Hvað er að koma fyrir orðið JÁ?

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar

Hvað er að koma  fyrir orðið JÁ. Eins og við öll vitum tekur íslensk tunga breytingum. Sumar eru skiljanlegar en aðrar ekki.

Það er til dæmis merkilegt að sjá hvernig þýðing orðsins „ágætt“ hefur breyst úr því að vera mun betra en gott, í það að vera skítsæmilegt. Það hlýtur að vera einkennilegt fyrir ungt fólk, sem er handgengið þessari nýju merkingu, að fá ágætiseinkunn fyrir að skara fram úr í námi. Það er vafalaust skrítið að fá viðurkenningu fyrir 9,5 í einkunn, sem heitir skítsæmilegseinkunn.

Fyrir nokkrum árum hefði verið eðlilegt að segja JÁ, til að taka undir þessa setningu. En þá fóru menn að segja SEGÐU. Var þetta skemmtilg bíómynd? SEGÐU.

Tíminn leið og spurt var hvort þú ætlaðir á leikinn og svarið varð EINMITT. Þetta er í samræmi við þá sterku tilhneigingu í tungumálum að þegar breytingar verða komi lengra orð í staðinn fyrir stutt.

Enn liðu ár og spurt hvort þú ætlir á þjóðhátíðina. ALGERLEGA er svarið.

Enn líður tíminn og spurt hvort bókin hafi verið skemmtileg og svarið er ekki JÁ heldur FULLKOMLEGA.

Fleiri orð eru notuð.  Heyrst hafa orðin VISSULEGA og SANNARLEGA. Og „var gaman?“ gæti kallað fram jáyrðið ÓGEÐSLEGA og þegar mikið liggur við ALVEG ÓHUGNANLEGA eða ÓSTJÓRNLEGA.

Ekki er augljóst hvað veldur og ekki er heldur sjáanlegt að þetta stefni íslenskri tungu í bráða hættu.

Hinsvegar hef ég ekki orðið var við að orðið NEI sé á undanhaldi. Ef einhver spyrði mig hvort þörf væri á fleiri orðum til að hafna einhverju, þá er svar mitt afdráttarlaust NEI.

 

Ólafur Sigurðsson apríl 7, 2016 11:41