Hvenær hættir samfélagið að taka mark á og veita fólki athygli? Er það í kringum fertugt, fimmtugt eða sextugt? Rannsóknum ber ekki saman en vitað er að konur verða mun verr úti en karlar þegar kemur að ósýnileika og fyrirbærið er svo raunverulegt að það hefur fengið nafn, invisible older woman syndrome.
Já, það munaði ekki um það, ósýnlega eldri konu-heilkennið. Hvað er það eiginlega og hvað felst í því? Með hækkandi aldri upplifir fólk í vestrænum samfélögum sig sífellt minna sýnilegt og marktækt í samfélaginu. 70% kvenna finna verulega fyrir þessu en aðeins 32% karla. Þetta lýsir sér m.a. í því að fólk komið yfir fimmtugt er síður ráðið í vinnu en þeir yngri, það er gengið framhjá því við stöðuveitingar, tillögur þeirra og hugmyndir fá minna vægi á vinnustaðnum og því er fremur sagt upp ef draga þarf saman seglin. Þetta er ekki bara tilfinning einhverra einstaklinga í úrtaki heldur staðfesta rannsóknir á stöðu vinnumarkaðar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð að þetta er staðreynd.
Algengt er að með aukinni reynslu fái karlmenn betri stöðu innan sinnar starfsgreinar. Eftir áratuga starf er oft leitað til þeirra og þeir beðnir að miðla þekkingu sinni til hinna yngri. Konur fá síður slíkar beiðnir og þeim er oft ýtt til hliðar fyrir yngri konur í ákveðnum starfsgreinum. Þetta er til dæmis mjög áberandi í kvikmyndaiðnaði og í leikhúsheiminum þótt á undanförnum árum hafi verið vísbendingar um að áhugi á lífi eldra fólks hafi aukist í þeim geira og konur á borð við Dame Judi Dench, Dame Helen Mirren, Dame Maggie Smith, Meryl Streep og Jane Fonda hafa sýnt að hægt sé að halda starfsferlinum gangandi fram yfir fertugt.
Móðursjúka konan
Nýjar bandarískar rannsóknir hafa sýnt útlit skiptir miklu þegar ráðið er í störf á vinnumarkaði og að það skiptir meira máli þegar kona á í hlut en karl. Þetta er einn þáttur í því að eldra fólk á almennt erfiðara með að fá vinnu en yngra. Það sýndi sig að ef umsækjandinn leit vel út, var unglegur, var líklegra að vinnuveitendur ákvæðu að ráða hann þrátt fyrir aldurinn. Kannski er ekki undarlegt í ljósi þessa að fegrunariðnaðurinn hafi vaxið jafnhratt og raun ber vitni og lýtaaðgerðir til að halda sér ungum séu orðnar algengustu læknisaðgerðir nútímans.
Í heilbrigðiskerfinu er enn í dag tekið meira mark á körlum en konum. Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að komi karl og kvarti undan tilteknum einkennum fær hann rannsóknir og læknisskoðun meðan kona með sömu lýsingar er send heim og sagt að taka verkjatöflu. Það var ekki fyrr en á síðari helmingi síðustu aldar að konur voru teknar með í rannsóknir á sjúkdómum, eðli þeirra og tíðni, og verkun lyfja og aukaverkunum. Þetta varð til þess að lengi vissi heilbrigðisstarfsfólk ekki að ákveðnir sjúkdómar lýsa sér öðruvísi hjá konum en körlum, m.a. hjartaáfall. Þetta kostaði margar konur lífið. En þrátt fyrir aukna þekkingu, ótal rannsóknir og fræðslu meðal heilbrigðisstarfsfólk fá konur síður áheyrn leiti þær lækninga. Því eldri sem konan er þess meiri líkur eru á að hún fái litla athygli og enga umönnun. Enn í dag eimir eftir af þeirri trú að konur á öllum aldri séu gjarnan móðursjúkar og þær hafi tilhneigingu til að gera meira úr sjúkdómseinkennum sínum en tilefni er til meðan karlar séu harðari af sér og geri frekar minna úr þeim.
Auk alls þessa finna konur yfir fimmtugt fyrir því að í verslunum fá þær seinna aðstoð en hinir yngri, troðist er fram fyrir þær í röðinni og gert ráð fyrir að þær vilji vörur „sem henta þeirra aldri“ fremur en eitthvað samkvæmt nýjustu tísku. Gengið er út frá því fyrirfram að þær séu ekki með á nótunum og ungt fólk hrútskýrir gjarnan einföldustu tæknimál eða nýjungar og skoðanir eldri kvenna eru iðulega afgreiddar á þann veg að þær séu of gamaldags og eigi ekki við. Komi hið sama frá yngri aðila er það samstundis gripið á lofti og þykir gott.
Listin er andsvar
Sumir kjósa að nýta sér ósýnileikann til að verða sýnilegir. Þar á meðal má nefna nýsjálensku listakonuna Deboruh Wood sem Martha Árnadóttir fjallaði um í aðsendri grein hér á Lifðu núna. Hún fer út á götu, setur þar upp listaverk sín eða málar þau á veggi. Enginn tekur eftir henni eða velti fyrir sér bauki eldri konu. Hún, líkt og Banksy, virðist geta komið og farið án þess að nokkur verði þeirra var. Eftir stendur hins vegar listaverkið með sinn boðskap. Hér má lesa meira um Deboruh og verk hennar: https://lifdununa.is/grein/nytti-osynileikan-til-ad-skapa-ovideigandi-og-ograndi-gotulistaverk/
En þótt Deborah kjósi að nýta sér ósýnileikann eru fjölmargir listamenn á öðrum sviðum í sviðsljósinu og beinlínis njóta þekkingar sinnar og reynslu. Í ár voru til að mynda þrjár konur um og yfir sextugu tilnefndar til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki skáldsagna og Steinunn Sigurðardóttir hlaut þau. Kristbjörg Kjeld lék í sýningunni Með Guð í vasanum í Borgarleikhúsinu og Egill Ólafsson sló nýverið í gegn í kvikmyndinni Snertingu. Ísland sker sig ekki úr hér. Erlendis hefur mátt greina svipaða þróun. Margaret Atwood er til dæmis enn að skrifa. Núorðið yrkir hún mest ljóð en vinsældir bóka hennar jukust umtalsvert í kjölfar sjónvarpsþáttanna um þernuna.
Bækur um eldra fólk að leysa glæpi eru einnig meðal þeirra allra vinsælustu á Bretlandi þar á meðal bækur Richard Osman, Alexanders McCall Smith og L T Shearers. Hér á landi eru sambærilegar bækur Jónínu Leósdóttur um Eddu á Birkimelnum og bækur Önnu Ólafsdóttur Björnsson um Lindu Lilju og Gabríel. Hugsanlega er þetta til marks um að eldri borgarar séu einfaldlega að verða það stór hópur að ekki sé hægt að horfa framhjá þeim lengur.
Aldrei má hægja á
Því eldra sem fólk verður þess meira áberandi verður hins vegar ósýnileikinn. Í samfélagi þar sem allt byggir á hraða og að fólk fylgist vel með öllu er ekki gott að eldast. Jafnvel þótt fólk rækti heilsuna vel, hreyfi sig mikið, borði hollt og hugi að andlegri líðan hægir óneitanlega á viðbrögðum og geta minnkar með árunum. Þolinmæði umhverfisins gagnvart slíku er ekki mikil og því eldra sem fólk verður því minna er umburðarlyndið. Eldri ökumenn fá oft finna fyrir óþolinu hætti þeir sér út í umferðina, í verslunum fær eldra fólk sjaldnast þá þjónustu sem það þarf því enginn má vera að því að bíða eða aðstoða það og víða er það einfaldlega hunsað á veitingastöðum og þjónustustofnunum vegna þess að starfsfólk nennir ekki að leggja eitthvað á sig aukalega.
Ósýnleiki hinna eldri er raunverulegur og sár fyrir þá sem upplifa hann. Þegar aldraðir fá rödd og sýnileika eru það ævinlega þeir hraustu og virku sem eru í sviðsljósinu. Ellin birtist hins vegar í mörgum og margvíslegum myndum og þótt líkaminn sé farin að gefa sig getur andinn verið síkvikur og lifandi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.