Hella sér út í líkamsrækt til að undirbúa efri árin

„Það færist í vöxt að þeir sem eru orðnir miðaldra helli sér út í líkamsrækt til að vera betur undirbúnir fyrir efri árin. Ástæðan er áhyggjur af þvi að heilbrigðiskerfið muni ekki ráða við þann mikla  fjölda eldri borgara sem kemst á eftirlaunaaldur  næstu 10-20 árin“. Þetta kemur fram í ritinu Voxen, sem norska blaðið Verdens gang gefur út reglulega, en það fjallar  um málefni eftirlaunafólks.

Hvort þessu er eins  háttað hér á landi, er erfitt að segja til um, en stöðugt meiri áhersla er á heilsurækt almennt, heilsuefling eldra fólks hefur einnig verið áberandi síðustu ár og mörgum er ljóst að það sem þeir gera um sextugt, hefur áhrif á hvernig líf þeirra verður um áttrætt. Verdens gang ræðir í greininni við norska blaðakonu, hina sextugu Elizabeth Lingjærde, sem hefur fjallað mikið um heilsurækt í sínum skrifum, hefur gefið út bók um efnið og tekið líkamsræktina með trukki.

Vilja ekki sitja aðgerðalitlir eða spila bingó

Hún segist taka eftir þvið að æ fleiri sem komnir eru á miðjan aldur, séu að hugsa um heilsuna og að taka sig í gegn. „þeir sem eru núna sextugir og sjötugir hafa það mjög gott. Þeir hafa tíma, auraráð og búa yfir þekkingu. Þeir hafa ekki áhuga á að sitja aðgerðarlítlir á félagsmiðstöðvum fyrir aldraða eða spila bingó“, segir hún og bætir við að allt sem fólk geri fyrir heilsuna á þessum aldri, gagnist ekki bara þeim sjálfum heldur öllu samfélaginu. Þeir sem séu í góðu formi langt fram eftir aldri og spari þjóðfélaginu þannig verulegar upphæðir. Það sé heldur ekki góð tilfinning að vera uppá aðra komin.

Hvorki peningar né mannafli til að sinna eldra fólki?

Fræðikona sem rætt er við í greininni, Bettina S Husebö, upplýsir að í dag vinni sjöundi hver launþegi í Noregi við heílbrigðis- eða umönnunarstörf. Það sé sífellt kvartað yfir fjárskorti og  undirmönnun í heilbrigðiskerfinu. Þegar þeir sem eru núna fimmtugir verði áttræðir, muni þriðji hver launþegi vinna í þessum geira, það er að segja ef allir þeir sem eldri eru fái þá umönnun og meðhöndlun sem þeir þurfa. En Bettina segir að það muni hvorki verða til peningar né mannafli til að sinna þessu stóra verkefni, þegar þar að kemur.  Hún hvetur  þá sem eru farnir að leiða hugann að efri árunum, til að taka ábyrgð á eigin heilsu. Því fyrr sem menn geri það, því meiri líkur á að þeir geti átt mörg  og góð efri ár.  Málunum sé  þannig háttað að í framtíðinni þurfi eldra fólk að búa mun lengur heima en það geri  í dag. Hugsanlega verði þetta að einhverju leyti leyst með velferðartækninni, en þrátt fyrir tilkomu hennar sjái  menn  fram á samfélag þar sem eldra fólki mun fjölga mjög mikið og það þurfi bæði fé og mannskap til að mæta því. Hún bendir á þýskaland sem dæmi en þar séu menn komnir lengra með þessi mál, enda á undan í aldursþróuninni. Þar standi fólk nú frammi fyrir spurningum eins og; Hver á að sjá um gamla fólkið? Hver á að borga reikninginn?  Menn spyrji sig meira að segja hvort það verði peningar til að standa undir eftirlaununum fyrir allt þetta fólk?

Þarf að byrja smátt

Þó það sé mælt með því í greininni að eftirlaunafólk beri ábyrgð á eigin heilsu, segir Bettina að það geti dregið úr fólki kjarkinn ef sífellt er klifað á því. Það geti ekki allir orðið líkamsræktarstjörnur. Þess vegna þurfi að  byrja smátt. Hún hvetur fólk til að hugsa um hvaða hreyfingu því fannst gaman að stunda þegar það var á unglingsárunum. Minningarnar frá þeim tíma geymist í heilanum  og  að fiska þær aftur upp núna kveiki vellíðan. Alveg eins og þegar við heyrum tónlist frá þessum árum. Hún bendir á að flestir stundi einvherja líkamsrækt fram að tvítugu, en þegar menn bindi sig og eignist börn, hætti þeir oft að hreyfa sig. Þegar börnin fljúgi úr hreiðrinu hafi þeir aftur tíma til að stunda ræktina.

Það er ekki eingöngu líkamlega heilsan sem menn  þurfa að hafa í huga, andleg heilsa sé lykilatriði til viðbótar því að vera félagslega virkur.  „ Það er mjög mikilvægt að finnast maður hafa ástæðu til að fara á fætur á morgnana, hlakka til einhvers og finnast maður hafa eitthvert hlutverk í lífinu“ segir hún.

 

Ritstjórn febrúar 15, 2022 07:00