Ölvaður af gleði allt sitt líf

Ásgerður Ásgeirsdóttir, eiginkona Sæma rokk.

Sæmundur Pálsson eða Sæmi er þekktur fyrir mjög margt en viðurnefnið ,,rokk“ festist við hann á unga aldri enda var rokkið hans dansstíll og eiginlega lífsstíll. Hann breytti nafni sínu í þjóðskrá fyrir þremur árum í Sæma rokk Pálsson en þá voru 70 ár frá því að hann og meðdansari hans þá, Lóa, unnu bikarinn ,,Rokkmeistarar Reykjavíkur” og kominn var tími til að aðgreina sig frá öðrum í iðnaðarmannastétt með sama nafni en Sæmi er húsasmíðameistari að mennt.  Nú er Sæmi 86 ára gamall og eignaðist fjögur börn með eiginkonu sinni Ásgerði Ásgeirsdóttur og nú eru fædd 12 barnabörn og 18 barnabarnabörn. ,,Þetta er mikið ríkidæmi,” segir Sæmi ,,en  ég sakna hennar óskaplega alla daga.“ Ásgerður lést fyrir hálfu ári.

Ólst upp í Höfðaborginni

Sæmi hefur lifað viðburðaríku lífi sem hann hefur stýrt mjög meðvitað. Hann ólst upp í Höfðaborginni með foreldrum sínum, eldri bróður og tvíburabróður og stúlku sem var mikið hjá þeim yfir daginn. Þau voru því minnst fimm saman í plássi sem í dag er oft haft fyrir eina manneskju. ,,Húsið var 26 fermetrar sem var skipt í tvö herbergi, eldhús og klósett og lítið búr. Í stofunni var borð í miðjunni og fjórir stólar. Mamma og pabbi sváfu í stofunni og þar var tekið á móti gestum,” segir Sæmi. ,,Þetta var bráðabirgðahúsnæði sem borgin lét reisa fyrir efnalítið fólk en þarna vorum við í 18 ár. Það var ekki fyrr en seinna sem í Höfðaborgina fór að safnast fólk með áfengisvanda. Plássið heima var svo lítið að það var aldrei hægt að halda upp á afmælin okkar,” bætir Sæmi við. ,,Og þegar við fórum í afmæli til skólasystkina, sem áttu heima í venjulegum húsum, þótti okkur við vera að koma inn í hallir.´´ Sæmi segir að það hafi, þrátt fyrir allt, verið gott að alast upp í Höfðaborginni því þar hafi búið gott fólk þótt vandi þeirra hafi verið fátækt. ,,Okkur leið vel þrátt fyrir plássleysi og kulda stundum. Þar var salerni en ekki heitt vatn. Við höfðum ekki eldavél, bara tvær hellur en við höfðum rafmagn. Það var alltaf tekið slátur og allur matur eldaður á þessum tveimur hellum. Þarna bjó gott fólk en ég horfði á feður vina minna breytast og verða andstyggilega vonda við konur sínar og börn þegar áfengið tók völdin. Þá ákvað ég að áfengi væri ekki fyrir mig og það varð síðar mín gæfa í lífinu.  Ég er ekki fanatískur á vín en bragða ekki sterka drykki,´´segir Sæmi og er sáttur við þá ákvörðun sem hann tók ungur.

Fátæku tvíburarnir í kústaskápnum

Sæmi segir að auðvitað hafi þeim oft verið strítt í skóla. ,,Það var auðvitað ekki skemmtilegt þegar krakkarnir kölluðu á eftir okkur: ,,Sjáiði,

Höfðaborgin þar sem Sæmi ólst upp fyrstu 18 árin.

þarna eru fátæku tvíburarnir í kústaskápnum”. Líklega var betra að vera tveir saman þá,” segir Sæmi en bætir við að sumir þessara krakka hafi orðið vinir hans seinna.

Áfengislaus lífsstíll

Sæmi sá foreldra sína aldrei undir áhrifum áfengis en faðir hans sagði honum að hann hefði stundum ,,fengið sér neðan í því” þegar hann var ungur en fundið út að áfengi væri ekki fyrir sig og Sæmi komst að sömu niðurstöðu. ,,Mér þótti og þykir enn svo óskynsamlegt að láta efni eins og áfengi eða önnur vímuefni laða fram annan og verri mann að óþörfu eins og oft gerist því dómgreindin hverfur við áfengisneyslu. Hvaða della er það eiginlega ef þess þarf ekki?” spyr Sæmi. ,,Því fylgir svo mikil óhamingja.”

Sá sama hlut gerast á öldurhúsunum 

Þegar Sæmi fór svo að sýna rokk á skemmtistöðunum sá hann hvernig áfengið varð til þess að besta fólk féll í freistni og þar með voru fjölskyldur lagðar í rúst með tilheyrandi ógæfu fyrir alla. ,,Ég, eins og aðrir, horfðist oft í augu við freistingar. Ég spurði sjálfan mig þá hvern ég væri helst að svíkja ef ég léti undan og svarið var alltaf það sama. Ég var auðvitað fyrst og fremst að svíkja sjálfan mig því hættan á að ég missti fjársjóðinn sem ég átti, sem var yndisleg kona mín  og börnin var fyrir hendi og valið var alltaf auðvelt.”

Sæmi var duglegur og átti alltaf pening

Sæmi var ungur þegar hann fann út hvernig hann gat unnið sér inn pening og hann og tvíburabróðir hans tóku til við að gera við fótbolta og hjól fyrir aðra krakka og svo báru þeir út blöð í margar götur. Það gerðu þeir á hverjum morgni áður en þeir fóru í skólann. Hann gat því lagt til þegar hann fór að stunda íþróttir og dans ef það kostaði pening og svo gátu þeir lagt sitt af mörkum þegar foreldrar þeirra fengu lóð inni í Smáíbóðahverfi og byggðu þar hús. Sæmi fór snemma að stunda íþróttir og var í ballett um tíma svo grunnurinn var fyrir hendi þegar rokktímabilið gekk í garð. ,,Mér þótti þetta óskaplega gaman og var mjög heppinn með mótdansara. Fyrst var það Lóa, Elínborg Snorradóttir og svo Didda, Jónína Karlsdóttir og altalað var að við værum par sitt áhvað en það var mikill misskilnugur. Meðdamsarar Sæma voru síðar Brynja Nordquist og Halldóra Filippusdóttir en þær hlupu í skarðið þegar Didda forfallaðist, t.d. vegna barneigna. ,,Eftirspurnin eftir rokksýningum varð fljótlega mjög mikil að ég lenti stundum í að tvíbóka okkur eins og í eitt skiptið þegar ég bókaði okkur á sýningu á Ísafirði og Eskifirði sama dag. En það var í lagi því tvíburabróðir minn, Magnús, sem var mjög líkur mér, og líka góður dansari gat farið í minn stað og enginn áttaði sig á því að ég var ekki á staðnum,´´segir Sæmi og hlær hátt.

Hún gerði mig að betri manni. 

Sæmi og Ásgerður á góðum degi.

Sæmi og eiginkona hans, Ásgerður Ásgeirsdóttir, hittust þegar hann var 21 árs og hún 15 ára. ,,Ég sagði henni að hér yrðu engar alvarlegar ástarsenur þar sem hún væri aðeins 15 ára. En mér þætti hún rosalega sæt og væri alveg til í að kela,´´ segir Sæmi kankvís.

Þau hittust þegar hann var á Akureyri með Gulla Bergmann vini sínum en Ásgerður átti heima á Akureyri. Allir fóru í KEA að skemmta sér og þar vakti Ásgerður athygli Sæma. ,,Ég bauð henni upp í dans en áttaði mig þá á að hún var bara táningur, hún var nefnilega töluvert hærri en hinar stelpurnar. Ég hélt henni því í svolítilli fjarlægð í dansinum og þegar hún kom að borðinu til vinkvenna sinna sagði hún: Hvaða strákur er þetta eiginlega? ,,Veistu það ekki, þetta er hann Sæmi rokk“ sögðu þær þá.

,,En þegar hún varð 16 ára og ég orðinn 22 bað ég um hönd hennar,´´ segir Sæmi og brosir við minningunni. ,,Ég fékk hönd hennar með því skilyrði að ég skilaði henni ekki aftur og eftir 67 ár saman er mesta furða að hún skyldi ekki hafa skilað mér,´´ segir hann og hlær. ,,Ásgerður gerði mig sannarlega að betri manni og ég sakna hennar óskaplega. Ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um þegar ég stóð frammi fyrir freistingum í gegnum tíðina.´´

Systir Ásgerðar lést frá sjö börnum og nokkur þeirra komu inn á heimili hennar og Sæma. ,,Það gekk allt vel en var auðvitað ekki auðvelt,” segir Sæmi. ,,Ásgerður stóð sig eins og hetja því auðvitað var ég mikið fjarverandi vegna vinnu. Hún á sko allan heiðurinn.”

Náði árangri hvar sem hann bar niður

Þegar saga Sæma er skoðuð sést að það var eiginlega sama hvar hann bar niður að hann náði árangri. Lund hans og afstaða til lífsins hefur

Sæmi sveiflar Diddu í rokkinu.

án efa átt sinn þátt í því. Hann var valinn í landslið í íþróttum

sem hann æfði, lærði nudd þegar hann var í júdó og starfaði sem nuddari í aukavinnu á hótel Loftleiðum þar sem hann nuddaði bæði handbolta- og fótboltalandsliðana. Hann var líka fenginn til að nudda liðsmenn Manchester United þegar liðið dvaldi á hótelinu. Hann nuddaði t.d. George Best, Bob Robson og Roy Wilkinson en vildi ekki fara út til Englands í heilt tímabil þegar honum bauðst það til að nudda þar liðsmenn ManU og skilja Ásgerði eftir á Íslandi eða taka hana með og rífa börnin úr sínu umhverfi.

Skákin fyrirferðamikil í lífi Sæma

Sæmi hóf snemma að tefla og náði nokkrum árangri á þeim vettvangi. Hann var þegar ágætur taflmaður þegar heimsmeistaramót Fishers og Sparki var haldið hér 1972. Hann kynntist Fisher vel og sá mikið um hann. Sæmi segir að með þeim hafi tekist mikil vinátta og sagan um að hann hefði þegið peninga fyrir hafi verið alröng. ,,Fisher hafði þörf fyrir vin og ég var þarna fyrir hann. Bobby hringdi til dæmis í mig úr fangelsinu í Japan þegar Bandaríkjamenn létu klippa á vegabréfið hans og hann var sjálfur hræddur um að þeir myndu drepa sig. Hann sagði að ég hefði verið sá eini sem hlustaði á sig og hjálðaði sér. Enginn þorði að skerast í leikinn. Svo ég fór þangað til að hjálpa honum og hann sagði að ég hefði verið bjargvættur sinn. Þess vegna tók ég mjög nærri mér þegar útförin fór fram hér að valinn var tími þegar ég var ekki á landinu. Ég var á leiðinni til Spánar en frestaði för minni vegna útfararinnar og hafði átt að tala við útförina. Tekin var ákvörðun um að fresta útförinni og ástæðan sögð koma skákmanns sem vildi koma til landsins og heiðra Fisher. Það þýddi að ég gat ekki breytt för minni og tapaði af því að heiðra þennan vin minn sem var mjög sorglegt en vinátta mín og Fishers var sterk alla tíð.

Tók þátt í fegurðarsamkeppni

Sæmi var fenginn til að taka þátt í fyrstu og einu fegurðarsamkeppni karla sem haldin hefur verið á Íslandi og Magnúsi bróðir hans líka. ,,Magnús var tregur til en ég sagði honum að ef hann yrði ekki með myndi ég bara segja öllum að það væri hann sem væri að taka þátt en ekki ég. Hann lét þá undan en ég sá eftir að hafa pínt hann í þetta því hann var aldrei fyrir sviðsljósið eins og ég.

Sæmi segir brosandi að þeim hafi verið borguð vikulaun fyrir að taka þátt og þótti það góður peningur fyrir litla vinnu ,,Þá var ég búinn að vera í ballett og alls kona dansi og hafði því nokkuð forskot á samkeppendur þegar við gengum fram á pallinn og þótti þetta skemmtilegt.  Sigurvegari var Helgi Atlas sem var vel að sigrinum kominn, við hinir vorum bara fengnir til að vera með sem eins konar uppfylling í keppninni,” segir Sæmi.

Hús á Spáni

Sæmi var í lögreglunni í 37 ár en starfaði líka sem húsasmiður á milli vakta.

Sæmi hefur átt hús á Spáni í 30 ár og þar nutu hann og Ásgerður ríkulega að vera. Sæmi segir að ein helsta ástæðan fyrir húsakaupunum á Spáni hafi verið sú að þar gat hann verið með fjölskyldunni en ekki í mörgum störfum eins og heima.

,,Það sem ég sé helst eftir í lífinu er að hafa unnið of mikið,” segir Sæmi. ,,Ég sé eftir að hafa ekki verið nógu mikið heima með krökkunum mínum þegar þau voru að alast upp. En ég gat veitt þeim gott líf af því við vorum ekki peningalítil og Ása gaf þeim tíma sinn á móti. Það var góð samvinna og eftir að við gátum verið saman í rólegheitunum á Spáni var lífið gott.”

Sæmi og Ásgerður gátu verið á Spáni þrátt fyrir veikindi hennar því Sæmi var alltaf með aðstoðarstúlku með þeim en Ágerður greindist með alzheimer 16 árum áður en hún lést fyrir hálfu ári. Aðstoðarkonan hugsaði um Ásgerði á meðan Sæmi gerði annað. ,,Ásgerður naut þess ríkulega að vera í hitanum á Spáni og ég sá alltaf um að hún og aðstoðarkona hennar hefðu bíl og gátu farið hvert sem var án mín.”

Heldur sér vel

Á Sæma sannast að hreyfingin gerir gæfumuninn þegar aldurinn færist yfir. Hann hefur alla tíð stundað íþróttir en líka heilaleikfimi með

Sæmi með menið sem hann gaf Ásgerði á fimmtugsafmæli hennar og giftingarhring hennar með. Þetta ber hann með sér alla daga

því að tefla og spila bridds. Hann er með ólíkindum minnugur þrátt fyrir háan aldur og lék sér að því að fara í splitt þegar hann var áttræður. ,,Þeir héldu að hringja yrði á sjúkrabíl en það var nú öðru nær,” segir Sæmi og hlær dátt.

Út í lífið með reynslu efnalítilla

Sæmi vissi alltaf að hann ætlaði ekki að bjóða sínum nánustu upp á lítil efni og vissi líka að til þess yrði hann að vinna mikið. Og það taldi hann aldrei eftir sér. Og af því að hann lifði áfengislausum lífsstíl, ólíkt því sem margir halda, gat hann unnið um helgar á meðan aðrir sváfu úr sér áfengisvímuna. Sæmi er léttlyndur að eðlisfari og á meðan aðrir þurftu vímugjafa til að losa sig undan þrældómsoki eða öðru oki, var Sæmi alltaf glaður með sitt og þurfti engin efni til að ná í sælu. Gæfa hans í lífinu segir hann að hafi án efa verið áfengislausi lífsstíllinn sem gerði honum kleift að halda í Ásgerði konu sína því hún sá um heimilið og börnin á meðan hann var úti að vinna. Svo fann hann snemma út að hann yrði hamingjusamari ef hann gætti þess að gera náunganum greiða ef hann gæti. ,,Þá fara gleðihormón í gang og mér líður vel,” segir Sæmi og er ánægður með lífshlaup sitt.

Sæmi rokk tekur sporið í lögreglubúningnum.

,,Ásgerður gerði mig að betri manni og ég sakna hennar óskaplega,´´ segir Sæmi en hann er með mynd af henni á náttborðinu. ,,Svo enda ég daginn alltaf á að bjóða henni góða nótt,´´segir hann og í röddinni er hlýja. ,,Við vorum saman í 67 ár og hún auðgaði líf mitt á svo margan hátt. Svo var ég svo heppinn að geta alltaf verið að vinna við það sem mér þótti skemmtilegast, fyrst var það dansinn og í 37 ár starfaði ég við lögreglustörf sem gáfu mér mikið,” segir Sæmi rokk sem er sáttur við viðburðaríkt lífshlaup sitt og segja má að hann hafi ölvaði sig með ánægjunni einni saman allt sitt líf.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn september 9, 2022 08:20