Að læra að elda fyrir einn eða tvo

Dóra Svavarsdóttir

„Að elda og borða er félagsleg athöfn. Það getur verið átak að koma sér af stað til að elda ef maður býr einn,“ segir matreiðslumeistarinn Dóra Svavarsdóttir en hún er nýlega farin að halda námskeið þar sem hún kennir fólki að elda fyrir einn eða tvo.

Hún segir að það þurfi að huga að ýmsu þegar eldað er fyrir einn eða tvo. „Það getur verið hægara sagt en gert að kaupa inn. Það er fátt hægt að kaupa fyrir einn eða tvo. Framleiðendur miða vörur sínar við mun stærri fjölskyldur. Þess vegna þurfa þeir sem eru einir að vera meira skapandi og skipuleggja máltíðirnar vel. Til dæmis ef fólk langar í kjúklingabringur. Þær eru yfirleitt seldar þrjár saman í pakka. Ein dugar í matinn en þá eru tvær eftir. Það er hægt að fyrsta þær, bara að hafa í huga að fyrsta bringurnar í sitthvoru lagi en svo er líka hægt að elda þær allar í einu. Borða eina, nota aðra daginn eftir í einhvern annan rétt og svo er hægt að sneiða þá þriðju og nota í salat eða sem álegg á brauð. Matur sem búið er að elda geymist betur en hrámeti og það er ágætt að hafa það í huga.“

Annað sem Dóra kennir fólki á námskeiðunum er að huga að hollustu og ná fram hámarksnýtni en það sparar fjármuni og er umhverfisvænna. „Ég kenni fólki hvernig á að einfalda flóknar uppskriftir með því að fækka innihaldsefnunum. Það er ekkert vit í því að sitja uppi með hálfa papriku eða hálfa gulrót og vita ekki hvernig eigi að nýta það sem er afgangs. Annað sem ég legg áherslu á að kenna fólki, en það er að elda úr því sem er til í ísskápnum.  Stundum þarf ekki annað en vera örlítið skapandi í hugsun og það er hægt að galdra fram dýrindismáltíð.“

Dóra ákvað að fara að halda námskeiðin eftir að hún var hafði verið beðin um að setja saman slík námskeið. Ég er búin að halda eitt námskeið sem var fyrir félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og BSRB félaga. „Það gekk mjög vel og næsta námskeið sem er opið almenningi verður 13. mars næstkomandi.“

Yfirleitt er ímynd þess að einhver sé að elda einn, karl á miðjum aldrei sem kann ekkert fyrir sér í eldhúsinu. Dóra segir að það sé ekki alls kostar rétt. „Margir karlar kunna að elda en það eru margar konur sem hafa rekið stór heimili en eru nú orðnar einar í heimili, eða búa með manni sínum, sem óar við því að fara að elda fyrir svo fáa. Þeim finnst hreinlega ekki taka því að elda fyrir sig einar eða fyrir tvo. Þær sleppa því þá að elda sem er ekki gott. Við þurfum að finna gleðina í því að elda fyrir okkur sama hversu margir eru í mat. Kosturinn við að elda bara fyrir sig einan er að þá getur þú eldað það sem þér finnst best og kryddað algjörlega að þínum smekk,“ segir Dóra og bætir við að bæði karlar og konur séu velkomin.

Eins og áður sagði verður næsta námskeið Dóru 13.mars og er það haldið í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur,  Sólvallagötu 12. Námskeiðið hefst klukkan 17.30 og því lýkur um 21.30. Námskeiðsgjaldið er 9.500 krónur. Hægt er að senda línu á Dóru á póstfangið dora@culina.is „Ég sé um matarinnkaupin og skaffa allt hráefni. Þátttakendur þurfa ekki annað en mæta með inniskó og svuntu. Það myndast oft svo skemmtileg stemming þegar fólk er að elda saman. Það skiptist á góðum ráðum og svo borða allir saman í lokin og þá er oft mikið hlegið.“

Ritstjórn febrúar 22, 2018 08:16