Egill Rúnar Friðleifsson, fv. kórstjórnandi og kennari, segir að tíminn sem fer í hönd eftir að starfsævinni lýkur sé mjög góður ef rétt er haldið á spilunum. Hann hefur alla tíð lagt mikið upp úr hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl og segist þakka það m.a. því að ekki var bíll á heimilinu þegar hann var að alast upp. Þegar Egill fór á eftirlaun ákvað hann að láta gamlan draum rætast og gekk Jakobsveginn tvisvar. Egill hefur synt daglega og gengið og segist aldrei hafa verið hraustari en eftir miðjan aldur. Góð heilsa er að hans dómi undirstaða alls og þar skiptir hreyfing og næring miklu máli. Þá er félagslega hliðin ekki síður mikilvæg að hans mati en hann hefur sótt sinfóníutónleika í áratugi og hefur m.a. verið með konserta heima í áraraðir.
Hefur hreyfing ávallt skipt þig miklu máli? „Ég er svo heppinn að hafa alla tíð haft mikla hreyfiþörf og þegar ég lít til baka þá tel ég að það hafi verið okkur til góðs að það var aldrei bíll á heimilinu. Við þurftum annaðhvort að ganga eða hlaupa og svo var strætó ef á þurfti að halda fyrir lengri leiðir. Fyrir þetta er ég þakklátur í dag því maður vandist á að ganga og ég hef alltaf kunnað að meta útivist og göngur. Þar að auki var heilmikið farið í útilegur á mínu æskuheimili, pabbi var gamall skáti og það fylgdi okkur að fara í útilegur og tveir bræðra minna eru jarðfræðingar og miklar fjallageitur og við höfum alla tíð gengið mikið og hreyft okkur.“
Hvað finnst þér þetta hafa gert fyrir þig á efri árum? „Þá skiptir mjög miklu máli að huga að heilsunni. Heilsan og heilbrigður lífsstíll er eiginlega grunnurinn að góðu lífi. Í heilbrigðum lífsstíl eru það fjögur atriði sem skipta miklu máli: Hreyfing, næring, hvíld og síðast en ekki síst, félagsleg samskipti.
Varðandi hreyfinguna þá á hún ekki að vera átak heldur lífsstíll. Maður á að hreyfa sig á hverjum degi þegar aldurinn færist yfir og þó að þú nennir því ekki stundum, þá áttu að drífa þig og hreyfa þig. Þér líður alltaf betur á eftir. Þegar þú eldist skiptir mjög miklu máli að borða prótínríka fæðu. Eitt af því sem fylgir hækkandi aldri og ellinni er vöðvarýrnun og þú getur hamlað og verið í andófi gegn Elli kerlingu með því að hreyfa þig og borða prótínríka fæðu. Að hreyfa sig gerir svo mikið fyrir þig, hvort sem það er ganga, sund, golf eða annað sem þú hefur ánægju af. Heilbrigð þreyta hefur svo jákvæð áhrif. Þú hvílist betur, borðar betur, sefur betur og líður betur á alla vegu, þannig að það eru bara plúsar við það að hreyfa sig. Ef þú getur hreyft þig, skaltu gera það. Þetta hefur gert mikið fyrir mig og gerir enn.“
Gekk Jakobsveginn eftir að starfsævinni lauk
Egill gekk Jakobsveginn eftir að hann hætti störfum, við þau tímamót fékk hann loks tímann sem hann þurfti til þess. Hann segir gönguna hafa gert mikið fyrir sig, bæði líkamlega og andlega. „Ég átti þann draum að ganga Jakobsveginn en meðan ég var í starfi átt ég þess ekki kost vegna þess að ég kenndi allan starfsferilinn og það er ekki gott að ganga Jakobsveginn að sumri til því það er allt of heitt. Þannig að ég tók mig til þegar ævistarfið var að baki og ævikvöldið var fram undan. Hvernig átti ég að höndla það? Ég gekk þessa dásamlegu leið, sem var var puð og erfiði en ferðin er sú alskemmtilegasta og eftirminnilegasta sem ég hef farið og ég fór ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Fyrst árið 2012 og svo aftur tveimur árum seinna, 2014. Í fyrri ferðinni gekk ég frá austri til vesturs, frá Frakklandi, Pýreneafjöllunum til austurs og svo í seinna skiptið frá suðri til norðurs, þ.e. frá Portúgal.“
Hvor leiðin er fallegri, er einhver munur þar á? „Já, það er mikill munur. Ég gef leiðinni frá Frakklandi, sem er venjulega farin, miklu hærri einkunn. Hin leiðin er mjög skemmtileg en hjá Portúgal og ströndinni er miklu meiri gróður og mun þéttbýlla og því meiri hávaði og gauragangur á leiðinni. Á hinni leiðinni, t.d. í fjalllendinu, geturðu gengið dögum saman í kyrrð og ró. Þú verður ekki fyrir áreitinu af umferð og gauragangi. Það skiptir mjög miklu máli þegar farið er í göngu sem þessa.“
Andlega hlýtur þessi ganga líka að hafa gert mikið fyrir þig? „Já, andlega var þetta einstaklega gott á þessum miklu tímamótum,“ segir Egill og leggur áherslu á orð sín, „því að mér fannst óskaplega mikil breyting verða á mínu lífi. Ég hafði alla tíð unnið mikið, yfir 30 ár kenndi ég aldrei minna en eina og hálfa stöðu og við vorum með stórt heimili, sex börn þegar mest lét, og mikið umstang. Þannig að þetta voru mikil umskipti. Ég settist niður og hugsaði; hvernig höndla ég þessi miklu stakkaskipti? Ég held að ég hafi komist að nokkuð góðri niðurstöðu og hef haldið mig við hana.“
Fer í kalda pottinn hvernig sem viðrar
Í áratugi hefur Egill vaknað snemma til að fara í sund og kalda pottinn sem hann segir að geri heilmikið fyrir sig. Það hafi stundum reynt á að drífa sig í kulda, myrkri og snjó en hann segir það skipta máli að sigra þá freistni að sleppa hreyfingu á slíkum dögum. „Já, ég hef farið í sund áratugum saman og lagt venjulega af stað upp úr kl. 6 á morgnana. Ég fer í kalda pottinn hvernig sem viðrar. Eitt sinn þegar ég fór í laugina var Gísli Jónsson vinur minn, sem var prófessor í rafmagnsverkfræði þar, og ég kvartaði yfir því við hann að ég hefði þvílíkt þurft að leggja á mig við að drífa mig af stað. Það var kalt, myrkur, frost og leiðindi og ég ætlaði varla að drífa mig en gerði það nú samt. Þá sagið hann: „Sjáðu nú til, Egill minn, þú ferð í sund á morgnana og þá daga sem þú nennir ekki, þá ferðu. Þú ferð bara í sund, punktur. Og þeir dagar sem þú nennir ekki en ferð samt eru bestu dagarnir. Þá yfirstígurðu þína eigin leti og ómennsku.“„Maður verður svo ánægður með sig að drífa sig, það styrkir sjálfstraustið og það er gott fyrir sálina. Oft er erfiðast að vinna manns eigin hug. Sumir forðast kalda pottinn og geta ekki hugsað sér að fara í hann en þeir sem geta og eru ekki með t.d. hjartasjúkdóma ættu að gera það og hefðu gott af, það styrkir ónæmiskerfið. Íþróttamenn, t.d. langhlauparar, fara í kalda pottinn eftir hlaup vegna þess að þeir ná vöðvunum hraðar góðum.“
Ólíkt að sjá landið á göngu eða í bíl
Hvað með göngur um landið, hefurðu farið í slíkar? „Já, sonur minn, Björn Rúnar, tók sig til á sínum tíma og ákvað að ganga þvert yfir landið, frá Reykjanestá og út á Langanes í nokkrum áföngum og ég gekk hluta leiðarinnar með honum. Það var bæði gaman og gjöfult að ganga með honum og kynnast landinu á þennan hátt því það er allt annað að ganga það en horfa á það keyrandi í bíl. Mér fannst þetta frábært markmið hjá tvítugum manni en hann hafði þetta af eins og svo margt sem hann hefur gert í lífinu.“
Egill segist ganga mikið og helgarnar eru engin undantekning. Það eina sem hann hiksti á sé ef það er mikil hálka en þá fer hann í Kaplakrika í Hafnarfirði þar sem Egill og kona hans, Sigríður Björnsdóttir, eru búsett, og gengur inni.
Einmanaleiki vandi sem verður að sporna gegn
Egill er einnig mjög virkur félagslega. Hann segir of marga vera eina á efri árum og að einmanaleiki sé vaxandi vandamál hjá fullorðnu fólki. „Þess vegna er félagslegi þátturinn svo mikilvægur. Því maður er manns gaman, að reyna vera virkur, sáttur í eigni skinni og sáttur við hlutskipti sitt og sínar eigin gjörðir. Það er líka mjög mikilvægt að eiga góð samskipti við sína nánustu, vini sína og þá sem maður starfar með í félagsskap.“ Egill er einnig í Frímúrarareglunni og telur það gæfuspor að hafa gengið í regluna. Á næsta ári eru 60 ár frá því hann gekk í hana og félagsskapurinn hefur gefið Agli mjög mikið og þar hefur hann eignast góða vini.
Þá hefur Egill til margra ára verið með heimakonserta. Þar hefur margt þekkt tónlistarfólk komið og spilað og fram undan eru húskonsertar.
Egill fer reglulega á tónleika og hefur sótt sinfóníutónleika frá 1958 en áður voru sinfóníutónleikar haldnir í Þjóðleikhúsinu. „Frá 1961 voru þeir í Háskólabíói sem þá var nýreist og voru þar nákvæmlega í hálfa öld því árið 2011 flutti Sinfóníuhljómsveitin í Hörpu. Og þar hef ég verið með fasta miða. Við konan mín fórum síðast á Víking Heiðar og mér finnst stórkostlegt að íslenskur píanisti geti fyllt Hörpu þrisvar í röð. Víkingur hefur sjaldgæfa snilligáfu og er þar fyrir utan vinnuhestur, hann er ekki bara teknískur, hann er skapandi í sinni list.
Tónlistin var ævistarf Egils og hann segist vel muna fyrstu tónleikana sem hann fór á. „Það varð árið 1947 í Bæjarbíói í Hafnarfirði en móðurafi minn bauð mér á tónleika með Adolf Busch og Rudolf Serkin, hvorki meira né minna, heimsfræga snillinga. Ég var ekki nema sjö ára og ég man þessa tónleika enn.“ Og Egill viðurkennir að þarna hafi kviknað á einhverjum áhuga fyrir tónlistinni.
En það er fleira sem Egill og hans kona gera. Þau sækja ávallt samverustundir fyrir eldri borgara í Hafnarfjarðarkirkju sem hann segir gefa þeim mikið, enda bæði trúuð og þau eru virk í Félagi eldri borgara og eru þar í bókmenntaklúbbi. „Við fáum ýmsa fyrirlesara og rithöfunda og alls konar spekinga, við vorum sjálf í forsvari fyrir þennan klúbb í nokkur ár. Og þetta er gerir manni gott,“ segir Egill sem er mjög meðvitaður um alla þá þætti sem spila saman til að efri árin verði gjöful; að halda góðri heilsu, viðhafa heilbrigðan lífsstíl og vera félagslega virkur. „Tíminn sem fer í hönd eftir að starfsævinni lýkur er mjög góður ef rétt er haldið á spilunum. Ég hef glaðst á hverjum einasta degi eftir að ég fór á eftirlaun. Lífið er gott og gefandi ef maður hefur þetta í huga.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.