Ágúst Borgþór Sverrisson byrjaði ungur að skrifa og réðst þá ekki á garðinn þar sem hann er lægstu því hann einbeitti sér að smásagnagerð. Það knappa form hefur löngum verið talið það erfiðasta að eiga við og ekki margir sem ná fullum tökum á því. En auk þess að fást við skáldskap hefur Ágúst Borgþór unnið við margvísleg ritstörf og er núna blaðamaður á dv.is.
Þú hefur verið að fást við að skrifa ansi lengi og fengist við bæði við smásögur og skáldsögur. Í ár sendir þú frá þér þína aðra sakamálasögu. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að reyna þig við það form?
„Ég held að ástæðan fyrir því að ég er aðeins farinn að glíma við spennusagnaformið sé einfaldlega þau söguefni sem hafa komið í hug minn á síðustu árum,“ segir hann. „Ég hef til dæmis lengi haft áhuga á mannshvörfum og loksins kom að því að ég skrifaði um mannshvarf, en í þessari bók, Vektu ekki barnið, hverfur ung kona. Margir prýðilegir erlendir og innlendir glæpasagnahöfundar hafa líka haft áhrif á mig en ég hef örugglega sótt meiri áhrif í innlendu höfundana. Ragnar Jónasson, Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir, Lilja Sigurðardóttir, Stefán Máni og margir fleiri spennusagnahöfundar eru topphöfundar. En ég líki mér ekki við þennan fríða hóp, að upplagi er ég alls ekki glæpasagnahöfundur, mitt sterkasta form eru smásögur í raunsæisstíl.“
Í sögunni þinn hverfur ung móðir og eiginkona sporlaust og smátt og smátt afhjúpast sannleikurinn um hvað gerðist þetta örlagaríka vor. Þú starfar sem blaðamaður og í nýju bókinni fjallar þú um kynbundið ofbeldi, nokkuð sem mikil umræða hefur verið um undanfarin ár. Sóttir þú þér á einhvern hátt innblástur eða efnivið í mál sem komið hafa inn á borð þitt í starfi?
„Ég hef orðið fyrir miklum áhrifum af metoo-byltingunni í störfum mínum sem blaðamaður. Auk þess hafa kynferðisbrot og heimilisofbeldi komið mikið við sögu í fréttum mínum um dómsmál. Þetta hefur klárlega haft áhrif á mig sem manneskju og rithöfund,“ segir Ágúst Borgþór með áherslu.
Leitað aftur í tímann
Það er alþekkt að margir glæpasagnahöfundar kjósa stundum að láta sögurnar gerast í fortíðinni. Þess eru dæmi að þeir fari aftur á miðaldir. Í þeirra hópi eru Jeri Westerson og Ellis Peters. Arnaldur hefur líka kosið sér Reykjavík stríðsáranna og eftirstríðsáranna að sögusviði. Þú kaust að fara aftur í tímann og staðsetja söguna í Reykjavík á sjöunda áratug síðustu aldar. Var einhver sérstök ástæða fyrir að þú valdir að haga því þannig?
„Það heillar mig að geta dregið upp lifandi mynd af horfnum tíma. Ég er nógu gamall til að muna eftir árunum í kringum 1970 og ég get fangað tíðarandann og málfar þessa tíma. Mér fannst líka áhugavert að sýna hvernig viðhorf til ýmissa málefna hafa breyst frá því þessum tíma.“
Móðir þín, Freyja Jónsdóttir, starfaði líka við blaðamennsku og ritstörf og skrifaði meðal annars um raunveruleg mannshvörf. Er þörfin fyrir að skrifa í fjölskyldunni?
„Ég hef átt auðveldari ævi en móðir mín og þess vegna byrjaði ég að skrifa fyrir tvítugt en hún ekki fyrr en um sextugt. Hún hefur mikla frásagnargáfu, er forvitin og sterk í mannlegum samskiptum. Þetta hefur hún nýtt sér við störf sín á efri árum. Afi minn í föðurætt, Aðalbjörn Pétursson, gaf út eina ljóðabók, en hann var mjög virkur í pólitískri baráttu um miðja síðustu öld og var sósíalisti. En ég held að ritfærni sé ekki meiri í mínum ættum en gengur og gerist,“ segir hann.
Þú ert í fullri vinnu á DV. Hvernig gengur að finna tíma til að skrifa annað en fréttir?
„Blaðamennska á DV er annasamasta starf sem ég hef verið í og það er ekki tilviljun að það eru heil sex ár síðan ég gaf síðast út bók. Á hinn bóginn verð ég fyrir miklum áhrifum og reynslu í starfinu sem nýtist mér við sagnaskrif. Ég býst við að afköstin í skáldskapnum verði áfram hæg á meðan ég er í blaðamennsku en það styttist í eftirlaunaárin og þá hugsa ég mér gott til glóðarinnar.“
Sorgmædd yfir hvarfi góðra fjölmiðla
Ágúst Borgþór er ekki einn um hugsa með tilhlökkun til eftirlaunaáranna og þess að hafa meiri tíma til að sinna hugðarefnum sínum. En einmitt nú er staða fjölmiðla á Íslandi er viðkvæm og ekki langt síðan að Fréttablaðið og Hringbraut hurfu af markaði. DV var staðsett í sama húsi. Hvernig kom það við ykkur þegar ákveðið var að hætta rekstri Fréttablaðsins?
„Við á DV vorum sorgmædd yfir brotthvarfi þessara góðu fjölmiðla, Fréttablaðsins og Hringbrautar, og ekki síður fannst okkur leitt að skilja við góða félaga sem störfuðu á þessum miðlum. Hins vegar vissum við að rekstrarstaða DV var nokkuð sterk eftir að hætt var að gefa DV út á pappír, og töldum störfum okkar borgið, sem reyndist rétt. Það eru víða erfiðleikar í fjölmiðlarekstri en ég held að rekstur vinsælustu netmiðlanna sem slíkra, mbl.is, vísir.is og dv.is, sé nokkuð góður,“ segir Ágúst Borgþór og við hér á Lifðu núna getum tekið undir því við finnum fyrir sívaxandi áhuga og velvild lesenda.