Heimsins frægustu kettir

Mikið uppþot varð í aðdraganda jóla þegar það spurðist út að frægasta ketti landsins, Diego, hafði verið rænt úr verslun A4 í Skeifunni. Aðdáendur kattarins tóku höndum saman við Dýrfinnu, félagsskap sem sérhæfir sig í að finna týnd dýr og Diego fannst og var komið aftur til eigenda sinna. Við viljum hins vegar af því tilefni skoða nokkra heimsfræga ketti.

Gutti 

Páll Óskar sagði frá því á facebook rétt fyrir jólin 2021 að, Gutti, félagi hans og sambýlismaður til átján ára væri allur. Gutti mætti óboðinn í afmæli Páls Óskars 16. mars árið 2004, þá á flótta frá erfiðum heimilisaðstæðum og settist að. Hann hófst þegar handa við að leggja undir sig íbúðina og Páll Óskar mátti sætta sig við fyrirferð hins nýja sambýlismanns. Þá dugðu poppstjörnunni engir stjörnustælar eða vísun í hver sæi til þess að þeir félagar hefðu öruggt húsaskjól og mat. En þannig eru kettir gjarnan. Hins vegar verður auðvitað að játa að Gutti telst líklega aðeins þekktur af einni frétt, þ.e.a.s. af andláti sínu meðan eigandi hans er mun frægari. Hans var samt sjálfsagt að geta hér og hið sama á við um miðbæjarkettina sem margir hverjir hafa ratað í fréttir aftur og aftur.

Í þeim hópi eru þeir Baktus, Bjartur, Rósalind rektor, Emil og Ófelía. Baktus er flestum kunnur. Hann býr í Gyllta kettinum en heimsækir reglulega fyrirtæki þar í kring. Hann komst í fréttirnar þegar hann hvarf en öllum var létt eftir að hann fannst í Breiðholti og var komið aftur á sínar gamalkunnu slóðir. Bjartur er kaffihúsaköttur og kann vel við sig á mörgum af bestu kaffihúsum miðbæjarins. Rósalind gerir sig heimakomna í Háskólanum og hefur reynst þar svo ómetanleg við að draga úr stressi og gleðja fólk að hún fékk nafnbótina rektor. Emil er Ráðhúskötturinn og fylgist dyggilega með að borgarfulltrúar standi sig í starfi. Ófelía heldur hins vegar til á Skólavörðustíg og tignarlegur unnandi fallegrar hönnunar.

Frú Norris

Allir unnendur Harry Potter þekkja frú Norris kött húsvarðarins í Hogwarth-skóla. Argus Filch er fremur ógeðfelld persóna og kötturinn hans verður það eiginlega líka þótt frú Norris geri ekkert af sér beinlínis. Í kvikmyndunum var hún leikin af nokkrum hæfileikaríkum Maine Coon-köttum en allir kattarunnendur vita að það er stærsta tegund heimiliskatta. Maine Coon þykja hins vegar mestu ljúflingar á heimili og sjaldan til nokkurra vandræða. Ólíkt svörtum köttum hafa þeir heldur ekki sýnt neina tilburði til galdra þótt hér eftir verði þeir án efa tengdir galdrastráknum órofa böndum.

Nala

Með tilkomu samfélagsmiðla gefst fólki tækifæri til að segja heiminum frá mörgu af því sérstæða og góða sem hendir það. Dean Nicholson frá Edinburgh er fyrrverandi Rugby-leikari. Hann vann sem logsuðumaður og var orðinn leiður á hversdagslegu og tilbreytingalitlu lífi sínu. Hann lagði því upp í heimsreisu á hjólinu sínu. Hann fór frá Bretlandi til Amsterdam og þaðan hélt hann til Króatíu og síðan Bosníu. Þar hjólaði hann upp bratta brekku á sólríkum degi þegar hávært mjálm tók að trufla hann. Lítill kettlingur elti hann og í hvert sinn sem hann stoppaði nuddaði hann sér upp við fætur hans. Dean tók hann á endanum og kom honum fyrir í tösku framan á hjólinu. Í næsta þorpi lét hann athuga hvort dýrið reyndist örmerkt en svo var ekki. Upp frá þessu varð litla læðan Nala ferðafélagi Dean og hann birti myndir af henni á Instagram á hinum ýmsu stöðum sem þau rákust á. Nala varð heimsfræg og BBC fjallaði um samband þeirra tveggja. Dean segir hana hafa breytt lífi sínu og í dag á hún það met að vera það gæludýr sem hefur flesta fylgjendur á Instagram. Hægt er að fá dagatöl með myndum af henni og ekki er ólíklegt að hún sé heimsins víðförlasti köttur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 25, 2024 07:00