Tengdar greinar

Hafa svikið út 67 milljónir hér á landi í nafni ástarinnar

Fjársvik á stefnumótasíðum er nokkuð sem tíðkast úti í hinum stóra heimi og einnig hér. Netflix er með þátt um þessar mundir, þar sem segir frá fjársvikara á Tinder sem þóttist vera forríkur og hafði stórfé af konum sem áttu sér einskis ills von.

Hér á Íslandi er mikið um fjársvik af ýmsu tagi á netinu. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hefur rúmur milljarður króna verið svikinn út úr Íslendingum á netinu frá árinu 2017. Vitað er að heildartjón þeirra sem hafa látið glepjast af svikatilboðum um ást á stefnumótasíðum nemur rúmum 67 milljónum króna. Meðaltjón þeirra sem hafa orðið fyrir slíku er 4.2 milljónir króna.

Á vef bandarísku eftirlaunasamtakanna birtist nýlega grein til að vara fólk við fjársvikurum á stefnumótasíðum. Hún fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Snillingar í að koma sér í mjúkinn hjá fólki

Það er fátt sem kemur Patrick Wyman lögreglumanni á óvart þegar kemur að fjársvikum á stefnumótasíðum og víðar. Hann hefur í starfi sínu hjá FBI kynnst allri flórunni af slíkum glæpum. Hann hefur rannsakað og unnið við 300 mál sem tengjast „ást“ og svikum á netinu.

Hann segir tvennt mikilvægast, til að koma í veg fyrir að glæpamenn geti með fagurgala unnið ástir fólks án þess að hitta það nokkurn tíma, og haft af því peninga í leiðinni.

  • Að verða ekki ástfangin of snemma, ef þið eruð að kynnast fólki á stefnumótasíðum eða á Facebook.
  • Að senda ekki peninga til aðdáanda sem þið eruð að kynnast á netinu og hafið aldrei hitt í eigin persónu.

Þeir sem villa á sér heimildir á rómantískum vefsíðum til þess að svíkja út peninga,  eru snillingar í að koma sér í mjúkinn hjá fólki og reyna að einangra þann sem þeir hafa fengið augastað á, frá bæði fjölskyldu og vinum. Það er vegna þess að ættingjar og vinir gætu orðið tortryggnir og eyðilagt áætlanirnar um fjársvikin. Sá sem hefur illt í hyggju segir kannski „ástinni“ sinni að þar sem hann sé yngri en hún, myndu ættingjar og vinir aldrei samþykkja sambandið. Því sé því best að segja þeim ekki neitt.

Sárt að heyra sannleikann

Patrick nefnir sem dæmi mál, þar sem hann var kallaður til. Þar var um að ræða konu á sjötugsaldri. Hún var búin að senda net aðdáanda sínum 75.000 dollara, eða 9,3 milljónir íslenskra króna, þegar lögreglan skarst í leikinn, þrátt fyrir að þau hefðu einungis skipst á skilaboðum og talað saman í síma. Aðdáandinn hafði líka fengið hana til að „þvo“ fyrir sig peninga sem voru illa fengnir.

Patrick segir að það hafi verið erfitt fyrir sig að útskýra fyrir þessari konu að þarna væri á ferðinni maður sem hún ætti aldrei eftir að hitta í eigin persónu. Hún væri fórnarlamb fjársvika á netinu.

Hann sýndi henni skilríki sín og FBI skírteinið og var nokkuð öruggur um það þegar hann fór, að hann hefði náð að útskýra málið þannig fyrir henni að hún myndi hætta öllu sambandi við svikarann. Eftir nokkra daga hringdi hún hins vegar í hann og tjáði honum að hún hefði sent honum 20.000 dollara til viðbótar, sem svarar til 2,5  milljóna íslenskra króna. Þannig var maðurinn búinn að hafa af henni tæpar 12 milljónir króna.

En hvað gerðist eiginlega. Jú, aðdáandinn hafði sannfært konuna um að Patrick væri að ljúga og hefði villt á sér heimildir. Hann væri ekki að vinna hjá FBI og eini tilgangur hans væri að stía þeim í sundur.

Konan áttaði sig smám saman á hinu sanna í málinu. Svikarinn sendi konunni meira fé til að „þvo“, en hún neitaði, þannig að lögreglan skarst í leikinn og tók peningana. Þá vildi svikarinn fá peningana sína tilbaka og sendi annan brotaþola um langan veg heim til konunnar. Sá einstaklingur bankaði uppá hjá henni og krafðist peninganna. Þá varð konan virkilega hrædd að sögn Patricks.

10 atriði sem svindlararnir eiga sameiginleg

Þó svikin séu mismunandi, segir Patrick að rómantískir fjársvikarar eigi þessi atriði sameiginleg.

  1. Þeim liggur lífið á. Patrick segir að þeir séu mjög fljótir á sér og eftir að hafa skipst á skilaboðum á netinu í viku, fara þeir að lýsa yfir því, að þeir hafi fundið sálufélaga sinn í viðkomandi persónu og heita eilífri tryggð. Hann segist trúa á ást við fyrstu sýn, en þegar ástin sé farin að blómstra á netinu eftir nokkra daga, milli fólks sem hafi aldrei hist, gegni það öðru máli.
  2. Þeir eru óforbetranlegir daðrarar. Þeir nota orðskrúð og ýkjur. Þeir byrja líka mjög snemma að kalla fórnarlambið elskuna sína og nota gælunöfn eins og elskendur gera. Sem er sérkennilegt gagnvart manneskju sem menn hafa aldrei hitt.
  3. Þeir eru góðir lygarar. Þeir kokka upp sögur til að útskýra hvers vegna þeir geta ekki hitt konuna, segjast vinna á borpalli út á sjó eða þá að þeir gefa sig út fyrir að vera farsælir viðskiptajöfrar starfandi í fjarlægum löndum.
  4. Þeir þykjast vera aðrir en þeir eru. Þeir stela myndum af vefnum og þykjast vera viðkomandi einstaklingur. Einföld myndaleit á vefnum sýnir líklega fljótt að það er verið að blekkja. Patrick ráðleggur fólki að hugsa eins og leynilöggur. „Er það til dæmis líklegt að þessi maður sem vinnur á borpalli úti á sjó, sé að senda mynd af sér með bjórdós frá því á áttunda áratugnum, eða í stuttbuxum frá Víetnam tímabilinu? , segir hann.
  5. Þeir leika tveimur skjöldum. Svikarinn telur konunni trú um að hún sé sú eina rétta, en það er nlæsta víst að hann er að eltast við fleiri fórnarlömb á sama tíma. Patrick segir að eftir að hafa skoðað símagögn, hafi komið í ljós að svikari notaði mismunandi nöfn á sama tíma og var að reyna að hafa fé út úr tveimur fórnarlömbum í Virginíu fylki og því þriðja í Norður- Karólínu. Sami svikarinn þykist kannski vera karlmaður í ákveðnum tilvikum, en kvenaðdáandi í öðrum.
  6. Eru alltaf að koma til fundar við ástina en….Þeir eru alltaf að lofa því að koma í heimsókn, en fyrirhuguðum heimsóknum er alltaf frestað af óviðráðanlegum ástæðum, þeir lentu á spítala eða fluginu seinkaði.
  7. Þá vantar fé strax til að losna úr vanda. Þeir biðja um gjafabréf, inneign á kortum, millirærslur eða hvaðeina, bara að það sé gerlegt fyrir fórnarlambið að koma fénu til þeirra. Enn og aftur. Bregðið ykkur í hlutverk lögreglunnar. Ef náunga sem segist vera ríkur viðskiptajöfur í útlöndum vantar 5000 dollara , eða sem svarar til rúmlega 600.000 íslenskra króna til að ná vörum út úr tolli, myndi þá ekki einhver í fjármáladeild fyrirtækisins eða bankanum geta aðstoðað hann? Hvers vegna ætti hann að snúa sér til þín, sem hann var að kynnast, til að biðja um reiðufé í snatri?
  8. Svíkja ekki eingöngu peninga af fólki. Það er ekki óþekkt að fórnarlömb fjársvika á netinu séu fengin til að þvætta peninga.  Ein leiðanna sem er notuð, er að senda þeim pakka, sem þau eru beiðn um að senda áfram á annað heimilisfang. Innihald pakkans er þá yfirleitt varningur sem hefur verið stolið, eða þá að greitt hefur verið fyrir hann með stolnum greiðslukortum. Varningurinn er sendur milli staða til að villa um fyrir rannsóknarlögreglunni, að sögn Patricks. En hvað er í pökkunum, jú raftæki, skór, snyrtivörur og margt fleira.
  9. Ástin er skammvinn. Svindlarar hafa sig í burtu hið snarasta ef fórnarlanbið sendir þeim ekki peninga. Þeir verja einfaldlega ekki miklum tíma í manneskju sem gerir ekki það sem hún er beðin um.

Menn einbeita sér að fertugum og eldri.

Lögreglumaðurinn frá FBI segir að í þeim málum sem hann hefur skoðað, snúi svikararnir sér að fórnarlömbum sem séu að minnsta kosti fertug. Mörg eru nærri sextugu og upp í 65 ára. Sum eru fráskilin, búin að missa makann eða eru fatlað fólk. Svikararnir notfæra sér einangrun  þeirra og einsemd.

Í Bandaríkjunum er fólki ráðlagt að snúa sér strax til lögreglunnar ef það grunar að verið sé að svíkja af því fé og einnig til bankans sem það skiptir við. Stundum er hægt að stöðva greiðslur sem hafa verið millifærðar, ef svikin eru tilkynnt umsvifalaust.

Að lokum 

Lögreglan hvetur fólk sem er á ýmiss konar stefnumótasíðum til að fara varlega. Passa sig á að falla ekki fyrir einhverjum sem ætlar að gleypa þær/þá með húð og hári við fyrstu kynni.

Ef sagan er of góð til að vera sönn, er hún líklega ekki sönn. Það er gott ráð að fá einhvern hlutlausan sem menn treysta til að skoða málið með sér ef grunsemdir vakna.

 

Ritstjórn mars 4, 2022 07:00