Ragnheiður Lárusdóttir er áhugavert skáld. Hún steig fram á ritvöllinn með talsverðum lúðrablæstri því hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og tilnefningu til Maísstjörnunnar fyrir sína fyrstu bók, 1900 og eitthvað. Nú sendir hún frá sér nýja bók, Veður í æðum og býður lesandanum þann góða kaupauka að fá fyrri bækurnar sínar með í kaupunum.
Veður í æðum er sterk og óendanlega falleg ljóðabók. Hér er ort um þann sársauka að horfa á eftir barni sínu inn í heim fíknar og meðan eitrið veður um æðar barnsins geisar óveður í hugum og hjörtum aðstandenda. Ragnheiður lýsir þessu af ótrúlegri næmni og dregur upp sterkar og áhrifamiklar myndir. En þrátt fyrir að þarna sé sársaukinn, óttinn og valdaleysið gagnvart heimtufrekum sjúkdómi skerandi rofar ævinlega til. Ský dregur frá sólu. Móðir má og á að njóta lífsins þrátt fyrir veikindi barns síns og fegurðin í hinu smáa, í hversdeginum og öðrum gjöfum lífsins huggar og styrkir.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún yrkir um eigin reynslu. Fyrsta bók hennar fjallaði um bernskuminningar að vestan og öldina sem leið. Sú næsta Glerflísakliður fléttaði saman reynslu Ragnheiðar af því að horfa upp á veikindi móður sinnar og ganga í gegnum erfiðan skilnað á sama tíma. Í öllum hennar bókum er reynsluheimur kvenna og staða þeirra innan feðraveldisins augljós en í Kona/Spendýr er hún í forgrunni. Samfélag okkar er hannað af körlum og þeir bæði raða í hlutverk og leikstýra.
Ragnheiður hefur ótrúlega gott vald á íslensku máli og ljóð hennar eru jafnan skýr og vel mótuð. Hún er fundvís á áhrifamiklar líkingar og einlægni hennar og hreinskiptni hreyfir við lesandanum. Veður í æðum er hrífandi og eftirminnileg ljóðabók og sérlega ánægjulegt að geta nú eignast allar ljóðabækur Ragnheiðar Lárusdóttur í einu bindi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.