Eftirlaunafólk á byrjunarreit í hagsmunabaráttunni

Haukur Arnþórsson

Dr. Haukur Arnþórsson:

Hagsmunabarátta eftirlaunafólks og annarra sem eru ekki á atvinnumarkaði er enn á byrjunarreit. Framundan eru tímar þegar hækkandi hlutfall þjóðarinnar verður utan vinnumarkaðar vegna tæknibreytinga og aldurssamsetningar. Taka þarf heilstætt á málefnum þeirra hópa. Mikilvægt er að virkja samtök eftirlaunafólks til baráttu fyrir mannsæmandi aðstæðum og tengja hana baráttu annarra hópa, en ekki síst baráttu verkalýðshreyfingarinnar og annarra stéttarfélaga.

Um áramót er rétt að taka stöðuna í málefnum eftirlaunafólks. Á árinu 2019 gerðust atburðir sem fylgja þarf eftir og árið 2020 gæti orðið stórt ár í sögu velferðarkerfa.

Eftirlaunafólk þarf að sækja fram til bættrar stöðu á tveimur sviðum: hvað varðar fjármál og hvað varðar félagsmál. Við skulum líta á helstu mál þessara málaflokka.

Eftirlaunamál

Við lífskjarasamningana voru eftirlaunafólk og fleiri hópar, s.s. öryrkjar og atvinnulausir, skildir eftir. Um er að ræða hópa sem ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin taldi ekki ástæðu að yrðu í skjóli samninganna. Ljóst er að lífeyrir hefur heldur dregist aftur úr almennri launaþróun síðan 1. jan. 2017 – og enn meira hefur dregið í sundur með honum og lægstu launum.

Mikilvægt er að vekja afl samstöðu meðal þessara hóps, ekki síst eftirlaunafólks, en það myndar stærsta einstaka hópinn. Í því skyni hefur verið í gangi undirskriftarsöfnun á netinu með kröfu um að lífeyrir fylgi lægstu launum og verður þeirri undirskriftarsöfnun haldið áfram nú eftir áramót. Sem flestir þurfa að skrifa undir. Þá er stefnt að stórum mótmælafundi á Austurvelli nálægt 1. apríl 2020, en þá hækka lægstu laun næst samkvæmt lífskjarasamningunum.

Eftirlaunafólk og fleiri hópar berjast fyrir fleiri málum og þá ekki síst afnámi skerðinga. Það mál er nú sótt fyrir dómstólum og það þarf líka að halda því vakandi í almennri umræðu. Það mál er raunar ekki síður en mörg fleiri enn á byrjunarreit. Um tvísköttun virðist einnig um að ræða, hún er ólögleg og er það aðeins eitt sjónarmið af mörgum sem geta stutt afnám skerðinga.

Almennt má segja að tímabært sé að samtök eftirlaunafólks, verkalýðshreyfingin, lífeyrissjóðirnir, ríkið, sveitarfélögin og félög atvinnurekenda endurhugsi lífeyriskerfin í ljósi nýrra aðstæðna og semji um úrlausnir sín í milli sem allir aðilar geta verið stoltir af og sætt sig við.

Félagsmál

Það er orðið aðkallandi að bæta félagslega stöðu eftirlaunafólks og annarra hópa sem ekki eru á vinnumarkaði í ljósi þess að sá hópur fer sífellt stækkandi; ekki bara með hækkandi meðalaldri, heldur einnig með aukinni tæknivæðingu sem leysir sífellt fleiri störf af hólmi. Við þekkjum þessa þróun, sum atriði hennar eru jákvæð; erfiðum og hættulegum störfum hefur farið fækkandi og vinnuslysum hefur fækkað að sama skapi – og önnur eru neikvæð, en nú eru störf bankamanna og þeirra sem svara í síma í mestri hættu. En tækniþróunin gengur áfram með vaxandi hraða þannig að reikna má með að sífellt yngra fólk verði án atvinnu á komandi árum.

Þeir tugir þúsunda (eru nú nær 100 þúsund en 50 þúsund talsins) sem eru utan vinnumarkaðar þurfa engu að síður að vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu. Ekkert er verra en iðjuleysi og áhugaleysi, félagsleg einangrun og það þunglyndi sem fylgir. Í þessu efni þarf að líta til þeirrar félagslegu aðstöðu sem þeir sem eru á atvinnumarkaði hafa.

Hér er einkum átt við orlofsrétt og rétt til dvalar í orlofsíbúðum og rétt í öðrum sjóðum stéttarfélaga, ekki síst endurmenntunarsjóðum og sjóðum sem kosta þátttöku í námskeiðum og öðru slíku. Þá þarf að skoða mál sem snerta sjúkrasjóði. Félagsleg virkni er ekki síst mikilvæg fyrir þá sem standa utan vinnumarkaðar og rýfur ekki aðeins einangrun vel heldur stuðlar að frekari virkni. Nokkur dæmi eru um rétt af þessu tagi, t.d. hjá stéttarfélögum ríkisstarfsmanna.

Í fljótu bragði virðist eðlilegast að við starfslok verði félagsmenn áfram í því stéttarfélagi sem þeir greiddu síðast til og að verkalýðshreyfingin taki eftirlaunafólk og aðra utan vinnumarkaðar að sér félagslega. En til greina kæmi að félög þeirra sem standa utan vinnumarkaðar byggðu upp eigin kerfi, fjárfestu í eigin sumarhúsum o.s.frv. til þess að auðvelda félagslega virkni.

Margt fleira getur falist í endurbættri félagslegri aðstöðu, en fleira verður ekki rætt hér.

Þessa endurbættu félagslegu aðstöðu þarf að fjármagna og verður sá þáttur ekki ræddur hér, en í því efni koma nokkrar leiðir til greina.

Lokaorð

Mikilvægt virðist að samtök eftirlaunafólks taki mun fastar á hagsmunamálum sínum en verið hefur. Í því efni gefst gott tækifæri í Félagi eldri borgara í Reykjavík með kosningu nýrrar stjórnar í febrúar n.k. Bráðnauðsynlegt er að yngra fólk veljist til forystu.

Þeir sem eru utan vinnumarkaðar eiga sjálfstæða kröfu á því að búa við eðlileg félagsleg og efnahagsleg skilyrði m.a. í ljósi þess að nútíma þjóðfélög munu ekki getað lagt öllum til atvinnu, jafnvel þótt vinnuvikan verði stytt verulega. Því er krafan um jöfnuð milli hópa – þeirra sem eru á vinnumarkaði og þeirra sem eru utan hans – háværari og réttlátari en nokkru sinni fyrr.

En ekki síður kemur til sögunnar ný krafa um að þeir sem eru utan vinnumarkaðar eigi tækifæri á að vera áfram virkir þátttakendur í samfélaginu og hafi öll þau úrræði sem stéttarfélög leggja félagsmönnum sínum til um þessar mundir og fleiri. Framlag þeirra til samfélagsins myndi að sama skapi aukast á margan hátt og raunar ekki síst efnahagslega. Auknum lífsgæðum og aukinni lífsleikni fylgir margt annað jákvætt.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.

Ritstjórn janúar 7, 2020 12:37