Þriðja æviskeiðið er það kallað þegar fólk fer að nálgast eftirlaunaaldurinn, hættir svo að vinna og fær þá tækifæri til að njóta ávaxta ævistarfsins. Hins vegar er ekki alveg víst að þá taki við það blómaskeið sem margir vænta og þannig er það einmitt hjá hjónunum Nönnu og Villa í Óskalandi, sérhannaðri íbúð fyrir eldri borgara. Þau Sigrún Edda Björnsdóttir og Eggert Þorleifsson leika þessi hjón á sviðinu í Borgarleikhúsinu og þeim er bara nokkuð vel við þessar persónur sem þau hafa tekið að sér að túlka.
Fyrst af öllu, hvernig leist ykkur á þetta handrit þegar þið fenguð það í hendurnar?
„Þegar ég las það í fyrsta sinn fannst mér saga þeirra hjóna svolítið sorgleg,“ segir Sigrún Edda. „Það er verið að fara inn á vangaveltur um hvernig lífið þróast og allar mikilvægu ákvarðanirnar sem við tökum á lífsleiðinni eins og til dæmis að velja okkur maka og hvaða áhrif það hefur á lífshamingju okkar. Velta fyrir sér skuldbindingunum sem við tökum á okkur í hjónabandi, geta þær staðist eða ástin? Erum við með hjónabandinu að skuldbinda okkur til að taka afleiðingunum af allri vitleysunni sem maki okkar kann að taka upp á? Í hvaða farveg fer ástin í fimmtíu ára hjónabandi? Það er sem sé verið að velta upp hlutum sem eru mikilvægir og mér þótti svolítið sorglegt hvernig þetta hafði farið hjá þeim Villa og Nönnu. En besta leiðin til að takast á við hluti sem eru svolítið sorglegir er að hafa húmorinn að leiðarljósi og það gerir höfundurinn, Bess Wohl. Henni tekst að skrifa þessa fjölskyldusögu á þann hátt að fólk veltist um af hlátri. Ég held að það sé líka leiðin til að takast á við ellina, hafa húmor fyrir sjálfum sér, annars er hætt við að maður verði bitur og dapur. “
„Mér fannst þetta hvorki sorglegt né fyndið þegar ég las þetta fyrst,“ segir Eggert. „Mér fannst þetta fyrst og fremst hversdagslegt. Það er ekkert þarna annað en það sem allir vita og allir ganga í gegnum. Þetta er bara hluti af lífinu. En það gladdi mig svolítið að fólki fannst verkið skemmtilegra en ég hélt að því myndi finnast það. Fólki finnst held ég gaman að heyra um þessi mál sem allir þekkja, sjá hinn venjulega mann settan upp á svið og tala um hluti sem eru hversdagslegir hvort sem þeir eru sorglegir eða hlægilegir.“
Kynlíf og kynhvöt til staðar eftir fertugt
„Það sem gerir verkið fremur óvenjulegt er að þar er fjallað um þetta síðasta aldurskeið,“ bætir Sigrún Edda við. „Vegna þess að það er ekki oft sem það gerist í leikhúsi. Til dæmis eru ávarpuð málefni eins kynhvötin og kynlíf eldra fólks.“
„Byrjar hún,“ skýtur Eggert inn í, „hún talar ekki um annað kynlíf.“
„Já, það er áhugavert,“ heldur hún áfram.
„Já, það er skemmtilegt,“ segir hann og kímir.
„Samfélagið vill setja eldra fólk í einhver box og þar eru allir eins,“ segir Sigrún Edda. „Þar eru allir bara að prjóna sokka og hugsa um barnabörn. Það er erfitt fyrir syni þeirra í þessu verki að taka það inn að foreldrar þeirra eru einstaklingar sem eru breyskir og eiga sér fortíð og leynilíf sem þeir vissu ekkert um. Fæstir vilja vita allan sannleikann um foreldra sína. Það er voðalega gott að vita ekki allt.“
„Já, einmitt það vita þetta allir en það hugsar bara enginn um það,“ bætir Eggert við.
„Tökum til dæmis að Villi, virðulegur eldri maður, er staðinn að því að senda dónaskilaboð úr símanum sínum til viðhaldsins í elliblokk úti í bæ,“ segir Sigrún Edda. „Þetta er eitthvað sem fólk á ekki von á að maður á virðulegum aldri geri. Það er gaman að sjá hann tekinn út úr viðteknum boxum.“
„Við höfum alist upp við það gegnum fjölmiðla og allt hvað það heitir að þegar fólk er orðið foreldrar hættir það að vera kynverur. Það eru engir kynverur nema sólbrúnt, vöðvastælt fólk sem vegur í kringum 70 kg. Sérstaklega þegar fólk er komið í foreldrahlutverkið þá á það ekki að vera kynverur lengur og það svolítið gaman hvernig börnin fara á límingunum yfir að uppgötva að foreldrar þeirra eiga sér slíkt prívatlíf,“ segir Eggert.
„Þá kemur líka upp þessi spurning getum við haldið tryggð í fimmtíu ár. Þegar fólk gengur í hjónaband gefur það ýmis heit um tryggð , bæði í kynlífi og að styðja hvort annað í blíðu og stríðu. Er mögulegt að standa við það alla ævi , “ bætir Sigrún Edda við.
Margir á sjálfstýringu gegnum lífið
Í byrjun verksins eru Nanna og Villi drapplituð og grá. Þau hafa misst allan lit og ljóma og auðséð að líf þeirra býður ekki upp neitt óvænt og skemmtilegt. Ævintýraþráin virðist farin úr þeim. Haldið þið að það sé auðvelt að renna inn í slíkt far? Leyfa bara lífinu að renna áfram án þess að gera mikið til að skapa sér tilveru býður upp á meira en öryggi, hagkvæmni og þægindi.
„Já, ég held það,“ segir Eggert ákveðinn. „Þetta er komið á sjálfstýringu svolítið hjá þeim og ég held að það eigi við um okkur öll að grípa til hennar. Það þarf alltaf að næra sambönd og öll tengsl hvað sem þau heita. Eins og Mr. Chance í bíómyndinni Being There með Peter Sellers. Hann sagði bara selvfølgeligheder þegar hann var að tala við forseta Bandaríkjanna um efnahagsmál. Hann sagði: „Það þarf að sá til að uppskera og það þarf að næra plönturnar og vökva þær.“ Þetta eru bara sjálfsagðir hlutir sem fólk kannski hættir að sinna þegar vaninn tekur yfir. Það er allt orðið svo hversdagslegt og alvanalegt að menn gleyma að vökva.“
„Nákvæmlega,“ segir Sigrún Edda. „Það er ekki hægt að orða þetta betur.“
„Já, Mr. Chance vissi hvað hann söng,“ segir mótleikari hennar og brosir. „Ég hef alla mína visku úr bíómyndum. Hef enga skoðun á þessu sjálfur.“
„Villi og Nanna tala ekki um þarfir sínar, langanir og drauma,“ segir hún. „ Þau eru búin að selja húsið og flytja í minna hús og þau eru öll eins. Þau meira að segja flytja milli staða í nákvæmlega eins einingu. Allir settir í kassa. Litlir kassar á lækjarbakka.“
Fólk hættir að tala saman
„Ég veit ekki hvort það er ætlun höfundar að spegla eitthvert samfélag. Þau búa auðvitað í neyslusamfélagi. Hún var heimavinnandi, hann vann tíu til tólf tíma á dag og kemur heim til að borða og svo er farið að horfa á sjónvarpið. Fólk nýtur ekki samvista. Hin dæmigerða vísitölufjölskylda þarf stöðugt að vinna. Þegar ég var að alast upp þurfti eina fyrirvinnu, nú þarf tvær. Þessi lífsmáti okkar hefur töluvert með þetta að gera. Við erum innilokuð í litlum einingum, hver og ein fjölskylda með lítið hús og börn svo fara þau að heiman og menn hætta að vinna. Villa finnst hann fullkomlega tilgangslaus í lífinu. Það er grundvallaratriði sem annar sonur þeirra segir í verkinu þegar hann fær exemiskast og klórar sér í gegnum heilan mónlog, fólk hættir að tala saman. Það er auðvelt að gleyma að tala saman. Vaninn gerir menn að leikföngum leiðans.“
„Þessi hugmynd um að þegar þú nærð vissum aldri þá taki það því ekki að breyta, taki því ekki að eiga drauma og láta þá rætast,“ bætir Sigrún Edda við. „Það er fjallað um það í þessu verki sem mér finnst mjög áhrifamikið.“
„Það er ekkert öðruvísi hér en þar,“ segir Eggert og vísar til þess að höfundur verksins er bandarískur. „Eldra fólk hverfur bara út úr lífinu þegar það hættir að hamast við að snúa hjólum atvinnulífsins er það bara orðið hlutverkalaust. En bara svo þið vitið það þá eru þetta bestu ár ævinnar þegar maður er hættur að þurfa að vinna og getur bara verið að dingla sér. Það er voðalega gaman.“
Harkaleg lending leið til sátta
En það vantar svolítið hjá þessum hjónum að þau hafa ekki verið að rækta heldur sjálf sig utan sambandins. Villi fer reyndar á námskeið í uppistandi og vill gjarnan læra að vera fyndinn og hún safnar fötum af dánu fólki í eldriborgara íbúðum í nágrenninu til að gefa flóttafólki. Er hægt að lesa úr þessu einhvern boðskap um að fólk þurfi líka að rækta sitt utan sambandsins, eiga sín áhugamál og eitthvað sem er bara þeirra?
„Já, já, sjálfsagt,“ segir Eggert. „Þau eru bara dæmigert fólk sem dagar uppi fast í einhverjum hjólförum. En með þessum litlu ævintýrum þeirra hvort í sínu lagi verður til einhver ástæða til, ég vil meina, sátta og skilnings og endurkomu inn í þetta hjónaband sem þau stofnuðu til fyrir fimmtíu árum eða svo. En til þess þurfti svolítið harkalega lendingu.“
Það er hún sem tekur af skarið. Haldið þið að það sé þannig í raun, að konan sé líklegri til að rjúfa stöðnunina?
„Já, hún tekur af skarið,“ segir Eggert. „Hann hefði lyppast áfram í þessari deyfð. Ég skal ekki segja hvort konur séu líklegri til þess að gera eitthvað í málum. Það er sagt að konur hafi ríkari tilfinningagreind en karlmenn.“
„Þær stjórna frekar innra lífinu, sjá um félagsleg tengsl og slíkt,“ bætir Sigrún Edda við.
Eldri borgarar þyrftu að hafa val um að vinna
Nú eruð þið sjálf á þessum aldri að vera annað hvort að nálgast eftirlaunaaldur eða komin á hann. Hvað finnst ykkur um það, hafið þið nóg af áhugamálum að hverfa að?
„Ég var látinn skila lyklinum daginn sem ég varð sjötugur,“ segir Eggert. „Sissa er enn að vinna fulla vinnu. Ég er eftirlaunaþegi. Ég er einn af fáum Íslendingum sem er ekki alltaf úti á golfvelli en ég dunda mér ýmislegt hef alltaf gert.“
„Ég verð 67 ára á næsta ári,“ bætir hún við. „Ég hef lítið hugsað um þetta. Ég er mjög ánægð með að vera enn á fullu og er ekki farin að undirbúa nein starfslok. Mér finnst lífið bara koma til manns og maður tekur á því þegar það kemur. Eggert er hins vegar garðyrkjumaður, ræktar sinn garð.“
„Sem er náttúrulega hlægilegt í landi þar sem ekkert blómstrar nema fjóra mánuði á ári.“ Bætir hann við. „En það eru nýir tímar og við þessir eldri borgarar þyrftum að hafa val. Ég er kominn með áratuga reynslu í þessu fagi og enn með fulla starfsorku. Einhverra hluta vegna er það svo á Íslandi að fólki er gert að hætta á ákveðnum aldri. Víða í Evrópu, Englandi, Þýskalandi, Póllandi og víðar leika menn á meðan þeir vilja og geta og treysta sér til. Hér eru menn settir út bara þegar aldurinn nær ákveðinni tölu. Þetta á ekki bara við um leikara. Þessi lög um eftirlaunaaldur eru svolítið skrýtin á þessari nýju öld þegar allir verða eldri og eru hraustari miklu lengur. Ég skil að þetta hafi verið afskaplega gott þegar menn voru orðnir útslitnir af striti hérna áður.
Ég hef að vísu verið að vinna áfram í freelance-verkefnum og ég sá ekkert eftir því þegar ég hætti. Eftir að hafa verið fastráðinn í leikhúsi í áratugi get ég núna sagt nei takk, ef mér bjóðast verkefni sem mig langar ekki í. Ég verð að játa að stundum hefur maður leikið hlutverk sem mann langaði ekkert í. Það fylgir því a vera fastráðinn og á föstum launum. Nú get ég bara valið það sem ég vil. “
Svolítið í að leika leiðindaskjóður
Að lokum kunnið þið vel við Villa og Nönnu?
„Já, ég kann mjög vel við Nönnu í sínum litlu uppreisnum. Mér þykir bara mjög vænt um hana, þessa konu sem hefur ekki látið mikið fyrir sér fara í lífinu.“
„Ég verð að játa það að Villi er einhver leiðinlegasti maður sem ég hef leikið. Hann er afskaplega leiðinlegur maður. Það sést best þegar hann er að reyna að verða brandarakarl. En það er gaman að leika svona. Ég hef leikið svolítið af leiðindaskjóðum en þetta er besti karl,“ segir Eggert.
„En hann langar til að vera skemmtilegur,“ bætir Sigrún Edda við. „Nanna á það til að segja aðeins of mikið um viðkvæma hluti, fer fullmikið útí smáatriði, sem er mjög fyndið.“
„Það er hluti af þessu starfi, að öll hlutverk sem þú leikur finnur þú þeim stað þar sem persónan er bara í sjálfri sér. Þú sérð það utan frá og getur hugsað; þetta er nú meiri leiðindaskjóðan eða apakötturinn. En ef þú ert þessi manneskja er ekki víst að hún sjái það sjálf. Þú tekur alltaf stöðu með persónunni sem þú leikur jafnvel þótt á ytra borðinu og hlutlægt séð sjáir þú hverslags manneskja þetta er; óalandi og óferjandi, en innan frá sér hún það ekki þannig,“ segir Eggert.
„Já, stundum fer ærinn tími í að láta sér þykja vænt um manneskjuna sem maður leikur og það er alveg nauðsynlegt, en það er auðvelt að láta sér þykja vænt um Nönnu, við þekkjum hana öll “ segir Sigrún Edda og það verða lokaorðin að þessu sinni. En þeir sem hafa áhuga á að kíkja til þeirra Villa og Nönnu í Óskalandi ættu að panta sér miða sem fyrst.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.