Benedikt Bjarnarson er orðinn 87 ára gamall, fæddur 1936, og hóf að stunda frjálsar íþróttir árið sem hann varð áttræður. Hann hefur tekið þátt í fjölda móta síðan og safnaað sér verðlaunapeningum. Hann sýnir peningana stoltur en brosir og segir að kannski sé samkeppnin ekki sérstaklega mikil í þessum aldursflokki. Hann taki ekki þátt í íþróttakeppnum til að sigra þær heldur sé þátttakan sjálf þess virði því félagsskapurinn sé alltaf skemmtilegur.
Benedikt er menntaður vélstjóri en fór ungur á sjó, fyrst sem þjónn yfirmanna eða messagutti á kolakyntu millilandaskipi sem hét Selfoss og seinna sem vélstjóri á hvalveiðiskipi nokkrar vertíðir. Síðan fór hann í kennslu í Vélskólanum í rennismíði og vélsmíði og starfaði þar alla tíð.
Benedikt er ekkill en hann missti eiginkonu sína, Möttu Friðriksdóttur, fyrir rúmum fimm árum. Hann veit sem er að eftir slíkan missi er hætta á einmanaleika mikil. ,,Ég var reyndar búinn að missa hana fyrr því hún hvarf inn í heim alzheimersjúkdómsins löngu áður,“ segir Benedikt. Hann er duglegur að sækja sér félagsskap og þótt hann sakni Möttu reynir hann að fylla dagana af skemmtilegum stundum og af þeim sé nóg ef að er gáð.
Eins og ein góð Tenerife ferð
Þegar Benedikt byggði húsið sem hann býr enn í fyllti hann ekki upp rými undir húsinu eins og til stóð. Nú nýtist þetta rými vel því þar er
hann búinn að koma sér um æfingaaðstöðu. Þar eru nú tæki sem hann nýtir til að halda sér hreyfanlegum áfram og þarf ekki að fara í líkamsræktarstöð þar sem er örtröð og læti og biðröð í tæki.
Of mikil hreyfing getur verið neikvæð
Benedikt kynntist badmíntoníþróttinni á Skógaskóla sem unglingur eða 1950. Þar fékk hann grunn sem hefur enst honum alla tíð þótt hann hafi ekki spilað íþróttina samfellt. ,,Ég hef alltaf verið viðbragðssnöggur, sem badmintonið hefur líklega eflt, og svo er ég ekkert viðgerður,“ segir Benedikt og brosir. ,,Jafnaldrar mínir hafa gjarnan liðið fyrir mjaðma- eða hnjávesen og þurft að fara í liðskptaaðgerðir. Allir svona kvillar hindra fólk auðvitað í að njóta lífsins. Og það má segja að kannski komi ég inn í efri árin með tiltölulega lítið notaða liði þar sem ég hef hvorki þurft að vinna erfiðisvinnu né stundað íþróttir eins og hlaup eða fótbolta þar sem álagið á liðina er mikið. Badmintonið er það eina sem ég hef stundað allt frá unglingsaldri og það virðist hafa dugað mér vel. Nú þegar ég er að taka þátt í frjálsum íþróttum get ég hlaupið 60 og 100 metra en hef ekki endilega mikla samkeppni.“
Benedikt hefur verið í nokkrum badmintonhópum og í þeim hópum hefur verið mun yngra fólk en hann. ,,Svo fann ég smám saman að ég var farinn að dragast aftur úr og þá hætti ég,“ segir hann og þekkir greinilega sinn vitjunartíma. Nú mætir hann tvisvar í viku í badmintontíma þar sem er fólk á öllum aldri, meira að segja einn eldri en hann. Í þeim hópi var haldið badmintonmót í síðustu viku og þar hafnaði Benedikt í þriðja sæti og var ánægður með þann árangur því hann sigraði nokkra mun yngri spilara í nokkrum leikjum. ,,Þetta er óskaplega skemmtileg íþrótt og allir geta tekið þátt. Við erum þarna til að skemmta okkur en getum líka tekið á og keppt. Svo förum við alltaf eftir tíma á föstudögum og drekkum saman kaffi og spjöllum. Allt þetta gefur lífinu gildi,“ segir hann.
Virkni og vellíðan í Kópavogi
Benedikt fer alla virka daga í hádegismat í Gullsmára þar sem hann hittir fólk og á ánægjulega stund. Kópavogsbær sendur auk þess fyrir viðburðum á borð við kraftgöngur eins og hafði verið daginn áður en þá voru gengnir 3,4 kílómetrar. Þetta er á vegum félagsskapar sem kallast Virkni og vellíðan. ,,Ég mætti í gær og þetta var mjög skemmtileg ganga. Þar mættu hátt í 300 manns, 60 ára og upp úr, úti við Breiðablik og svo var gengið saman. Allur félagsskapur er svo miklu skemmtilegri þegar hreyfing er með í spilinul. Þess vegna skiptir svo miklu máli að halda líkamanum hreyfanlegum enda reyni ég að hreyfa hann eitthvað á hverjum degi.“
Kvenfólkið miklu duglegra
Benedikt segist hafa tekið eftir að kvenfólk sé almennt miklu duglegra að hreyfa sig. ,,Ég hef verið að ganga reglulega með eldri kennurum og í síðustu göngu voru konurnar 13 en við vorum bara tveir karlar í þeim hópi. Þær eru almennt miklu duglegri að taka þátt í mörgu en briddsspilamennska er það eina þar sem karlar eru yfirleitt í meirihluta.“
Minnið eigi það til að svíkja hann
Benedikt segir að nú, þegar hann hefur náð 87 ára aldri, finni hann að minni hans hafi svolítið gefið eftir ,,Ég get til dæmis ekki munað afmælisdaga barnabarnanna og mér þykir það leiðinlegt,“ segir hann og brosir. ,,Ég redda mér nokkuð með því að skrifa það sem ég má ekki gleyma og fer reglulega yfir það.“ Benedikt segir að hann voni að hann geti búið í húsinu sínu áfram og gerir allt sem hann geti sjálfur til að svo megi verða. Hann horfir björtum augum fram á veginn og gerir alltaf eitthvað skemmtilegt á hverjum degi.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.