Hefur ekki efni á að búa lengur á Íslandi og flytur til Spánar

Einar Scheving

Einar Scheving

 

Einar Scheving skrifaði færslu á Facebook í gær, um móður sína, Valgerði Þorsteinsdóttur og hreyfir þar réttlætismáli.  Hann segir að hefði hann verið svo lánsamur að hreppa Grímuna í fyrrakvöld, hefði hann tileinkað henni verðlaunin, en hann var tilnefndur til tónlistarverðlauna. Gefum Einari, sem talar áreiðanlega fyrir munn margra, orðið.

 

Það vill svo til að þessi kona, sem er mér eðlilega mjög kær, stendur á miklum tímamótum. Hún er að leggja land undir fót og flytja til Spánar í næstu viku – og aðeins af einni ástæðu – hún hefur ekki efni á að búa á íslandi lengur, ekki frekar en stór hluti þjóðarinnar, sér í lagi ellilífeyrisþegar.

Eftir 36 ára vinnu í Samvinnubankanum/Landsbankanum þá var henni sagt upp í hruninu. Henni var beinlínis hent út og lokað var á tölvuaðganginn hennar samdægurs. Hún var svo heppin að bjóðast fljótt vinna í Laugavegsapótekinu, þar sem hún var dáð af bæði samstarfsfólki og viðskiptavinum. Hún var margsinnis valin starfsmaður mánaðarins og ég hef ekki tölu á því fólki sem mamma skilaði kveðju til mín frá sem hún hitti í apótekinu. En viti menn, þrátt fyrir góða heilsu og þessar vinsældir þá var henni sagt upp þegar hún varð sjötug, enda var það víst stefna hjá Lyfju. Þar sem móðir mín er þekkt fyrir dugnað, ákvað hún að láta ekki deigan síga og fór að vinna í sjálfboðavinnu í Rauða Kross búðunum, þar sem hún er orðin álíka vinsæl og í apótekinu. Hins vegar duga lífeyrisgreiðslurnar engan veginn og þegar hún er búin að borga húsaleigu og aðra reikninga þá er ekki mikið eftir. Sem betur fer er hún tiltölulega matgrönn og nægjusöm, en það sér það hver sem vill að það eru framin mannréttindabrot á ellilífeyrisþegum á Íslandi, á sama tíma og framkvæmdastjórar lífeyrissjóðanna eru sumir með hátt í 40 milljónir í árslaun. Hér er manneskja sem hefur alla tíð borgað sína skatta og í lífeyrissjóði en á nú engra annara kosta völ en að flýja land til þess að ná endum saman.

Ritstjórn júní 15, 2016 13:56