Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar
Um daginn rakst ég á athyglisverða grein frá 2012 um meintan tilgang ömmunnar, en þar halda mannfræðingar því fram að tilvist ömmunnar hafi haft úrslitaáhrif á þróun mannsins. Þessar kenningar eru m.a. byggðar á niðurstöðum úr reiknilíkani sem keyrt var í tölvu.
Lengi hafa mannfræðingar og lífeðlisfræðingar reynt að útskýra tilgang kvenna eftir tíðahvörf, tímabil í lífi mannsins sem á sér t.d. ekki hliðstæðu í lífi frænda okkar prímata. Af hverju ættu konur að geta lifað í fjölda ára, jafnvel áratugi eftir að þær eru komnar úr barneign? Svarið, sem birtist í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B er: Hún verður amma. Tilvist ömmunnar var upphaf þess að gera okkur að því sem við erum, segir aðalhöfundur greinarinnar, Kristen Hawkes, sem er mannafræðingur við háskólann í Utah (University of Utah). Árið 1999 setti hún fram kenninguna um ömmuna, kenningu sem skírir tíðahvörf kvenna með vísun í vanmetin áhrif mikilvægis ömmunnar, en hún segir að tilvist ömmunnar hafi hjálpað manninum að þróa fjölbreytta félagslega getu sem síðan hafi orðið grunnur að þróun annarra mannlegra eiginleika s.s. stærri heila, hæfileikanum til að læra nýja hluti og að vinna saman.
Rannsóknin frá 2012, sem Hawkes vann með fleiri vísindamönnum og frá fleiri háskólum, nýtir reiknilíkan til að styðja ömmukenninguna. Til að sannprófa kenninguna skoðuðu rannsakendur hvað mundi gerast hjá ímyndaðri prímapategund ef framkölluð yrðu tíðahvörf og ömmur kæmu til sögunnar sem hluti af hinu félagslega kerfi. Í veruleikanum er það þannig að kvensimpansinn lifir í 35 til 45 ár og er í ,,barneign“ allan þann tíma. Í reiknilíkaninu var þessi staðreynd notuð en 1% kvenapanna fékk þá mannlegu eiginleika að lifa lengur og fara úr ,,barneign“ eins og konur. Yfir langt tímabil þróaðist þessi ímyndaði hópur þannig að æ fleiri kvenkynsapar lifðu árum saman eftir tíðahvörf. Að lokum voru 43% af hópnum orðnar ömmur.
En hvernig hjálpa ömmurnar okkur að lifa lengur? Samkvæmt kenningunni geta ömmurnar hjálpað við að afla fæðu og annast börn þar til þau geta bjargað sér sjálf. Það styður móðurina við að eignast fleiri afkvæmi og koma þeim á legg, því ólíkt öpunum tekur það mannabörnin mjög langan tíma að verða sjálfbjarga. Í hinum tilbúna heimi reiknilíkansins juku fyrstu apaömmurnar strax lífslíkur afkomenda sinna sem síðan hafði þær afleiðingar að eiginleikar sem studdu langlífi höfðu þau áhrif að lífaldur tegundarinnar jókst.
En af hverju eru konur bara í barneign í um 40 ár þrátt fyrir miklu lengra líf? Hawkes og meðrannsakendur hennar benda á að án tíðahvarfanna mundi konan halda áfram að eignast börn, hún yrði móðir út ævina í stað þess að gerast amma. Öll börn yrðu þá algerlega háð tilveru móður sinnar til að lifa af þannig að þegar eldri móðir deyr mundu yngri börnin jafnframt deyja. Af sjónarhóli þróunarinnar væri meira vit í að auka lífslíkur hvers og eins en að nýta orkuna í ,,fjöldaframleiðslu“. Hawkes gengur lengra og bendir á að félagstengslin sem tengjast ömmunum hafi líklega stuðlað að stærri heila mannsins og öðru sem skilur manninn frá öðrum skyldum dýrum. ,,Ef þú ert afkvæmi simpansa, gorillu eða órangúta situr þú eitt að móður þinn þann stutta tíma sem þú þarft á henni að halda. En ef þú er afkvæmi konu þarf móðir þín, vegna þess hve lengi barnið er háð hinum fullorðnu um vöxt og viðgang, að hugsa um fleiri afkvæmi í senn sem þýðir ákveðna samkeppni um athygli og ummönnun“. Og hún telur að tilvist ömmunnar hafi gert okkur mennina háðari hverjum öðrum félagslega og líklegri til að veita hvort öðru athygli. Þetta hafi aukið á vöxt heilans, aukið lífslíkur og valdið tíðahvörfunum hjá konum.
Kenningin um ömmurnar er engan veginn 100% sönnuð, en hinar nýju niðurstöður úr reiknilíkaninu styðja hana. Hún er hinsvegar áhugaverð og skemmtileg og setur okkur ömmurnar á nýjan stað.
Svanfríður Jónasdóttir, amma.