Hætti í pólitík og svaraði kallinu

Valgerður H. Bjarnadóttir, á langan og farsælan feril í kvennapólitík. Hún er félagsráðgjafi og varð mjög ung forseti bæjarstjórnar á Akureyri og síðar framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Þegar hún lét af störfum þar ákvað hún að láta drauma sína rætast. Hún hafði stuttu áður lokið M.A.-námi þar sem hún leitaði svara við ýmsum lífsins spurningum. Hún ákvað að nýta reynsluna og námið af ólíkum sviðum í að byggja upp námskeið, þar sem fólk lærir að þekkja sjálft sig betur og skilja í gegnum söguna og trúar- og menningararfinn.

Valgerður hefur komið víða við á lífsleiðinni og fetað ólíka vegi. Hún fór til Noregs í félagsráðgjöf og var virk í kvennapólitík. Hún var fyrst kvenna til að gegna stöðu forseta bæjarstjórnar Akureyrar en hlutirnir voru ekki jafngóðir heima við. Barnsfaðir og sambýlismaður Valgerðar beitti hana ofbeldi og þegar hún flúði heimilið með dóttur sína, fann hún að hún yrði að hlýða kallinu um að leita svara sem lúta að innri þáttum, menningu og sögu og áhrifum þeirra á stöðu og samskipti kynjanna.

Hún hóf nám í Bandaríkjunum í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu, auk B.A.-náms í draumafræðum. Í dag heldur hún námskeið og notar sögur, goðsagnir, drauma, hugleiðslu og mannkynssöguna sem fólk getur nýtt sem spegla fyrir sig og heiminn.

Í ofbeldissambandi og kvennapólitík á sama tíma

„Ég kom inn í bylgju í kringum 1980 sem varð í kjölfarið á kvennafrídeginum 1975 en kvennaframboðin sem urðu til 1982 voru óháð hvort öðru fyrir norðan og sunnan. Jafnréttishreyfingin var stofnuð á Akureyri 1981 og Kvennaframboðið spratt út úr því. Ég var að vinna sem félagsráðgjafi og ánægð í mínu starfi en var valin til forystu þarna 28 ára.

Ég fór í bæjarstjórn og í ferlinu kynntist ég manni, varð ástfangin og við eignuðumst barn en hann reyndist ofbeldismaður og ég var þarna í undarlegu fangelsi í tvö ár þar sem ég var forseti bæjarstjórnar og baráttukona út á við, en hrædd um líf mitt og barnsins heima. Ég komst út úr þessum aðstæðum og hóf þá mikla sjálfsskoðun. Við svona ofbeldi brotnar eitthvað í þér og þó að ég sýndi styrk út á við þá var sjálfsmyndin í molum og ég þurfti að byggja hana upp aftur. Ég byrjaði að fara djúpt inn á við og leita leiða sem hentuðu mér. Ég hafði reyndar alltaf haft þörf fyrir andlega næringu, enda alin upp við slíkt og þarna kom þörfin fyrir að skilja hvað gerðist, af hverju svona ofbeldi verður til, hvað viðheldur feðraveldinu og hvað þessi heimur geri við karlmenn.

Ég ákvað því að fara í framhaldsnám, læra um trúarsöguna og menningarsöguna og fá svör. Ég vildi finna rótina að þessu og fór til San Fransiskó í masters-námið. Við skoðuðum ræturnar um 40 þúsund ár aftur í tímann og byggðum m.a. á kenningum Mariju Gimbutas, fornleifafræðingi, málvísindakonu og þjóðfræðingi. Hún setti fram mjög spennandi kenningar á 9. og 10. áratug síðustu aldar um gyðjumenningu til forna að Gyðjan mikla hafi verið miðja tilverunnar allt þar til fyrir einum 7.000 árum að karlstýrt stigveldi fór vaxandi. Í dag eru flestar hennar kenningar óumdeildar.“

 

Sjálfsskoðun með speglum menningar, trúar og samfélags

Valgerður kom heim úr náminu og tók við stöðu framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Hún hætti 2003, stofnaði Vanadís, rætur okkar, draumar og auður og hefur verið með námskeið þar síðan.

„Við vinnum með gyðjumenninguna, þróun menningar t.d. hjá Súmerum, Egyptum, Grikkjum, Keltum o.s.frv., hvernig mismunandi menning hefur haft áhrif á okkar menningu frá landnámi til dagsins í dag. Við förum í gegnum kristnina, hvernig hún varð til, hvaða áhrif þetta hefur haft á menningu og sjálfsmynd okkar. Í gegnum þessa þætti vinna konur og stundum karlar með sjálf sig og samskipti í daglegu lífi og hvernig þau geti nýtt þetta til að styrkja sig. Mér finnst mikilvægt að finna út hvaða spegla við getum notað í þessari vinnu fyrir fólk í okkar nútímasamfélagi til að varpa ljósi á stöðu, ímynd og sjálfsmynd kynjanna.“

Valgerður segir að margir hafi haldið fram, og það komi víða fram, t.d. fram í Snorra-Eddu, að áður fyrr hafi fólk litið á jörðina sem móður sína, lifandi veru, og smám saman hafi fólk farið að gera sér hugmynd um almætti sem lífgefandi vald sem gefur og tekur.

„Allra elstu gyðjumyndir heims draga upp myndir af einhvers konar kvenlægum guðlegum krafti, e.k. gyðju sem er allt – lífið og dauðinn, myrkrið og ljósið.

En svo gerðist það að fólk fjarlægðist náttúruna, sérstaklega með tilkomu borga og hóf að persónugera goðin og skipta þeim upp.“

 

 Stríð breyta heiminum

Valgerður telur að fyrir 6-7 þúsund árum hafi eitthvað gerst í náttúrunni sem gerði það að verkum að stríð hófust og karlar fóru burt í hópum frá stöðum þar sem erfiðleikar voru og lögðu undir sig ný lönd. Við það varð til menning þar sem karlar voru ráðandi og smám saman hafi konur misst réttindi sín og hlutverk.

„Þetta sjáum við í ýmsum löndum, t.d. Sýrlandi, Mesópótamíu, Egyptalandi og víðar, lögin hreinlega breyttust, við getum lesið ritmál þjóða svo langt aftur. Konur hafa haft nokkuð jafna stöðu á við karla þegar t.d. fyrstu lögin voru rituð í Súmmeríu fyrir um 4000-5000 árum en svo breyttist samfélagið og lögin með og um 7000 f.o.t. má lesa þar svona bókstaf: „Ef kona talar þannig að manni hennar mislíki þá má hann taka múrstein og berja úr henni tennurnar.“

„Því miður er ég ekki komin með einhlítt svar við því hvers vegna þetta breyttist, ég held að ástæðan sé margþætt. Hluti af þessu sé að þegar einhverjir hópar á jaðrinum komist meira til valda þá sjái þeir þá sem voru fyrir sem óvin. Gyðjan varð óvinurinn, við sjáum þetta sterkt í eingyðistrú, gyðingatrú og íslam að gyðjan er hóran sem allt illt kemur frá. Gyðingarnir sem skrifuðu Biblíuna, ef sagan er rétt, voru í ánauð í Babýlon og þar var gyðjan Íshtar yfir öllu. Hún varð því tákn ánauðar Gyðinga. Það og fleira varð til þess að kvenlægur þáttur guðdómsins var skrifaður út, guð skyldi vera einn og karlkyns.“

Maríurnar í kristni

Aðspurð segir Valgerður að Maríurnar í kristinni trú séu ekki frábrugðnar gyðjunum og freyjunum í heiðni. „Við vitum með nokkurri vissu að Maríurnar voru raunverulegar konur og að Jesús var maður. Samt er hann kallaður guðlegur af kirkjunni en ekki konurnar. Í gegnum árþúsundin hefur mey- og móðurgyðjan fætt af sér son sem deyr eða hún hefur átt ástmann sem deyr og svo rís hann upp frá dauðum en stundum er það hún sem rís upp frá dauðum. Sú saga er mörg þúsund ára gömul og fjallar um hringrás náttúrunnar í raun en þetta gaf fólki von um líf eftir dauðann.

Jesús tekur við þessu hlutverki í eingyðistrúnni. Hann var réttur maður á réttum tíma og nær vel til fólks. Það varð til söfnuður með konum og körlum og sagt frá því í Nýja testamentinuog á síðustu öldum hafa fundist frumkristnir textar, kenndir við gnostík,  þar sem meiri áhersla er lögð á þátttöku kvennanna. María Magdalena virðist hafa verið mjög náin honum þessi síðustu ár en deilt er um hvort hún hafi verið kona hans, félagi eða ástkona. Þau virðast hafa unnið mikið saman og hún verið leiðtogi sumra kristinna hópa sem héldu áfram, á meðan Pétur og Páll postular leiddu aðra hópa.“

Á tíma Jesú var gyðjudýrkun um alla Evrópu og Miðausturlönd. Þegar fólk fór að móta kristnar hugmyndir og búa til ólíka söfnuði voru sumir sem héldu fast í gyðingatrúna, einn guð, en margir söfnuðirnir urðu fyrir áhrifum af hugmyndum um gyðjuna og heimspekilegum hugmyndum um viskuna, Sófíu. Það að engin kona væri inni í guðdómsmyndinni var óhugsandi fyrir flestar þjóðir og gyðjumyndin var mjög mikilvæg í Rómaveldi þar sem kristni var viðurkennd á 4. öld. Þá verður María mey hjá sumum að þessari miklu móðurgyðju sem er tákn fyrir kærleikann og tók við því hlutverki af gömlu gyðjum. Þessi arfmynd er okkur mönnunum nauðsynleg og mótvægi við föðurinn sem þjáist á krossinum og er svolítið fjarlægur. Hún tekur þig í fangið, huggar þig og styður, eins og móðir. Hún er gerð óflekkuð og er mótvægið við Evu sem bar synd inn í heiminn, skv. Biblíunni. María Magdalena varð líka mjög vinsæl, bæði í frumkristni og aftur á miðöldum. Það hafa verið dregnar upp alls konar myndir af henni allt frá því að hún hafi verið vitur leiðtogi í söfnuðunum til þess að skilgreina hana sem hóru sem iðrast sáran synda sinna. En í gnosktísku ritunum segir Jesús að enginn skilji eins vel lögmál tilverunnar og hún. Sama hvað reynt er að taka kvenleikann út úr trúarbrögðum þá finnur hann sér alltaf leið.“

Valgerður segir að þegar lúterstrúin hóf innreið sína hér á landi, hafi kvenkynsdýrlingar í kristni verið fjarlægðir. Þá hafi Íslendingar snúið sér að því að elska álfkonuna en María mey lifði þó áfram í hugum margra.

„Þessar kvenímyndir eru alls konar. Andlegir og veraldlegir valdhafar hafa skilgreint Maríu mey sem óflekkaða og algóða en María Magdalena er alls ekki skilgreind þannig. Annars vegar gerir það okkur kannski auðveldra að spegla okkur í henni, en hins vegar virkar það til að halda okkur niðri, eins og Eva er notuð. Magdalena og Eva eru syndugar skv. kristni. Eva kallaði bæði synd og dauða yfir mannkynið og allar konur eru samsekar. Magdalena er myndbirting þessarar sektar. Listaverk af henni sýna hana mjög oft á kynferðislegan hátt og fulla af skömm.

Með því að skoða kenningar um þessar konur í gegnum aldirnar þá sést að áhrif þeirra eru bæði uppbyggileg og eyðileggjandi. Þessar ímyndir hafa haldið konum niðri en líka verið konum styrkur. Með því að skoða þessa mótsögn, ólíkar hliðar þeirra og hvernig þessar hugmyndir mótuðust þá held ég að við getum lært mikið um sjálfar okkur og um samfélag okkar.“

Draumar spegla líf okkar

Valgerður hefur haldið námskeið um drauma í áratugi og nú í samvinnu með Elísabetu Lorange undir yfirskriftinni: Draumsaga. Hvernig nálgastu og líturðu á drauma? „Ég vitna bara í orð eins helsta draumasérfræðings síðari tíma, Carls Jung sem sagði: „Ég hef ekki hugmynd um hvað draumur er,“ segir hún og hlær. „Það veit enginn. Ég lít þannig á að draumvitund okkar rúmi mun meiri þekkingu og visku en meðvitundin. Tungumál drauma er táknmál. Annars vegar tákn sem virðast gróin í manneskjuna og birtast í goðsögnum og ævintýrum og hins vegar táknmál sem er undir áhrifum af okkar menningu og lífi. Í samtali meðvitundar og draumvitundar getum við náð að skilja margt sem rökhugsun okkar nær ekki að skilja.

Ég nota þá á sama hátt og ég geri með goðsagnirnar og þau tákn öll, því það eru oft sömu táknin sem búa í menningarsögunni og draumsögunni. Hér á landi höfum við lifað í ótryggu náttúruumhverfi og þess vegna hafa draumar haft forspárgildi fyrir okkur. Mér finnst við geta nýtt drauma sem spegla á okkur sjálf, líðan, hvað hefur áhrif á okkur, hvað við erum að takast á við og ekki síst það sem við erum ekki meðvituð um. Þeir senda okkur skilaboð ef við höfum eyrun til að heyra.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn júní 28, 2024 07:00