Hlustaði á útvarpið í skurðaðgerðinni

„Ég er að koma til“, segir Stefán Andrésson sem fékk nýtt hné fyrir tæpum tveimur vikum. „Þetta er búið að vera erfitt en er allt í áttina og ég fór í fyrsta skipti til sjúkraþjálfara í gær“, sagði hann þegar Lifðu núna hitti hann til að athuga hvernig hefði gengið í aðgerðinni. Hann segist hafa haft miklar kvalir í hnénu, eins og hann hafi raunar vitað um fyrirfram því þetta er stór og sársaukafull aðgerð, en nú sé hann farinn að minnka aðeins við sig verkjartöflurnar. „Ég var í rúsi fyrstu dagana“, segir hann.

Hlustaði á morgunþátt Bylgjunnar

Hann segir að aðgerðin sjálf hafi ekki verið óþægileg, en sér þyki merkilegt hvernig hægt er að deyfa fólk mænudeyfingu, bara fyrir neðan mitti. En hann hafi verið vel deyfður og ekkert fundið. Bara heyrt hljóðið í tækjum og tólum, þegar verið var að höggva, bora og festa nýja hnjáliðinn. Hann hlustaði á útvarpið á meðan aðgerðin var gerð. „Ég hlustaði á morgunþáttinn á Bylgjunni til að dreifa huganum“ segir hann.

Heftin tekin á mánudag

Stefán sem var í fjóra daga á sjúkrahúsinu eftir aðgerð, fór í fyrsta skipti til sjúkraþjálfara í gær. Hann þarf að mæta þar tvisvar í viku og einnig þarf hann að gera æfingar heima. Það vill svo vel til að sonur hans sem er á fjórða ári í námi í sjúkraþjálfun getur svo hjálpað honum heima. „Heftin verða svo tekin úr skurðinum á mánudag“, segir hann og er feginn, því það er farið að taka svolítið í þau.

Svona lítur hnéskurðurinn út. Skurðurinn er heftur saman

Svona lítur hnéskurðurinn út. Skurðurinn er heftur saman

Alls ekki liggja í rúminu

Stefán segist staulast svolítið um á hækjum sem hann fékk, en líka án þeirra, því það sé æskilegt að sleppa þeim. En þegar hann fari út hafi hann þær. Hann sé hvattur til að hreyfa sig eins mikið og hann þoli, en fara þó ekki yfir þolmörkin. Þá eigi hann alls ekki að liggja í rúminu. Hann hafi hins vegar misst matarlystina eftir aðgerðina. „Kosturinn við það er að ég hef lagt af“, segir hann.

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Hann segir að næstu vikur muni fara í uppbyggingu en og það reyni á þolinmæðina. „Ég þarf að fylla upp í tímann sem er framundan og sé fram á að geta tekið að mér létt verkefni frá vinnunni hérna heima. Það á ekki við mig að gera ekki neitt“ segir hann. Stefán er formaður stjórnar Frímúrarakórsins og það hefur verið ákveðið að stjórnin haldi fundi sína á næstunni heima hjá honum.  „Svo skemmir ekki fyrir að hafa Guðlaugu hér“ segir hann.

Ekki nógu hlýðinn sjúklingur

Guðlaug er hjúkka, er líka í býtibúrinu og fer í sendiferðir

Guðlaug er hjúkka, er líka í býtibúrinu og fer í sendiferðir

„Ég er ekki bara hjúkka, ég er í býtibúrinu og fer í sendiferðir“, segir Guðlaug Valgeirsdóttir eiginkona Stefáns. Hún segist ekki hafa haft svona mikið að gera síðan hún hætti að vinna úti árið 2005. En er hann góður sjúklingur? „Mér finnst hann ekki hlýða alveg nógu vel þegar kemur að hreyfingunni. Hann þyrfti að hreyfa sig meira“, segir hún. „Hún er harður húsbóndi“ segir Stefán, sem situr í góðum hægindastól þegar blaðamann ber að garði og sest svo út á svalir í góða veðrinu.

Lifðu núna fylgist með

Það verður gaman að fylgjast með hvernig Stefáni gengur að aðlagast nýja hnénu. Það er ljóst að það þarf heilmikla þolinmæði og þjálfun til að koma því í samt lag. Allt hefur gengið eftir áætlun fram til þessa og Stefán hefur lofað lesendum Lifðu núna að fylgjast með.

Sjá fyrra viðtal Lifðu núna við Stefán hér https://lifdununa.is/grein/faer-nytt-hne-i-dag/

 

Ritstjórn ágúst 28, 2015 13:49