Örlítil athugasemd við hönnun karllíkamans

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifa

Hver ætli hafi hannað þann líkama sem okkar innri maður býr í – eða líkama mannskepnunnar yfirleitt? Nú er allt hannað niður í smæstu atriði, hvort heldur það eru hús, húsgögn, bílar eða hvað annað sem nefna má. En hver hannaði hönnuðina sjálfa, útlit okkar og form?

Sanngjarnt er að segja að bærilega hafi tekist til hjá þeim sem skóp manninn á sínum tíma, hvort heldur það tók viku eða örlítið lengri tíma, sem sennilegt er. Við erum með heila sem áttar sig á ansi mörgu, augu sem sjá, eyru sem heyra, hendur sem geta gripið og fætur sem bera okkur þá leið sem við viljum fara.

En er þessi sköpun, eða hönnun á mannslíkamanum, gallalaus? Um það má deila. Við þekkjum muninn á kynjunum og tökum óhjákvæmilega eftir einu, þegar grannt er skoðað. Æxlunarfæri konunnar eru innvortis en utanáliggjandi á karlinum. Ekki beinlínis lekkert á síðarnefnda kyninu, ef sletta má á dönsku, og spurning hverjum datt í hug að hafa þetta svona. Það má með sanni segja að hönnuður mannskepnunnar hafi lagt meiri metnað í sköpun konunnar en karlsins, gert hana straumlínulagaðri. Miðað við nútíma hönnun mætti líkja því við það þegar hönnuðir bíla setja þá í vindgöng til þess að minnka mótstöðu. Það er ekki víst að það hafi verið gert þegar karlinn var hannaður á sínum tíma.

Kannski hefði farið betur á því, þegar unnið var að hönnun karlmannsins í árdaga, að prófa að hafa æxlunarfærin innan belgs, til þess að koma í veg fyrir óþarfa dingl og hnjask við leik og störf, en tólin þó tilbúin til útrásar og uppreisnar þegar það á við. Það mætti líkja þeirri hönnun við fína nútímabíla sem eru þannig búnir að hurðahandföng falla inn á akstri, en skjótast út þegar opna þarf. Dæmi eru um slíkt á ýmsum eðalvögnum þar sem mikið er lagt upp úr hönnun, lítilli mótstöðu og ekki síst góðum smekk.

Allir strákar og karlar þekkja það að títtnefnd líffæri geta þvælst fyrir, þótt þau í sjálfu sér séu góð til síns brúks. Má þar nefna að fá bolta í þau þegar fast er skotið í kappleik. Það er vont. Miklu betra væri ef þau væru læst inni meðan á kappleik stæði.

Minnisstætt er pistilskrifara að fyrir kom í Réttó í gamla daga að leikfimitímar drengja og stúlkna voru sameinaðir. Þá var spilaður brennibolti. Drengirnir fengu þau fyrirmæli frá leikfimikennara stúlknanna að þeir mættu hvorki skjóta boltanum ofanvert í stúlkurnar né í þær miðjar. Eftir stóðu þá aðeins fótleggir ungmeyjanna sem skotmark. Stúlkunum var hins vegar ekki meinað að skjóta í drengina miðja, ef rétt er munað.

Annað dæmi úr uppvexti pilta er það þegar hjólað var, kannski meira af kappi en forsjá, að eistahylki æxlunarfæranna, sjálfur pungurinn, gat lent illa á stönginni. Það var líka vont. Raunar er óskiljanlegt að drengja- og karlamannahjól séu hönnuð með stöng, miðað við þessa slysahættu, en kvenhjól ekki.

Auðvitað á maður ekki að kvarta, þótt karlkyns sé. Í meginatriðum er kroppurinn á okkur vel lukkaður, vel hannaður ef svo má segja, þrátt fyrir þessar vangaveltur um utanáliggjandi æxlunarfæri. Stöku sinnum kemur það sér meira að segja vel, ekki síst ef pissa skal í skyndi. Þá virkar hönnun karla betur en kvenna. Karlar eru heldur ekki með brjóst, sem vissulega geta verið til trafala hjá konum, vilji þær hlaupa mjög hratt, þótt annars gegni þau hlutverki sínu vel og séu til prýði.

Kannski er það bara gott að þetta sé eins og það er á körlunum. Annars gæti það komið fyrir, þegar mest á ríður, að verkfærin mikilvægu stæðu ekki, heldur stæðu á sér – næðust hreinlega ekki úr læsingu.

Þá væri illt í efni.

Maður deilir, sem sagt, ekki við hinn mikla skapara og hönnuð – að minnsta kosti ekki hvað varðar þetta lítilræði.

Jónas Haraldsson febrúar 5, 2021 16:48