Hef ekkert gaman af pólitík en kýs dóttur mína að sjálfsögðu

Erna Indriðadóttir skrifar

Aldís Hafsteinsdóttir er að hefja þriðja kjörtímabil sitt sem bæjarstjóri í Hveragerði, en Sjálfstæðisflokkurinn fékk hreinan meirihluta í bænum í kosningunum í vor. Móður hennar Laufeyju S. Valdimarsdóttur finnst hún hafa staðið sig vel sem bæjarstjóri. „þetta hefur gengið vel hjá henni, bænum er vel stjórnað og hún er ákaflega dugleg. Hún er góð í mannlegum samskiptum og það hjálpar að hún er alin upp hér og þekkir vel til“. Laufey segir að það séu alltaf einhverjir sem gagnrýni eitthvað sem bæjarstjórinn geri, en Aldís taki gagnrýni yfirleitt vel. „ En auðvitað er alltaf eitthvað sem getur sært,“ segir Laufey „þegar menn telja sig hafa gert vel og fá skammir fyrir“.

Hefur þetta frá pabba sínum

Hún segir að Aldís hafi ekki fengið áhuga á pólitík í arf frá sér. En pabbi hennar hafi verið áhugasamur í pólitíkinni og hún hafi þetta frá honum. Hann var oddviti í Hveragerði um tíma, en féll frá fyrir rúmum 20 árum. „Ég hef ekkert gaman af pólitík og vil ekki standa í illindum“segir Laufey. Það hafi hins vegar ekki komið henni á óvart að Aldís fór út í pólitík. Það sé líkt henni að vilja vasast í mörgu. „ Hún var alltaf mikil félagsvera, fyllti allt af krökkum og vildi hafa líf og fjör í kringum sig. Þegar hún fór í Menntaskólann á Akureyri, fór hún strax að taka þátt í félagslífinu“. Þegar hún byrjaði í pólitíkinni var hún með þrjú lítil börn og Laufeyju fannst þetta fullmikið, ásamt því að sinna krefjandi og tímafreku starfi. En það væri heppilegt að fjölskyldan byggi öll í Hveragerði, en þar búa Laufey og þrjú systkini Aldísar ásamt fjölskyldum. Maður Aldísar sé einnig ákaflega duglegur. „Hann er kokkur og það sveltur að minnsta kosti enginn á þeim bæ“, segir Laufey.

Hafnaði öllum tilboðum í Kjörís

Hún segist afar stolt af börunum sínum, sem hafi öll staðið sig vel í lífinu. Aldís er elst þeirra og næstur henni er Valdimar framkvæmdastjóri Kjöríss. Guðrún sem er markaðsstjóri fyrirtækisins er einnig formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins. Sigurbjög sem er yngst er grunnskólakennari í Hveragerði. Þegar Hafsteinn faðir Aldísar lést, tók Laufey við sem stjórnarformaður Kjöríss. „Það fara ekki alltaf saman skoðanir eldra og yngra fólksins, en ég geri mér far um að leyfa börnunum að njóta sín við stjórn fyrirtækisins og vera ekki fyrir þeim“ segir hún. „En ég er mjög aðhaldssöm í fjármálum, enda kom fyrirtækið vel út úr hruninu. Ég er svo íhaldssöm að ég hafnaði öllum tilboðum, en það voru margir sem vildu kaupa Kjörís í góðærinu“.

Kýs dóttur mína að sjálfsögðu

Laufey segir að eftir hrun hafi staðan verið erfið í Hveragerði, en kannski ekki jafn slæm og víða annars staðar. „Það eru í það minnsta engar tómar blokkir hér, en eitthvað af húsum sem standa auð“ bætir hún við. Þótt Laufey segist ekki hafa áhuga á pólitík   hefur hún látið félagsmál ýmiss konar til sín taka og var meðal stofnenda Félags eldri borgara í Hveragerði fertug að aldri.   Hún var þar í stjórn í 20 ár,en er nýhætt. Þá hefur Laufey starfað í Skógræktarfélaginu og Rauða krossinum. Hún hefur einnig verið mikið með barnabörnin sín 11, en hún segist vera mikil barnakona og alltaf hafa haft gaman af börnum. Það séu forréttindi að barnabörnin séu öll búsett í Hveragerði. En eru þær sammála í pólítíkinni móðir og dóttir? „ Ég kýs mína dóttur að sjálfsögðu“ segir Laufey, það er svolítið þannig hér í Hveragerði að maður kýs fólk en ekki endilega flokka“.

Ritstjórn júní 19, 2014 09:55