Hljóðbækur bæta lífsgæðin

Lesblinda, blinda og sjónskerðing eru helstu ástæður þess að margir geta ekki notið þess að lesa; þeir eru með öðrum orðum prentleturshamlaðir eins og lánþegar hjá Hljóðbókasafni Íslands eru skilgreindir. Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, forstöðumaður, segir hlutverk safnsins fyrst og fremst vera að þjóna þessum hópi, en margir eldri borgarar geri sér efalítið ekki grein fyrir að þeir falli undir þessa skilgreiningu þegar heilsan bilar og þeir geta ekki lengur notið þeirra lífsgæða að lesa hefðbundna, prentaða bók.

Fólk með ofnæmi fyrir prentsvertu

Hún nefnir sem dæmi þá sem vegna lömunar eða skjálfta geta ekki haldið á bók, t.d. parkinsonssjúklingar, þá sem eru í krabbameinsmeðferð og eiga við einbeitingarörðugleika og ýmsa líkamlega kvilla að stríða. ,,Ofnæmi fyrir prentsvertu kemur jafnvel til greina sem ástæða fyrir því, að fólk á rétt á að fá hljóðbækur frá safninu. Þeir sem óska eftir þjónustunni þurfa einfaldlega að framvísa vottorði eða skriflegri staðfestingu frá lækni eða öðrum sérfræðingi og fylla út umsókn. Þessi skilyrði eru sett vegna þess að samkvæmt lögum má safnið eingöngu framleiða bækur fyrir þennan hóp og ekki í fjárhagslegum tilgangi,” upplýsir Þóra Sigríður.

Miklir lestrarhestar

Þakklæti lánþega er að hennar mati besti mælikvarðinn á hversu hljóðbækur eiga stóran þátt í að bæta lífsgæði fólks, sem ella hefði farið varhluta af þeirri ánægjulegu dægradvöl sem felst í lestri bóka. ,,Við bjóðum upp á rúmlega 9.000 bókatitla eftir innlenda sem erlenda höfunda og bókakosturinn verður sífellt meiri og fjölbreyttari, enda framleiðum við 200 – 300 hljóðbækur á ári. Lánþegar okkar eru miklir lestrarhestar og því leggjum við áherslu á að breyta völdum, nýjum bókum eins fljótt og auðið er í aðgengilegt form fyrir þá,” segir Þóra Sigríður og bætir við að safnið hafi á sínum snærum hóp valinkunnra lesara, m.a. þjóðþekkta leikara, sem lesi svo unun sé á að hlýða.

Sumir hlaða bókum niður í tölvur

Elstu lánþegana segir hún yfirleitt kjósa að fá bækurnar á hljóðdiskum, sem þeir geti hlustað á í geisladiskaspilara og fengið senda heim, allt að 25 diska á mánuði. Aðrir hali bókunum einfaldlega niður í tölvurnar sínar og þaðan í spjaldtölvur eða snjallsíma. ,,Við erum með nýja vefsíðu í smíðum, sem býður upp á streymisspilara, en með honum er hægt að hlusta á bækur án þess að hala þeim niður. Auk þess er vinna við smáforrit fyrir Android síma langt komin,” segir Þóra Sigríður og mælir með að prentleturshamlaðir kynni sér bókakostinn og starfsemi Hljóðbókasafns Íslands á heimasíðu safnsins hér.

 

 

Ritstjórn nóvember 26, 2014 16:40