Hér hefði Nelson Mandela verið settur í geymslu

Hundurinn Emil kemur hlaupandi til dyra, þegar blaðamaður Lifðu núna tekur hús á hugsjónakonunni Önnu Þrúði Þorkelsdóttur á hlýlegu heimili þeirra tveggja í Kópavogi. Hún segist una því vel að búa á jarðhæð og getur gengið beint út í garðinn úr íbúðinni, eins og hún var vön að gera þegar hún dvaldi í Suður-Afríku. Þangað á Emil líka ættir að rekja. „Ég er ekki fædd með silfurskeið í munni“, segir Anna Þrúður. „En ég hjúkraði veikum dýrum og mátti aldrei neitt aumt sjá. Ég held að það sé óhætt að segja það. Ég er líka komin af svoleiðis fólki“.

Anna Þrúður við hjálparstörf í Suður-Afríku

Fyrsta konan sem varð formaður Rauða krossins

„Ég hef alltaf verið bjartsýnismanneskja og ætla ekki að læknast á gamals aldri“ Þessi setning var höfð eftir Önnur Þrúði  í blaði Rauða kross Íslands, fyrir 15 árum. Þá var hún 65 ára gömul, að láta af starfi sem formaður Rauða krossins hér á landi, en hún var fyrsta konan sem gegndi því hlutverki.  Hún var jafnframt að undirbúa ferð til Suður Afríku en þangað fór hún sem sendifulltrúi til að vinna með fátæku og alnæmissmituðu fólki.  Anna Þrúður átti viðburðaríka æsku og flutti oft ásamt foreldrum sínum og þremur bræðrum milli landshluta, en hún fæddist á bænum Hnefilsdal á Jökuldal. Foreldrar hennar voru Anna Eiríksdóttir sem var heimasæta á Skjöldólfsstöum áður en hún giftist og flutti í Hnefilsdal, þar sem maður hennar Þorkell Björnsson bjó félagsbúi með föður sínum sem var þar lengi bóndi og hreppstjóri.

Anna Þrúður ásamt tveimur bræðrum sínum þeim Eiríki Skildi og Yngva Þór

Vond lykt í Hveragerði

Anna Þrúður varð læs fjögurra ára og dreymdi alltaf um að komast í skóla, en formleg skólaganga hennar þegar hún var barn, varð ekki nema um 8 ár.  Foreldrar hennar fluttu fyrst í Eyjafjörð, eftir að sauðféð í Hnefilsdal drapst úr mæðuveiki og garnaveiki og þau urðu að bregða búi. Þau fluttu að Syðri Varðgjá og þaðan til Akureyrar, en þar fékk heimilisfaðirinn ekki vinnu. „Hann var austan af landi, ekki í kaupfélagsklíkunni og ekki Framsóknarmaður“, rifjar Anna Þrúður upp.  Leið fjölskyldunnar lá því í Hveragerði. „Við komum þangað á níu ára afmælisdaginn minn. Mér fannst lyktin í bænum vond, þar var myrkur og engin götuljós“, segir hún.

Hét á Strandakirkju og bað til Guðs

Þrátt fyrir stöðuga flutninga og lítil efni, var létt yfir æskuheimilinu og í Hveragerði fékk Anna Þrúður sérherbergi í fyrsta sinn. „Ég fékk að velja veggfóðrið. Það var fölblátt með fölbleikri klifurrós“ segir hún. „Afi smíðaði svo handa mér borð og pabbi smíðaði dúkkuvagn og rúm“. Bernskuárin liðu og draumar Önnu Þrúðar um frekari menntun, virtust ekki ætla að rætast. Hún tók samt gagnfræðapróf frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri, en þangað flutti fjölskyldan aftur. Hún var hrædd við stærðfræðiprófið enda hafði hún verið stopult í skólanum og gengið illa í stærðfræði árið áður.  Nú var prófað úr námsefni tveggja síðustu vetra og það fyrir framan allan bekkinn. En Anna Þrúður lét ekki hugfallast, hét á Strandakirkju og bað til Guðs að hún næði prófinu.Hún fékk sjö, eftir að hafa komið upp í eina dæminu sem hún kunni „Eftir það trúi ég á kraftaverk“ segir hún.

Lofaði pabba að haga mér vel

Þegar Anna Þrúður var 18 ára gömul bauðst henni að fara sem au pair stúlka til Bretlands.  Frúin á  heimilinu var ekkja og fornleifafræðingur og var í vinfengi við við rithöfundinn Agatha Christie sem var gift fornleifafræðingi. Húsið var 600 ára gamalt og húsmóðirin óhemju nísk. Þegar hún skildi Önnu Þrúði eftir eina heima með súpu í potti, sem fugl hafði drepist í, sem hún átti að borða á meðan hún væri í burtu í nokkra daga, var henni nóg boðið.  Hún spurði sjálfa sig „Hvað ertu að gera hér, þú lærir enga ensku og ert alltaf að vinna?“. Hún segir að allt þorpið hafi vorkennt sér vistina hjá þessari konu og það varð úr að hún flutti, fyrst til íslenskrar konu sem þarna bjó, en fljótlega var hún komin í vinnu á geðsjúkrahúsi í grendinni. „ Ég var mjög fljót að læra ensku. Það var reynt að fá mig til að verða módel, af því ég var ljóshærð og öðruvísi. Ég reykti hvorki né drakk, enda hafði ég lofað pabba að haga mér vel“, segir hún.

Flugfreyjan Anna Þrúður

Þótti orðin pipruð

Eftir að hún kom heim vann hún bæði hjá Hótel Kea og útibúi Útvegsbankans á Akureyri. Hún steig á svið hjá Leikfélagi Akureyrar og þótti upprennandi stjarna. Að lokum gerðist hún svo flugfreyja hjá Loftleiðum og flutti til Reykjavíkur.  Hún flaug meðal annars til Stavanger í Noregi og þar hitti hún myndarlegan íslenskan verkfræðing Gunnar Lárusson, en hann vann hjá Braatens flugfélaginu sem Loftleiðir voru í  samvinnu við. „Ég var orðin 25 ára og þótti orðin pipruð eða  komin á síðasta séns“, segir Anna Þrúður „Þannig voru viðhorfin í þá daga“.  Þau Gunnar urðu hjón og eignuðust fyrsta barnið sitt Ragnar, árið 1962. Hann var 18 merkur og Anna Þrúður segir að hann hafi ýmist verið kallaður kjempegutten, eða íslenski Víkingurinn.

Var gamaldags húsmóðir

Fjölskyldan flutti til Íslands árið 1964 og Anna Þrúður segist hafa verið gamaldags húsmóðir sem saumaði, prjónaði og tók slátur. Það var enginn leikskóli fyrir börnin sem urðu þrjú.  Ragnar sem fæddist í Stavanger og er núna verkfræðingur í Bandaríkjunum, Ragnhildur Anna flugfreyja og lögfræðingur og Þorkell Máni sem er tölvunarfræðingur og býr líka í Bandaríkjunum. Barnabörn Önnu Þrúðar eru fimm, allt stelpur. Hún á svo einn langömmustrák í Örebro í Svíþjóð.  Anna Þrúður segir að hún fari til Bandaríkjanna að heimsækja syni sína einu sinni á ári og dvelji þar í 2-3 vikur.

Varð formaður Rauða krossins sextug

Anna Þrúður starfaði mikið með öldruðum

Anna Þrúður lét hendur standa fram úr ermum og auk húsmóðurstarfsins, sótti hún sér menntun á ýmsum sviðum. Tók námskeið í tungumálum og myndlist, fór í leiðsögumannskólann og lauk svo að lokum BA prófi í  þjóðfræði árið 1996 með mannfræði sem aukagrein, en þá var hún sextug.  Samhliða þessu var hún lengi í starfi hjá Rauða krossi Íslands.  „Ég fór að vinna sem sjálboðaliði árið 1971 í nýstofnuðu félagsstarfi aldraðra sem þá  fór fram í Tónabæ, eða Lídó eins og staðurinn var kallaður í gamla daga. Þá fékk ég í fyrsta sinn leikskólapláss hálfan daginn, fyrir yngstra son minn. Það varð síðan ævistarf mitt að vinna í öldrunarþjónustu og starfa hjá Rauða krossinum. Þar var ég kjörin í stjórn og varð varaformaður árið 1986. Þegar Guðjón Magnússon formaður flutti til Svíþjóðar var ég hvött til að gefa kost á mér í formennskuna. Ég lýsti því yfir á stjórnarfundi að ég ætlaði að bjóða mig fram og var kosin formaður á aðalfundinum árið 1996, árið sem ég varð sextug“, segir hún.

Heiðursborgari í Sremski Karlovci í Serbíu

Þegar hún var orðin formaður RKÍ, fór hún í heimsókn til Serbíu, þar sem Serbíustríðið var í algleymingi.  Henni var vel tekið í bænum Sremski Karlovci þar sem hún kom og bæjarstjórinn sagði við hana að hún væri eina yfirmanneskjan frá Rauða krossinum sem hefði heimsótt þau í þessum erfiðleikum.  Ástandið var slæmt, flóttamenn höfðust við í skemmum, traktorar stóðu bilaðir og bensínlausir, enda hvorki hægt að fá varahluti né kaupa bensín vegna viðskiptabannsins. Anna Þrúður sá að það veitti ekki af að taka þarna til hendi. Hún keypti áhöld í súpueldhúsið og beitti sér fyrir því að komið var á svokölluðu vináttudeildarsambandi við Rauðakrossinn á staðnum.  Fyrir vikið var hún gerð að heiðursborgara í bænum.

Fátækrahverfið Maugaung í Bloemfontein

Eymdin þarna svo mikil

Eftir að hún lauk trúnaðarstörfum fyrir Rauðakrossinn, lá leiðin til Suður-Afríku, til bæjarins Bloemfontein í héraðinu Free State. Þar var fjölmennt fátækrahverfi og Anna Þrúður sneri sér að starfi með fátæku fólki og alnæmissjúklingum. Alnæmi var mikið feimnismál þarna. Það var til dæmis algengt að dánarvottorð alnæmissjúklinga hljóðuðu uppá sjúkdóma eins og berkla eða krabbamein.  Hún tók líka að sér að byggja upp heimaþjónustu í bænum Kimberley sem er í rúmlega 100 kílómetra fjarlægð frá Bloemfontein „Eymdin þarna var svo mikil að það er ekki hægt að ímynda sér það“ segir Anna Þrúður. „Svo er fólk á vesturlöndum að heimta þetta og hitt“. Hún segir að margir hafi leitað á heilsugæsluna. „Fólk var ekki læst og ekki skrifandi og það átti ekki til matarbita. Ekkert. Það var sagt við mig að það færi enginn út í þessi hverfi og að ég væri bara rugluð. Mér var ráðlagt að fá mér annað hvort lífvörð eða hund sem gelti. Ég fékk mér tvo hvolpa sem ég tók svo með mér heim. Þetta voru tíkur sem voru 8 vikur í Hrísey eftir að heim kom og hann Emil er sonur annarrar þeirra“.

Kunna ekki að vinda tusku

Önnu Þrúði er öldrunarþjónustan þar sem hún starfaði í áratugi, mjög hugleikin og aðstæður eldra fólksins í landinu.  Dvalarheimilum hefur fækkað og Önnu Þrúði finnst að  þar með hafi slitnað bandið sem var milli heimilis og hjúkrunarheimilis. „Það eru ekki allir sem geta verið einir, þó þeir búi heima“, segir hún. Þá séu störf í þjónustu við aldraða illa borguð, það sé litið niður á þau. Það sé farið að vanta starfsfólk í heimaþjónustu. Sjálf segist hún hafa velt fyrir sér að tengja þessi störf inní félagsgreinarnar í háskólanum. „En íslenskar stelpur hafa ekki metnað í þetta. Kunna ekki einu sinni að vinda tusku. Austurlensku konurnar eru mjög góðar við gamalt fólk, en þá er það tungumálið. En það lifir enginn af þessum launum“.

Vantar hlýlegt viðmót og uppörvun

Anna Þrúður vill líka að gömlu fólki sé sýnd virðing og hlýja. „Mér finnst skelfing að hugsa til þess hversu margir eru einmana, veikir og fátækir“, segir hún og vill að Félag eldri borgara sinni þeim sérstaklega.  Hún nefndi líka dæmi af konu sem kom másandi og blásandi inná þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk.  „Er ég búnin að missa af kaffinu“, spurði hún andstutt. Konan sem þarna var, sagði hranalega „já, því lauk klukkan eitt“, en klukkan var 10 mínútur yfir. Það vantar hlýlegt viðmót og uppörvun.  Það er margt gott í þjónustunni, en ég sakna þess að ekki skuli hlúð betur að félagsstarfi aldraðra eins og var.  Það dró fólk út úr einsemdinni“, segir Anna Þrúður.

Heimurinn og eldri kynslóðin

Sveitastelpan að austan hefur víða farið og átt langt og viðburðaríkt líf.  Örbirgðin er undirrót hins illa, sagði hún í samtali við Rauða kross blaðið fyrir 15 árum. Við skulum grípa niður í viðtalið.

En auðvitað er forsendan fyrir friði í heiminum að komast fyrir þessa óskaplegu örbirgð. Hún er undirrót glæpa, veikinda og misréttis. Það er auðvelt að sá fræjum hatur í ungar sálir þegar þær eiga ekki neitt og eygja enga von. Svo miklu hatri að fólk sprengir sjálft sig í loft upp. En ér finnst hver og einn jarðarbúi hafa vissum skyldum að gegna og ef við leggjumst öll á eitt er hægt að breyta miklu.

Og síðar í greininni er þessi texti.

Það eru einmitt þau grundvallar sannindi að hver maður verður að eiga sér hlutverk í lífinu sem knýr hugsjónir Önnu Þrúðar. „Hér á Íslandi er mönnum fyrirskipað að hætta að vinna sjötugir þótt þeir séu klárir, færir og vel menntaðir.  Þetta fólk hefur ekkert hlutverk lengur, er sett í ruggustól og sagt að bíða í þrjátíu ár“.

Anna Þrúður bendir á það í viðtalinu að Nelson Mandela, sé einn virtasti þjóðhöfðingi í heimi og hann hafi orðið forseti 77 ára gamall.  „Hér hefði hann verið settur í geymslu“ segir hún.

 

 

 

Ritstjórn mars 31, 2017 09:49