Heidi Strand textíllistakona fagnaði sjötugsafmæli sínu í fyrra og um leið því að heilsa hennar er um þessar mundir betri en hún hefur verið um langa hríð. Hún hefur verið að berjast við slitgigt, krabbamein og afleiðingar slyss sem hún varð fyrir. En fyrir tveimur árum breytti hún mataræðinu, léttist um tuttugu kíló og það hefur breytt miklu. En Heidi segir sköpunarkraftinn ekkert dofna, hvorki með hækkandi aldri né heilsubresti. Nú í júní opnar hún einkasýningu í Listhúsi Ófeigs við Skólavörðustíg og á sama tíma eru verk eftir hana til sýningar í Bandaríkjunum.
Árið 1972 kynntist Heidi ungum íslenskum manni, Matthíasi Kristiansen. Þau giftust og eiga þrjú börn. Þau bjuggu um tíma í Danmörku og Noregi en hafa lengst af búið á Íslandi. Undanfarin ár hafa þau dvalið verstu vetrarmánuðina á hlýrri slóðum og það hefur skipt sköpum fyrir heilsu Heidiar. Þú ákvaðst að flytja tímabundið af landinu og taka mataræðið í gegn með það í huga að bæta heilsufarið. Breyttir þú miklu?
„Nei, við borðum í raun allan venjulegan mat en ég ákvað að sleppa því óholla,“ segir hún. „Við borðum ekki mikið unnar vörur, ekki hveiti og ekki sykur. Ég drekk aldrei gos og fyrir sjö árum ákvað ég að hætta að drekka áfengi. Ég drakk aldrei mikið en fór að velta fyrir mér hvort ekki væri gott að taka mér pásu frá víni. Úr varð að að ég prófaði að taka einn mánuð, febrúar en svo leið mér svo svakalega vel að ég hugsði með mér að þessu ætlaði ég að halda áfram og ég hef staðið við það. Þótt ég drykki í miklu hófi fór það engu að síður illa í mig. Eftir að ég lauk krabbameinsmeðferðinni fann ég að kuldi fór svakalega illa í mig. Ég fór í heimsókn til vinkonu okkar á Kanaríeyjum. Hún flutti þangað til að bæta heilsu sína. Þegar ég kom þangað fann ég að það gerði mér gott svo ég kom með þá hugmynd að við myndum leigja þarna líka yfir verstu vetrarmánuðina.“
Elskar villta náttúru
Þetta var árið 2017 og síðan þá hafa Matthías og Heidi leigt íbúð á Kanaríeyjum yfir verstu vetrarmánuðina og þau voru úti þegar Covid-faraldurinn gekk yfir heiminn. Þar þurfti ávallt að ganga með grímu, jafnvel þótt fólk væri á gangi úti í náttúrunni. Í tvo vetur bjuggu þau í efst Agaetedalnum með útsýni yfir dalinn en síðustu árin hafa þau verið neðar í aðeins tíu mínútna göngufæri frá ströndinni og höfninni. Staðurinn er að sögn Heidiar paradís á jörðu.
„Það er svo fallegt þarna og svo rólegt, ekkert áreiti. Við erum norðan megin við Las Palmas og þar er lítið um ferðamenn. Við erum um það bil hálftíma að keyra til Las Palmas en þangað förum við í hæsta lagi tvisvar í mánuði. Við búum í aflokuðu hverfi svo við erum alveg örugg,“ segir hún. „Verslunin er í nokkurra mínútna fjarlægð og við förum þangað, verslum og keyrum innkaupakerru með vörunum heim. Það tekur svo örskotsstund að skila henni.
Við höfum útsýni yfir allan dalinn úr íbúðinni okkar og það er örstutt í villta náttúru. Ég elska það, villiblómin, grjót og malarstíga, ekkert malbik og bílvegir eru þröngi, svo þröngir að ég þarf að hlaupa út í kant þegar við göngum í 11/2 klukktíma til að heimsækja vinkonu okkar. Þarna er líka náttúrulegar laugar þar sem hægt er að baða sig óháð veðrum og vindi. Þar er ekki bílastæði, engir búningsklefar bara allt náttúrulegt og litríkir krabbar á steinunum allt í kring.
Við Matti undirbjuggum okkur vel fyrir ellina. Fyrir löngu ákváðum við að við ætluðum að vera orðin skuldlaus fyrir sjötugt og eiga okkar húsnæði sjálf. Það munar miklu að þurfa ekki að leigja og skulda ekki. Við leigjum frekar ódýrt úti á Kanaríeyjum og höfum ekki þurft að leigja íbúðina okkar hér heima út. Þegar upp er staðið kemur það vel út fjárhagslega því við eyðum ekki miklu þegar við erum þar. Við erum heldur ekki að fara í frí heldur aðeins að skipta um umhverfi til að lifa veturinn af. Ef við erum hér yfir veturinn kemst ég ekki út fyrir hússins dyr og einangrast. Ég hef svo slæmt jafnvægi að ef ég fer út þegar hált er kemst ég ekki hjálparlaust yfir svellin og þarf að nota hendurnar líka ef ég þarf til kírópraktorsins eða til læknis.“
Vinnur með alveg sérstakri aðferð
Dalurinn þeirra er á Gran Canaria og þau ganga mikið þegar þau eru úti, 8-10 km á dag. Matthías starfar sem þýðandi og tekur vinnuna með sér út og Heidi sömuleiðis. Hún hefur ullina með sér en hún saumaði alla tíð og vann margvíslega handavinnu. Árið 1978 vann hún 1. Verðlaun fyrir saumað myndverk. Eftir það var ekki aftur snúið og hún hefur upp frá því unnið textíllistaverk bæði bútasaumsverk og verk úr ullarflóka sem hún vinnur með aðferð sem heitir nálarþæfing.
„Ég er með litla vinnustofu hér heima. Ég hef einnig fjórum sinnum fengið úthlutað listamannahúsi og verkstæði á Fjóni. Staðurinn heitir Gammel Have. Þar hef ég aðgang að stórri vinnustofu og legg grunninn að stærri verkum en vinn síðan smáatriðin hér heima og úti á Kanaríeyjum. Sýningin í Listhúsi Ófeigs er þriðja einkasýningin mín á þremur árum. Ég sýndi stóra sýningu á Korpúlfsstöðum árið 2022. Ég fyllti stóra hlöðuloftið sem er 1000 fm2. Sýningin gekk rosalega vel. Í fyrra átti ég verk sem ekki komust fyrir á Korpúlfsstöðum svo ég ákvað að sækja um hjá Hildi í Listhúsi Ófeigs og komst að. Eftir þá sýningu ákvað ég að ég nennti þessu ekki lengur. Nú væri ég orðin svo gömul og svo þreytt. Sama dag talaði ég við Hildi og fékk að leyfi til að sýna aftur,“ segir Heidi og skellihlær, enda er staðreyndin sú að líklega gæti hún ekki hætt þótt hún vildi.
„Já, ég er rekin áfram af innri þörf,“ segir hún. „Ég er ekki að þessu til að selja eða til að falla í kramið. Hugmyndirnar kvikna innra með mér og springa svo út. Þegar ég byrja streyma þær fram og ein verður neisti að annarri. Ég býst við að þetta sé svipað og þegar maður skrifar bók. Ein hugmynd leiðir af sér aðra og fyrr en varir er komin heil bók. Ég hef líka þróað sjálf að miklu leyti mínar aðferðir. Ég lærði nálarþæfingu í Danmörku en hef fundið leiðir til að teikna í ullina með nálinni. Þótt ég sé orðin þetta gömul er ekki nándar nærri hætt. Þegar maður hefur alltaf gert eitthvað svona hættir maður því ekki.“
Ævintýraferð um Suður-Afríku
Undanfarin tvö ár þótti þeim heldur kalt og mikið rok á Kanarí svo þau ákváðu að halda enn lengra suður í janúar.
„Þá varð Suður-Afríka fyrir valinu,“segir Heidi. Þar reyndist hins vegar of dýrt að leigja húsnæði en annar möguleiki kom upp í hendurnar á þeim. „Við áttum inneign hjá skipafélagi. Við ætluðum í lúxussiglingu um Suður-Ameríku þegar Matti varð sjötugur en urðum að hætta við vegna Covid. Við skoðuðum möguleikana og fórum í tvær siglingar frá Cape Town og vorum í sex vikur á ferðinni í allt en dvöldum í borginni milli siglinga. Ferðinni lauk með lestarferð frá Cape Town til Jóhannesarborgar. Það er svo fallegt í Afríku og við sáum svo margt. Við fórum í safarí-ferð og gáfum fílum ávexti sem þeir tóku úr lófum okkar. Fólkið er svo yndislegt.“
Þetta var ekki fyrsta ferðin þeirra til Afríku. Árið 2015 heimsóttu þau danskan búgarð í Botswana í tilefni þess að Heidi hafði lokið fimm ára eftirmeðferð vegna krabbameinsins. Síðar kom reyndar í ljós að hún þarf að halda áfram á lyfjum það sem eftir er en þarna var mikil náttúrufegurð og ótal dýr. Hún lofaði sér þá að hún skyldi fara aftur og stóð við það. Á yngri árum var Heidi mikil íþróttakona. Hún keppti í róðri og vann til verðlauna í þeirri grein. Hún hefur alltaf hreyft sig mikið og haft þörf fyrir það.
„Ég ákvað líka fyrir löngu að hætta aldrei að gera það sem ég geri og get,“ segir hún. „Ef maður hættir missir maður fljótt getuna til þess. Maður á ekki að hætta að hjóla eða ganga upp tröppur eða hvað það er. Þegar maður eldist og hrörnar er hún svo fljót að fara. Ég vil til dæmis ekki flytja í íbúð ætlaða fyrir aldraða. Ég vil búa innanum venjulegt fólk og hafa pínuáskoranir eins og þröskulda, tröppur og stiga. Ef ég kemst ekki um íbúðina heima hjá mér væri ég orðin mjög slæm. Ég hef líka farið í ræktina í tuttugu fimm ára og Matti hefur stundað líkamsrækt síðustu tíu til fimmtán árin. Það er sérstaklega nauðsynlegt að þjálfa sig þegar eitthvað er að hjá manni. Annars er svo skemmtilegt hjá okkur Matta að dagarnir fljúga hjá. Mér leiðist aldrei.“
Á verk á sýningu í Bandaríkjunum
Heidi fæddist í Þrándheimi í Noregi og ólst þar upp. Hún á ekki langt að sækja listfengið því pabbi hennar, Leon Høyer Strand málaði og hafði mikla hæfileika. Hann hafði hins vegar aldrei tækifæri til að læra. Hann missti föður sinn ungur og varð fljótt að fara að sjá fyrir sér. Heidi gat hins vegar sótt námskeið og hefur lært bæði í Myndlistarskólanum í Reykjavík, teikningu hjá Ingibergi Magnússyni og nálaþæfingu hjá Birgitte Kragh Hansen í Danmörku.
„Ég á líka myndverk á farandsýningu í Bandaríkjunum. Bandarísk kona, Martha Sielman, safnaði saman í bók myndverkum eftir textíllistamenn af mörgum þjóðernum, Stiched Journeys with Birds. Í heild eru um það bil 500 verk í bókinni en síðan var valið úr þeim verk til sýningar og eitt þeirra var eftir mig,“ segir hún en á sýningunni í Listhúsi Ófeigs verða ríflega tuttugu verk og hún opnar 13. júlí næstkomandi. Heidi er með facebook-síðu, Heidi Strand Artist en þar má sjá verk hennar og kynnast sköpunarferlinu í vinnu hennar betur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.