Þolinmæði, örlæti og skilyrðislaus ást

Það er fátt jafn gefandi og verða afi og amma og það er stór áfangi í lífi sérhvers manns þegar barnabörnin koma í heiminn. Hér eru nokkur ráð um hvernig er hægt að verða góður afi og góð amma. Það þarf ekki svo mikið til.

Þolinmæði: Góðir afar og ömmur eru þolinmóð gagnvart barnabörnunum og líka gagnvart eigin börnum. Þó að barnabörnin séu fyrirferðamikil eða hegði sér illa þá vita afar og ömmur að það fylgir því að vaxa úr grasi.

Örlæti: Bestu afarnir og ömmurnar eru örlát- ekki á þann hátt að þau séu stöðugt að gefa börnunum gjafir eða peninga, en þau eru örlát á tíma sinn. Þau gefa börnunum ómælda ást og góð ráð þegar beðið er um þau.

Skilyrðislaus ást: Það eru fáir sem geta veitt börnunum jafn mikla væntumþykju og afar og ömmur. Það er sama hvað gengur á í lífi barnanna, hvaða vonbrigðum þau verða fyrir í skólanum eða í daglega lífinu. Þau eiga að vita að heima hjá afa og ömmu er öryggi og ást að finna.

Samhygð: Afar og ömmur ættu að reyna að upplifa heiminn á sama hátt og barnabörnin. Það er gott og gaman að sjá hlutina með þeirra augum, leyfa tímanum að líða á þeirra hraða og taka eftir sömu hlutum og þau.

Að læra að hlusta: Að taka eftir og hlusta. Bara vera til staðar og hlusta á sögur barnanna, sýna leikjum þeirra áhuga og hvetja þau til góðra verka er falleg gjöf að gefa.

Fjarlægð: Að halda sig í hæfilegri fjarlægð þýðir ekki að ykkur standi á sama um barnabörnin. Það þýðir að fólk veit hvenær það á ekki að vera að skipta sér af hlutunum. Afar og ömmur láta ekki uppi skoðanir sínar á því þegar þeim finnst að foreldrarnir séu ekki að gera hlutina rétt í uppeldinu. Það er á ábyrgð foreldra, í flestum tilvikum, að ala börnin upp ekki afa og ömmu.

Nærvera: Að vera afi og amma snýst ekki um að vera alltaf að kaupa gjafir, halda boð eða fara með börnin í frí. Bestu gjafirnar sem þú getur gefið er tími og nærvera. Börn læra heilmikið um lífið með því að vera í návist afa og ömmu, fylgjast með þeim í sínu daglega bardúsi. Að kynnast fólki á öllum aldri er mikilvægt í lífi hvers barns og kemur þeim í skilning um eðlilega hringrás lífsins.

Ritstjórn ágúst 29, 2023 07:00