Dorgað í djúpi hugans eftir Skúla Thoroddsen er skemmtileg minningabók. Skúli rifjar upp æskuár sín fram að því að hann hefur nám í menntaskóla. Honum tekst frábærlega að kalla fram andblæ eftirstríðsáranna, Reykjavík er að byggjast upp og verða borg, börn að fá leyfi til að vera börn og hinir fullorðnu takast á um framtíðarhugmyndafræði.
Skúli er frábær stílisti og kann vel að byggja upp frásögn. Hann skrifar ákaflega fallegt mál og það er gaman að lesa slíka texta. Hér er margt mjög áhugavert og mörg ígrundunarefni. Skúli er sendur í sveit en fær meira sjálfræði en mörg önnur börn því hann neitar að fara til baka á suma staði. Hins vegar nær hann góðu sambandi við Moniku Helgadóttur á Merkigili í Austurdal í Skagafirði og þau fjögur barna hennar sem eru enn heima þegar hann er þar í sveit. Lýsingarnar á aðstæðum við bæinn, vinnulagi og atlæti eru frábærar og verða ótrúlega lifandi í huga lesandans.
Hér er líka mjög vel lýst hvernig rokkið, Bítlarnir og uppreisnarandi utan úr heimi hélt innreið sína á Íslandi og ferskir vindar tóku að blása um staðnað þjóðfélag. Það er fengur að þessari bók, bæði fyrir þá sem lifðu þessa tíma og þekkja þá vel og aðra. Skúli hefur áður sent frá sér skáldsöguna Ina en þar skrifaði hann um heimsókn, Inu von Grumbkow, hingað til lands eftir að unnusti hennar lést við rannsóknir á Öskju. Hann og félagi hans fór tveir út á Öskjuvatn á báti en hurfu og hafa aldrei fundist.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







