndavélina, sérstaklega á þetta við um konur. Þær eru þá óánægðar með sjálfar sig. Byrja á að tala um að þær myndist illa og enginn geti tekið góðar myndir af þeim. Þetta er vinsæl athugasemd. Ég veit hins vegar að það er hægt að ná góðum myndum af öllum. Ég hef myndað þúsundir manna og aldrei lent í því að það sé ekki hægt að fá góða mynd af einstaklingi. Leiðin til að ná góðri mynd er að vanda sig og leggja sig fram. Ég segi stundum að módelið endurspegli líðan ljósmyndarans, hvernig orku hann gefi frá sér.“

Ljósmyndarinn Ásta að störfum

Vann sjálf sem fyrirsæta

Hvar lærðir þú ljósmyndun?
„Ég var um tíma í Parsons í New York svo vann ég sjálf sem fyrirsæta. Ég lærði mikið af ljósmyndurum sem voru að mynda mig, þeir kenndu mér fullt að „trikkum“. Í Tokyo fór ég að mynda fólk á götunni og seinna meir fyrirsætur sem voru að vinna með mér. Það hefur og hálpað mér að hafa reynslu af að sitja fyrir framan myndavélina. Mest er ég þó sjálflærð. Reynslan er mjög góður skóli“

Hvað ráð gefur þú eldra fólki sem vill fá góðar myndir af sér?
„Ef fólk fer til góðs ljósmyndara þá á það ekki að þurfa að hafa áhyggjur af slíku. Ljósmyndarinn sér um að láta fólki líða vel og slaka á. Hjálpar því að stilla sér upp þannig að það náist mynd af „bestu útgáfunni“ af viðkomandi manneskju. Gott er að fólk komið úthvílt í myndatöku, heppilegt er að borða ekki mikið saltaðan mat daginn áður svo það sé ekki bólgið í andliti og augum. Það er heppilegt að láta taka myndir af sér í góðu formi. Sofa vel og gefa sér góðan tíma í myndatökuna. Jákvætt hugarfar skiptir líka máli. Ekki tala sig niður.“

Kristján Guðlaugsson: Mynd eftir Ástu

Náttúruleg förðun best

Hvað með hópmyndir, t.d. af fjölskyldu eða saumaklúbbum?

„Ég fæ stundum vinkonuhópa sem gera skemmtun úr öllu saman. Stilla sér upp í myndatöku og fara svo út að borða á eftir. Ég fæ líka oft ömmur og afa sem láta mynda sig með barnabörnum. Í nútímanum er góð mynd nauðsynleg, svo sem á vefsíðum fyrirtækja, á samfélagsmiðlum. Þægilegt er líka að eiga til góðar myndir af sér sem má senda ef fólk fer til dæmis í viðtöl.“

Hvernig förðun kemur best út á mynd?“

„Ég er ekki hrifin af að konur setji á sig mikið meik, það vill oft fara ofan í línur í andlitinu. Fallegust er létt og náttúruleg förðun. Gott er þó að styrkja augnsvipinn með dökkum en náttúrulegum litum. Hvað lýsingu snertir þá nota ég bæði náttúrulega lýsingu og stúdíóljós, blanda því jafnvel saman. Það kemur vel út. Ég gæti þess að vera sjálf vel undirbúin og gefa frá mér jákvæða orku þannig að fólk treysti mér og finnist það í öruggum höndum þegar það kemur í myndatöku til mín.“

Tekur þú myndir í gegnum filter eins og sagt var að gert hefði verið við eldri leikkonur?
„Sumir nota filter ennþá. Ég nota sjaldan filter en vinn myndirnar vel eftir á og vanda mig við að hafa fallega lýsingu.“

Hvort er heppilegra fyrir eldra fólk að sýna hliðarsvip eða taka mynd beint framan í andlitið?
„Það fer eftir því hvernig andlitsfall fólk hefur. Ég legg áherslu á að fólk sé beint í baki. Sumum fer betur að sitja en öðrum að standa. Mestu skiptir að ná fólki einlægu, gleði sé í augunum þess og fram komi persónuleiki viðkomandi á myndinni.“

Ritstjórn mars 30, 2020 08:36