„Ég var búin að fá nóg af Reykjavík. Ég flutti til borgarinnar 1954, þá var þetta sveitabær. Svo stækkaði borgin og síðustu árin sem ég bjó fyrir sunnan var borgin farin að pirra mig. Mikil umferð og tímafrekt að fara á milli staða,“ segir Gróa Ormsdóttir, fyrrverandi prófarkalesari á DV.
Ekki leiðst einn einasta dag
Gróa fór á eftirlaun 67 ára og þá tók lífið breytingum. Hún og eiginmaður hennar Páll Steinar Bjarnason ákváðu að flytja til Hafnar í Hornafirði árið 2003. „Síðan hefur mér ekki leiðst einn einasta dag,“ segir hún. Þau hjónin er bæði ættuð af landsbyggðinni. Gróa var í sveit á Snæfellsnesi fyrstu tíu ár ævinnar en flutti þá í Borgarnes þar sem hún átti heima til sautján ára aldurs. Þá flutti hún til Reykjavíkur. Páll ólst upp á Snæfellsnesi en flutti á fimmtán ára gamall á Akranes. Páll og Gróa giftu sig 1954 og fluttu í höfuðstaðinn.
Vildi ala börnin upp í Reykjavík
Saman eigunuðst Gróa og Páll fimm börn. „Ég vildi ala börnin mín upp í Reykjavík. Ég vildi gefa þeim það. En það blundaði alltaf í mér að flytja út á land,“ segir hún. Gróa og fjölskylda bjuggu í raðhúsi í Tungubakkanum í Breiðholti en fluttu síðar í Eyjabakkann. „Það var komið að kostnaðarsömum viðgerðum á blokkinni og við vorum að velta fyrir okkur að skipta um íbúð. Þá kom þessi hugmynd að kaupa úti á landi enda íbúðaverð þar miklu lægra en í Reykjavík. Höfn í Hornafirði varð fyrir valinu.“
Og með þeim tókust ástir
Gróa segir að hún hafi haft nokkur tengsl við Höfn áður en hún flutti. Elsta dóttir hennar og eiginmaður hennar bjuggu þar í 16 ár og Gróa heimsótti þau oft og kynntist í leiðinni fólki fyrir austan. Svo fór yngsta dóttir Gróu austur á Höfn að gæta barna eldri systur sinnar. Það var eins og við manninn mælt hún hitti strák úr sveitinni og með þeim tókust ástir og þau fóru að búa á Höfn. „Þá kynntist ég tengdafólki dóttur minnar og við það fjölgaði í kunningjahópnum. Um leið og við vorum flutt austur var ég drifin í Félag eldri Hornfirðinga og þá kynntist maður enn fleira fólki,“ segir Gróa.
Hér kemst fólk í skjól
Hún er ekkert á leiðinni frá Höfn. Páll lést í október eftir langvarandi erfið veikindi og hún er því orðin ein. Hún býr nú í íbúð í sama húsi og yngsta dóttir hennar. „Ég hef ekkert undan ellinni að kvarta. Ég er að verða áttræð og man vel hvernig gamalt fólk hafði það þegar ég var að alast upp. Það er mikill munur hvað mín kynslóð hefur það miklu betra,“ segir hún. Gróa segir að það sé gott að eldast á Höfn, þar sé gott hjúkrunarheimili og bærinn hafi staðið fyrir byggingu íbúða fyrir aldraða, bæði leigu- og eignaríbúða. „Eldra fólk kemst í skjól hér þegar það vill minnka við sig eða skipta um húsnæði.“
Yndislegt úti á landi
Gróa segir að eldri borgara starf sé í miklum blóma á Höfn. Hún var formaður Félags eldri borgara fyrir nokkrum árum en er nú óbreyttur stjórnarliði eins og hún orðar það. „Það er samningur á milli félagsins og bæjarins um að félagið sjái um allt tómstundastarf fyrir eldri borgara. Við fáum nokkuð góðan styrk til að standa straum af kostnaðinum,“ segir Gróa. Hún segir að félagið eigi húsnæði á móti bænum og þar fari félagsstarfsemin fram og þar geti fólk fengið hádegismat. „Það er eitthvað við að vera á hverjum degi hjá okkur, boccia, tafl, spilamennska, leikfimi, sund, handmenntir og margt fleira. „Svo má ekki gleyma að minnast á kór félags eldri borgara.“ Það er hægt að hafa nóg að gera hér alla daga,“ segir hún og og bætir við þegar blaðamaður kveður hana: „Það er alltaf yndislegt úti á landi.“