Hvað gerði ég við bíllyklana?

Hvar eru bíllyklarnir eiginlega? Var það klukkan eitt eða þrjú, sem við ætluðum að hittast? Eru þetta fyrstu vísbendingar um heilabilun, eða ertu kannski bara utan við þig og stressaður. Hvenær er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu?

Hefur þú orðið fyrir því að standa við kassann í búðinni og uppgötva að þú gleymdir greiðslukortinu heima? Eða þá að þú hugsar um það allan daginn hvort þú mundir ekki örugglega eftir að taka straujárnið úr sambandi áður en þú fórst í vinnuna, eða ekki?

Slakaðu á. Það er að öllum líkindum ekkert að. Þeir sem leita til læknis með áhyggjur af minninu eru fæstir með heilabilun, heldur eitthvað allt annað.  Það er eðlilegt að muna ekki öll smáatriði dagsins upp á hár. Ef menn eru hins vegar búnir að gleyma hvort það er sumar eða vetur, eða hvernig á að þvo þvott í þvottavélinni, þá er ástæða til að leita læknis.  Margir óttast heilabilun, en langflestir fá hana hreint ekki.

Þetta kemur fram í grein í norska vefritinu  www.viover60.  sem er hér í stuttri endursögn. Þar er rætt við konu að nafni Gunhild Waldemar sem er prófessor og stýrir dönsku vísindamiðstöðinni um heilabilun.  Hún segir að heilabilun sé  samsafn einkenna sem ekki sé hægt að lækna. Hér áður fyrr var talið að allir fengju heilabilun, bara ef þeir lifðu nógu lengi, en því vísar Gunhild á bug.  „Orsök heilabilunar er sem sagt ekki aldurinn, heldur sjúkdómur í heilanum. Aðalorsökin er Alzheimer sjúkdómurinn, en um helmingur heilabilaðra glímir við hann“, segir hún.

Þó minnisleysi sé hluti af sjúkdóminum, þá séu fyrstu merkin um Alzheimer oft breytingar á persónuleika fólks. Menn draga sig í hlé, eru daprir og skortir frumkvæði og oft eru það aðstandendur sem fyrstir verða varir við það.  Bent er á í greininni að það sé gott að fá heilabilunar sjúkdómsgreininguna snemma, þannig að sá veiki og aðstandendur hans geti búið sig undir það sem er fram undan. Lagt á ráðin um erfðamál og hvernig sjúklingurinn myndi kjósa að koma hlutum fyrir þegar hann er orðinn of veikur til að sjá um sig sjálfur.

Dönsku Alzheimersamtökin gefa aðstandendum sjö ráð til að umgangast fólk með heilabilun eða Alzheimer.

  1. Horfðu á manneskjuna á bak við sjúkdóminn. Fólk með heilabilun er manneskjur alveg eins og við hin og á sína drauma, hefur húmor og kærleika til að bera. Mundu manneskjuna eins og hún var, en  ekki  eingöngu sjúkdómseinkenni hennar.
  2. Haltu sambandi bæði við hinn veika og aðstandendur hans ef það á við, þannig að þeir einangrist ekki.
  3. Vertu til staðar hér og nú. Manneskja með heilabilun gleymir gjarnan mestu úr fortíðinni og hið sama á við um framtíðina. Þess vegna skiptir augnablikið og þær tilfinningar sem það vekur upp, gríðarlega miklu máli. Ef ykkur tekst að lifa í núinu, er hægt að upplifa saman góðar stundir og mikla gleði.
  4. Talið opinskátt um heilabilunina. Fólk sem er í umhverfi sjúklingsins veit ekkert hvernig staðan er, nema því sé sagt það. Það er auðveldara fyrir aðra ef þeir eru almennilega upplýstir. Þannig skilja þeir ástandið betur og átta sig á þeim breytingum sem sjúkdómurinn veldur.
  5. Fólk þarf að muna að sinna sjálfu sér og eigin lífi. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að upplifa eitthvað gefandi og skemmtilegt. Heilabilun getur varað í fjölda ára og ef menn eiga  að geta verið góðir aðstandandendur allan þann tíma og stutt þann veika, er mikilvægt að þeir hlúi einnig að sjálfum sér.
  6. Reyndu að forðast að leiðrétta manneskju með heilabilun sem gerir sömu mistökin aftur og aftur. Það veldur bara deilum og pirringi, og kemur báðum í uppnám.
  7. Því meira sem þú veist um heilabilun, þeim mun  betur verður þú í stakk búin til að hjálpa sjúklingnum. Það gerir þér auðveldara fyrir að rækja þitt hlutverk sem aðstandandi og mæta þeim kröfum sem það gerir til þín.
Ritstjórn maí 12, 2022 07:00