Lisa Eisner er velþekkt í Hollywood, enda hefur hún leitað fyrir sér og náð frábærum árangri á mörgum sviðum. Hún er ljósmyndari, útgefandi, kvikmyndaframleiðandi og skartgripahönnuður. Skartið hennar er óvenjulega stórt og náttúruunnandinn Lisa kýs að nota eingöngu steina á borð við jaspis, túrkís, ópala og lapis lazuli.
Lisa sannar að konur geta og fara létt með að gera fleiri en einn hlut í einu og að skapandi hæfileikar þekkja engin mörk. Hún byrjaði starfsferilinn sem tískuritstjóri hjá Vogue og Mademoiselle. Auk þess þótti hún sniðugur stílisti og um tíma vann hún í lausamennsku fyrir tímarit á borð við Vanity Fair, GQ, W Magazine, Harper’s Bazaar og franska Vogue. Henni fannst þó starf ljósmyndarans mun meira heillandi og hóf að taka myndir og læra ljósmyndun. Hún fæddist árið 1957 í Greybull í Wyoming í Bandaríkjunum og hefur alla ævi verið mikill aðdáandi vesturríkjanna. Margar mynda hennar eru teknar þar og eftir að hún stofnaði Greybull Press með vini sínum Román Alonso hafa þau gefið út saman ljósmyndabækur um lífið þar, nefna má Shriners og Rodeo Girl.
En Lisa er sjálf aðdáandi kúrekaíþróttanna og var eitt sinn kjörin rodeo-drottning Wyoming-ríkis. Hún segir andrúmsloftið í kringum ródeóin vera eitt af því sem ýtti undir áhuga hennar á tísku og það hafi leitt hana til New York þar sem hún hóf blaðamennskuferilinn hjá Mademoiselle. Um tíma vann Lisa í hönnunardeild Ralphs Laurens en eftir að hún giftist kvikmynda- og tónlistarmógúlnum Eric Eisner settist hún að í Los Angeles. Þau eiga tvo syni og meðan þeir voru litlir sinnti móðir þeirra aðallega ljósmyndun því það starf hentaði vel uppeldi ungra barna.
„Skartgripir eru brynja, skraut og viðhafnarbúningur,“ segir hún. Verk hennar vitna sannarlega um þessa skoðun hennar því þau eru stór, hylja mikið af bringu og höndum þeirra kvenna sem bera þau og steinarnir eru allir náttúrusteinar, hver og einn með sinn töfra- og lækningamátt samkvæmt þjóðtrúnni.“
Skartgripir brynja og skraut
Nýjasta ævintýri þessarar fjölhæfu konu er svo skartgripafyrirtæki sem ber nafn hennar. Hún hannar alla gripina sjálf og fylgist vel með framleiðslu þeirra. „Skartgripir eru brynja, skraut og viðhafnarbúningur,“ segir hún. Verk hennar vitna sannarlega um þessa skoðun hennar því þau eru stór, hylja mikið af bringu og höndum þeirra kvenna sem bera þau og steinarnir eru allir náttúrusteinar, hver og einn með sinn töfra- og lækningamátt samkvæmt þjóðtrúnni. Umgjörðin er handunnið brons eða silfur en það vinnur málmsmiðja sérstaklega fyrir hana. Ein allra sjaldgæfasta steintegund heims, simbricite, er meðal þeirra steina sem hún notar, en sá steinn er upprunninn í Simbirsk í Rússlandi og talið að það taki náttúruna 70 milljónir ára að mynda hann. Þegar fyrsta lína hennar kom út notaði Tom Ford, vinur hennar, gripina í vorsýningu sinni. Stíllinn minnir óneitanlega að mörgu leyti á skart indíána og það segir Lisa að sé eðlilegt því hún sé alin upp í nánum tengslum við menningu bandarískra frumbyggja. Annars segir hún að hugmyndir hennar og stíll breytist eftir því hver hún vilji vera í það og það sinnið og hún hanni fyrst og fremst út frá eigin eðlisávísun.
„Að mínu mati er skart svo fullt af lífi og ég nota það til að tjá mig,“ segir hún. Auk þessa er Lisa ástríðufullur safnari náttúrulegra kristalla og steina sem skreyta heimili hennar. Hún fer gjarnan á alla flóamarkaði í nágrenni heimilis síns og kemur þaðan hlaðin gripum. Þótt þegar sé nóg fyrir segist hún alltaf finna nýjum dýrgripum stað. Lisa á jafnframt ennþá allan fatnað frá heimsþekktum hönnuðum sem hún hefur eignast um ævina.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.