Margir hafa velt fyrir sér þýðingu vináttunnar fyrir manneskjuna, allt frá dögum Ciceros, sem var uppi fyrir rúmlega 2000 árum. Í bók hans Um vináttuna gagnrýnir hann þá sem safna auði í stað þess að afla sér vina. „Vináttan er aftur á móti ævarandi og verður aldrei frá manni tekin. Enda þótt margt annað haldist í eigu manns sem nokkurs konar auðnugjafir þá á vinalaus maður ekki ánægjulegt líf“, segir í bókinni og þar segir jafnframt. „Vinátta hefur það fram yfir frændsemi að skyldmenni bera ekki óhjákvæmilega góðvild hvert í annars garð sem vinir aftur á móti gera. Ef góðvild er ekki lengur til að dreifa hlýtur vináttu að ljúka. Skyldleiki helst aftur á móti óbreyttur. Hinn mikla mátt vináttunnar má ekki hvað síst greina í því að hún einskorðast við kærleiksbönd tveggja eða fárra manna, ólíkt ótal öðrum böndum sem menn tengjast frá náttúrunnar hendi“. Það var þannig ljóst þegar á tímum Ciceros að vináttan hefur alltaf skipt manneskjuna miklu máli.
Vinir og vinir ekki það sama
Á vefnum Sixty and me, birtist nýlega grein um hvaða hlutverki vinirnir gegna í lífi okkar. Næstum allir eiga vini, segir þar meðal annars. Sumir eiga marga vini en aðrir fáa. Við vitum hverjir eru vinir okkar og þeir eru okkur mikilvægari en kunningjar sem við eigum. Við hittum þá þegar við getum eða tölum við þá í síma og lítum á þá sem ómetanlega gjöf sem lífið hefur fært okkur. En þó orðið vinur, sé notað um alla okkar vini, er það samt þannig að sumir þeirra hafa meiri þýðingu fyrir okkur en aðrir.
Vinir sem tengjast ákveðnum hópum
Það er líklegt að við eigum vini sem okkur finnst skemmtilegt að gera ákveðna hluti með. Þeir veita okkur félagsskap og oft hittum við þá í hópum. Syngjum með þeim í kór, erum með þeim í bókaklúbbi, golfi, gönguhópi eða jóga . Þetta er fólk sem við skreppum með á kaffihús eða í hádegismat stöku sinnum. Þetta er fólk sem við hittum oft og höfum ánægju af að vera með, ræða við það um eitthvað sem er ofarlega á baugi, en förum ekki mikið dýpra en það. Það er ekkert víst að þetta fólk segi okkur frá því, þó það standi til dæmis í erfiðum skilnaði.
Nánir vinir
Svo eigum við nána vini. Við ræðum við þá um ýmis vandamál og hlustum á þá ræða um sín. Þeir þekkja hug þinn og þú veist hvað þeir eru að hugsa. Þessir vinir gegna mikilvægu hlutverki í lífi þínu, þó þú sért ekki alltaf í samvistum við þá. Þú sérð þá kannski ekki í mörg ár, en hefur samband í gegnum síma, tölvupóst eða Zoom. Þegar þið svo hittist eftir langan tíma er rétt eins og þið hafið hist í gær og þið takið upp þráðinn þar sem frá var horfið alveg áreynslulaust. Og það er ekki verið að dvelja við hversdagslega hluti eða tala um veðrið. Það er farið beint í að ræða það sem skiptir mestu máli fyrir ykkur þá stundina.
Við förum og tölum við þessa nánustu vini þegar við höfum áhyggjur af einhverju eða þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir í lífinu. Þeir þekkja okkur, þykir vænt um okkur og bera hag okkar fyrir brjósti. Oft er þetta fólk sem við kynntumst í skóla og höfum haldið sambandi við allar götur síðan. Þetta eru þeir sem fylgdust með þegar þú stofnaðir til sambanda snemma á ævinni, þegar þú reyndir að eignast barn, hvernig þér vegnaði í starfi og tókst á við alls kyns viðfangsefni sem lífið færði þér
En þetta getur líka verið fólk sem þú kynntist við ákveðnar aðstæður, kannski í matarboði, í gegnum vinnuna, eða við aðrar aðstæður þar sem færi gafst til að tala saman. Einhverra hluta vegna náðuð þið vel saman, það virtist fyrirhafnarlaust og allar skýringar óþarfar. Stundum smellur fólk einfaldlega saman og verður vinir.
Þú átt kannski ekki hóp náinna vina, ef til vill bara einn.
Vináttan er mikilvæg
Vinátta er okkur mikilvæg, hvernig svo sem hún er. Maðurinn er félagsvera, eins og berlega hefur komið í ljós í heimsfaraldrinum. Persónulegar þarfir okkar eru mismunandi. Sumir þurfa fjöldann allan af vinum til að þeim líði vel. Aðrir hafa minni þörf fyrir að gera eitthvað með öðru fólki, en þurfa virkilega á því að halda að eiga einn eða tvo nána vini. Sannir vinir eru þeir sem reynast vinir í raun.