Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar.
Ég hef alltaf haft gaman af að hreyfa mig – í hófi – og finn betur og betur með árunum hvað hæfileg hreyfing gerir mér gott. Eitt af tækjunum sem ég kynntist í leikfimitímum í barnaskóla var jafnvægissláin ógnvænlega. Í mínum huga var hún það þar sem mér tókst sjaldnast að ganga nema örfá skref áður en ég missti jafnvægið og datt af slánni. Ég veit ekki hvaða hugmyndafræði var á bak við að nota jafnvægisslá í jafnríkum mæli og gert var. Kannski var tilgangurinn að kenna okkur mikilvægi þess að ná ákveðnum markmiðum – kannski að sýna okkur að ekki skipti öllu máli þó að við dyttum af slánni. Eða var kannski verið að undirbúa okkur undir jafnvægisgöngu lífsins?
Þó að síðan séu liðin mörg, mörg ár reyni ég enn að halda jafnvægi – með misjöfnum árangri eins og forðum daga. Lífið er líka ákveðin jafnvægislist. Það er gott og mikilvægt að sýna börnum sínum ást og umhyggju en leiðin milli ástar og umhyggju annars vegar og stjórnsemi hins vegar getur reynst vandrötuð. Gagnrýnin hugsun er mikilvæg en traust og trú skipta ekki síður máli. Það er gott að vera stoltur og ánægður með lífið og tilveruna en slíkt getur farið út í öfgar og snúist upp í andhverfu sína – hroka og tillitsleysi. Auðmýkt og virðing eru dýrmætir eiginleikar – þegar slíku fylgir heiðarleiki og heilindi. Hin hliðin á þeim teningi gæti verið undirlægjuháttur og jafnvel fals. Miklu máli skiptir að góð stjórn sé á málum í þjóðfélaginu en frelsi til orða og athafna er líka afar dýrmætt. Það er mikilvægt að nýtt fólk fái tækifæri á vettvangi stjórnmálanna en það er ekki síður dýrmætt að nýta reynslu manna. Ég gæti haldið áfram að telja þannig upp ýmis dæmi sem sýna vel hve erfitt getur reynst að ná jafnvægi í lífinu og tilverunni.
Ég hef líklega oftar samskipti við fólk á öldum ljósvakans en augliti til auglitis – enda næ ég þannig að hafa samband við mun fleiri en ella. En slík samskipti eru mér ekki nóg. Ég finn það svo vel þegar ég hitti fólk hvað ljósvakamátinn er í raun fátæklegur. Ég sé ekki svipbrigðin, missi af blæbrigðum raddarinnar, sé ekki augnatillitið og næ ekki að taka utan um og faðma þá sem mér þykir vænt um. Fátækleg orð á netmiðlum koma sannarlega ekki í staðinn fyrir samskipti augliti til auglitis. Mannleg samskipti í raunheimum auðga tilveruna og gera lífið betra og skemmtilegra. Ég ætla að reyna að ná jafnvægi í þeim efnum.