Hjálpaðu mér að lifa af nóttina

Kris Kristofferson var hugsjónamaður, mannvinur og kvikaði aldrei frá sannfæringu sinni. Hann lést 28. september síðastliðinn. Hann var hæfileikaríkur tónlistarmaður og mörg laga hans flytja boðskap um umburðarlyndi, mannúð og frið. Hann hikaði heldur aldrei við að stíga fram og taka málstað annarra teldi hann á þá ráðist. Meðal annars vakti mikla athygli þegar hann á áberandi hátt studdi Sinéad O’Connor eftir að hún reif ljósmynd af páfanum í beinni útsendingu.

Frægt varð þegar Kris Kristofferson gekk til Sinéad O’Connor á sviðinu og hvatti hana til að láta ekki bugast.

Sinéad var á þessum tíma þekkt í Bandaríkjunum fyrir lagið Nothing Compares 2 U. Hún kom fram í sjónvarpsþættinum Saturday Night Live og reif þar ljósmynd af Jóhannesi Páli II páfa til að mótmæla ýmsum grimmdarverkum og áhrifum kaþólsku kirkjunnar á Írlandi. Þarna voru að komast upp glæpir sem framdir voru gegn konum og börnum í Magdalene-þvottahúsunum og afstaða kirkjunnar gegn fóstureyðingu hafði valdið mörgum konum miklum skaða. Sinéad, sem alin var upp við mikið ofbeldi af hálfu móður sinnar, vildi með þessu sýna stuðning sinn við kvenfrelsi og hatur á spillingu.

Þetta varð hins vegar til þess að Bandaríkjamenn snerust hatrammlega gegn henni og á tónleikum með Bob Dylan í vikunni á eftir var baulað á hana þar til hún þagnaði. Þar var Kris staddur og hann gekk til hennar, tók utan um hana og hvatti hana til að láta skrílinn ekki buga sig. Þau stóðu síðan saman á sviðinu og Sinéad kláraði lagið sitt. Þau sungu síðan saman dúettinn, Help Me Make It Through the Night. Hann sendi síðar frá sér lagið, Sister Sinéad,  henni til stuðnings en í textanum ver hann tjáningarfrelsið og lýsti Sinéad sem einlægri, dásamlegri stúlku sem síst ætti skilið árásir og illsku.

Kris Kristofferson með Barbru Streisand þegar þau léku saman í A Star is Born.

Bráðgáfaður hæfileikamaður

Seinna átti Kris eftir að segja í viðtali að gjörningur Sinéad hafi verið mjög misskilinn og að hann hafi ekki verið tilbúinn að standa hjá og horfa upp á að menn færu svona með hugrakka unga konu.

Kris Kristofferson fæddist í Texas 22. Júní árið 1936. Faðir hans var í hernum og fjölskylda flutti oft milli staða en settist að lokum að í San Mateo í Kaliforníu. Kris hóf nám í San Mateo High School og vakti strax athygli fyrir góða námshæfileika. Hann skrifaði tvær ritgerðir á þessum tíma sem báðar hlutu verðlaun. Önnur var um sérstæðan klett sem lítur út eins og kona en hin um kynþáttafordóma. Hann tók BA-próf í bókmenntafræði frá Pomona háskóla og hlaut Rhodes-skólastyrk til að klára meistaragráði í Oxford en slíkur styrkur veitist aðeins afburðanemendum.

Kris með fyrstu eiginkonu sinni Fran Beer.

Hann var einnig góður íþróttamaður, spilaði bæði rugby og amerískan fótbolta. Hann fór snemma að spila á gítar og meðan hann var við nám í Oxford hóf hann að semja lög. Hann spilaði á háskólaárunum á krám og litlum stöðum undir listamannsnafninu Kris Carson. Hann gengdi herskyldu í bandaríska hernum á tímum Víetnam-stríðsins og var þyrluflugmaður. Eftir að hann var leystur úr hernum flutti hann til Nashville og vann um tíma sem húsvörður hjá  Columbia upptökustúdíóinu. Það var þar sem hann sá og heyrði í Bob Dylan í fyrsta sinn en Bob var þar mættur til að taka upp plötuna Blonde on Blonde sem kom út árið 1966. Þeir hittust ekki þá en Kris sagði síðar í viðtali að hann hafi ekki þorað að fara og tala við stjörnuna. Hann sá meðal annars hvar Bob sat einn við píanóið um miðja nótt til að klára lagið Sad Eyed Lady of the Lowlands.

Með Ritu Coolidge sem varð eiginkona hans númer tvö.

Mörg laga hans klassísk

Hann var gersamlega heillaður bæði af tónlistinni og þeim vinnubrögðum sem hann sá Bob Dylan viðhafa. Kris gerðist þyrlukennari og í því starfi tók hann stóra áhættu þegar hann lenti þyrlunni í garðinum hjá Johnny Cash en áður hafði hann fært eiginkonu hans, June Carter, spólur með nokkrum laga sinna. Það var til þess að Johnny ákvað að syngja lagið, Sunday Morning Coming Down, inn á plötu árið 1970 og það vann titilinn lag ársins árið 1970 hjá Academy of Country Music. En þá hafði Kris Kristofferson sent frá sér sína fyrstu sóló-plötu For the Good Times.

Á fyrstu plötu hans kom var að finna lagið To Beat the Devil. Það fjallaði um baráttu söngvarans við að koma sér á framfæri þá ungur og óþekktur í Nashville og hann svalt stundum heilu hungri. Þar er meðal annars að finna þessar línur: „If you waste your time a-talkin’/To the people who don’t listen/To the things you are sayin’/Who do you think’s gonna hear?“ Eða, ef þú sóar tíma þínum í að tala við fólk sem hlustar ekki á það sem þú ert að segja, hver heldur þú að heyri?

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þetta ár, 1970 var Kris einstaklega gjöfult en Janis Joplin söng inn á plötu lagið Me and Bobby McGee en það kom út að henni látinni og sló gersamlega í gegn. Og upp frá þessu komu lögin frá honum í stríðum straumum. Sum fóru lágt en önnur beint inn á vinsældarlista. Plata hans The Silver-Tongued Devil and I, kom út árið 1972 og þykir enn í dag hans allra besta. Á henni er að finna lagið, Epitaph, eða Eftirmæli ort um Janis Joplin.  one of the most anguished remembrances of Janis Joplin in song. Fleiri klassísk lög er að finna á henni en Kris er þekktur fyrir persónulega og hjartnæma texta, einlægni í flutningi og sérlega fallegar melódíur. Ein sú allra fallegasta er fyrrnefndur dúett, Help Me Make it Through the Night sem Ríó Tríóið gerði ábreiðu af undir yfirskriftinni, Eina nótt. En Jónas Friðrik þýddi textann snilldarlega. Hvernig er hægt annað en að syngja með, „Láttu mjúkra lokka flóð, létt að strjúka mér um kinn, “ eða „Gleymt og týnt er gærdagsljós, glætu morguns enginn sér.“

Kris á sínum síðustu tónleikum.

Sneri sér að kvikmyndaleik

Kris lék einnig í ótal kvikmyndum meðal annars í Pat Garrett and Billy the Kid árið 1973. Bob Dylan lék einnig í myndinni og þar var frumflutt lag hans, Knocking on Heavens Door. Árið 1974 lék Kris á móti Barbru Streisand í fyrri útgáfunni af A Star is Born en tónlistin í þeirri mynd var ekki síður vinsæl en lögin í þeirri seinni þar sem Lady Gaga og Bradley Cooper gerðu garðinn frægan.

Þótt Kris væri alla ævi hreykinn af að hafa þjónað landi sínu í hernum var hann engu að síður ávallt á móti stríði. Hann hafði séð með eigin augum og upplifað á eigin skinni hvernig stríð fór með fólk. Hann mótmælti þess vegna harðlega innrás Bandaríkjamanna inn í Írak og hann hélt tónleika til stuðnings palestínskum börnum. Að því tilefni sagði hann við blaðamenn: „Ef þú styður mannréttindi á annað borð þarftu að styðja þau alls staðar.“

Kris með Lisu Meyers sem hann giftist árið 1983.

Kris Kristofferson kom til Íslands árið 2004 og hélt tónleika í Laugardalshöll það ár. Hann kvæntist Francis Mavia Beer árið 1961 en þau skildu árið 1969. Þau eignuðust tvö börn saman, dótturina Tracy og soninn Kris. Hann átti í stuttu ástarsambandi við Janis Joplin skömmu áður en hún dó en Rita Coolidge söngkona varð eiginkona hans númer tvö árið 1973. Þau störfuðu mikið að saman að tónlistinni og dúettinn, Help Me Make it Through the Night var saminn fyrir hana og þau sungu lagið saman þegar það kom fyrst út. Rita og Kris áttu saman dótturina, Casey. Þau skildu árið 1980 og Kris tók saman við Lisu Meyers ári eftir það. Þau giftu sig árið 1983 og Lisa lifir mann sinn. Með Lisu átti Kris synina, Jody Ray, Johnny Robert, Jesse Turner og Blake Cameron og dótturina, Kelly Marie. Kris var margverðlaunaður bæði fyrir leik og tónlist sína. Hann hafði margvísleg áhrif á þjóðamálaumræðu í Bandaríkjunum en arfleifð hans er fyrst og fremst einlæg, einstaklega falleg tónlist og textar sem eru óður til hversdagleikans, til lífs venjulegs fólks og hvatning til að virða manneskjuna í einu og öllu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 4, 2024 07:00