Hamingjan við það að eldast

Inga Dagný Eydal

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar

Mín 77 ára gamla móðir sagði undrandi „ert ÞÚ að skrifa pistla fyrir gamla fólkið?“ Aldur er vissulega afstæður og ef við miðum við að miðill eins og „Lifðu Núna“ sé fyrir fólk frá 55 ára aldri þá er ég reyndar í yngri kantinum, 57 ára gömul en við mæðgur tilheyrum samt sama hópnum og sá hópur spannar þá amk. fjóra áratugi. Henni finnst ég auðvitað vera ennþá yngri en þó er, það liggur í eðli okkar sambands á meðan syni mínum og barnabörnum finnst ég vera orðin ansi gömul, af sömu ástæðu. Hluti þessa stóra hóps man heimstyrjöld, aðrir muna veröld án sjónvarps, síma, jafnvel rafmagns og hluti hópsins er tölvukynslóð sem snýr hjólum atvinnulífsins ennþá. Jafnvel þótt að aldur sé þannig afstæður eftir því hver upplifir hann á þó þessi stóri sundurleiti hópur sem er kominn um og yfir miðjan aldur líklega ýmislegt sameiginlegt.

Það má leiða að því líkum að eftir 55 ára aldur séum við farin að hægja ferðina í þeim skilningi að horfa ekki alltaf fram á veginn með framtíðina að markmiði heldur farin að beina athyglinni að þeim stað sem við erum stödd, horfa á veginn þar sem við erum, hvort sem hann er beinn og breiður eða jafnvel svolítið vandfarinn og veðurbarinn. Flest okkar hafa litið um öxl og velt því fyrir okkur hvort við höfum gengið til góðs og fyrir okkur rennur upp sú staðreynd að líklega er styttri tími framundan en sá sem genginn er í æviskeiðinu.  Vinir og ættingjar byrja að kveðja okkur og það minnir líka á það hvernig ævin styttist í annan endann.

Hamingjan er þessum aldurshóp bæði eftirsóknarverð og mikilvæg þótt hún snúist kannski um aðra hluti en hjá þeim sem yngri eru og rannsóknir sýna gjarnan að eldra fólk er hamingjusamara en ungt fólk samkvæmt mælingum, þrátt fyrir oft hrakandi heilsu og getu. Hamingjan er enda farin að snúast fremur um viðhorf en einstaka gleði og hamingjustundir. Slíkt viðhorf snýst þá um það að vera þakklátur fyrir það sem manni hefur hlotnast og syrgja ekki glötuð tækifæri, að njóta líðandi stundar og jafnvel það að lífið og mannfólkið sé gott í eðli sínu og það sé góð gjöf að vera til. Hamingjan snýst minna um það að það þurfi alltaf að vera gaman, enda sé það líklega á valdi hvers og eins. Þetta viðhorf er í eðli sínu sveigjanlegra og minna brothætt en hamingjan sem felst í gleðistundunum eingöngu.

Þrátt fyrir þetta er þó líklega stærsta ógnin við hamingjuna á efri árum fólgin í viðhorfi annarra. Í samfélagi sem ekki virðir eða metur aldraða en sér þá fremur sem bagga eða hindrun. Í samfélagi sem metur manngildi eftir afköstum og fjárhagslegri stöðu.

Í samfélagi sem hampar þeim ungu og fallegu er varla við því að búast að aldraðir upplifi sig sjálfir sem verðuga þegna.  Sérhver manneskja þarf að eiga sér hlutverk og upplifa að hennar sé þörf, og viðurkenning samfélagsins skiptir þar miklu máli.

Kannski tekur tíma fyrir mannkynið að venjast því að fólk verði yfirhöfuð svo gamalt sem raun ber vitni. Það er ekkert svo óskaplega langt síðan að fáir náðu þeim háa aldri að verða hvíthærðir, fólk var yfirleitt löngu dáið áður en að því kom. Breski rithöfundurinn Ronald Blythe sem er fæddur 1922 hefur lengi velt vöngum yfir viðhorfi til ellinnar. Hann bendir á að lífið sé dásamlegt frá upphafi til enda og oft jafnvel betra þegar endalokin nálgast.  Þá hætti það að vera svona flókið og erfitt og við förum að horfa með meiri víðsýni og ró hins vitra mans á tilveruna. Það er kannski hin rétta merking í því að aldraðir eigi „áhyggjulaust ævikvöld“, ekki það að hlífa þeim við eðlilegu lífsmynstri og áhyggjum tilverunnar. Enda hef ég aldrei skilið hvernig það á að vera eftirsóknarvert að vera á varamannabekknum allt síðasta æviskeiðið. Kannski er verið að meina það áhyggjuleysi sem felst í æðruleysi.

Reyndar held ég að Blythe hitti í mark með þessum orðum sínum um ellina að því leyti að æðruleysi sé gott að tileinka sér á efri árum. Aldraður einstaklingur sem hvílir í sjálfum sér, heldur ró sinni gagnvart tilverunni en er jafnframt forvitinn um nýja vitneskju og heldur áfram að lesa, fræðast og hlusta, hann er alltaf ungur.

Ég á vonandi ennþá eftir að gera allt það skemmtilega sem móðir mín gerir núna, vera í tveimur bókaklúbbum, ferðast, eignast nýja vini og að njóta stundarinnar.

Ronald Blythe sem er 97 ára endar þetta fyrir mig að þessu sinni þegar hann skrifar „Við erum sannarlega heppin að vera á lífi í byrjun 21.aldarinnar. Og það sem heldur okkur lifandi, er trú,  þekking,  menning,  ferðalög og fyrst og fremst kærleikur og vinátta, því þessir hlutir hverfa okkur ekki þótt við verðum gömul, þeir lifa með okkur alla tíð“.

Inga Dagný Eydal október 5, 2020 05:47