Björgvin Guðmundsson skrifar
Fyrir rúmu ári um áramótin 2016/2017 hækkaði lífeyrir giftra aldraðra um 12 þúsund krónur eftir skatt, það er hjá þeim sem eingöngu höfðu tekjur frá almannatryggingum. Þetta var 6,5% hækkun eða úr 185 þúsund krónum í 197 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Ég kallaði þetta hungurlús, sem skipti engu eða litlu máli. Þetta gerðist skömmu eftir að yfirstéttin hafði tekið sér mörg hundruð þúsund króna launahækkanir, til dæmis þingmenn 350 þúsund króna launahækkun, eða 45 % hækkun. Nú um síðustu áramót endurtekur sagan sig. Lífeyrir giftra aldraðra er hækkaður um 7 þúsund krónur á mánuði eftir skatt, úr 197 þúsund, í 204 þúsund á mánuði, það er hjá þeim,sem hafa eingöngu tekjur frá TR. Þetta er 3,5% hækkun eftir skatt. Þetta er hungurlús eins og áður sem skiptir engu eða litlu máli. Það virðist engu máli skipta þó VG sé komin í stjórnina. Þetta var íhaldsstjórn,hægri stjórn áður og virðist vera íhaldsstjórn, hægri stjórn áfram þó VG sé í stjórninni. Framangreindur lífeyrir aldraðra var við fátæktarmörk og er áfram við fátæktarmörk. Þingmenn hreyfa ekki legg né lið til þess að breyta þessu. Ríkisstjórnin gerir ekkert.