Tengdar greinar

Hvernig er þessi kórónuveirusjúkdómur?

Jóhann Heiðar Jóhannsson

Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir skrifar

Rækilega hefur verið greint frá því að um bráðsmitandi smit- og sýkingarsjúkdóm í öndunarfærum sé að ræða og að hann birtist ýmist sem fremur væg veikindi (80%), alvarleg veikindi (15%) eða sem lífshættuleg veikindi (5%). Frekari reynsla af veikindunum hefur svo gefið til kynna að eftirköst eftir sjúkdóminn geti verið umtalsverð og jafnvel langvarandi.

Af byrjunareinkennum sjúkdómsins má nefna hita, kuldahroll, hósta, hálsbólgu, nefstíflur, höfuðverk, þreytu og vöðvaverki. Þessum einkennum svipar til þess sem margir þekkja og kallast oft í daglegu tali „flensueinkenni“. Til viðbótar má nefna ógleði, uppköst og niðurgang og svo það sérstaka fyrirbæri að bragð- og lyktarskyn minnkar og tapast um skeið. Við vaxandi veikindi bætast við mæði og öndunarerfiðleikar, og þá má gera ráð fyrir að lungnabólga sé í vændum, en í kjölfar hennar getur komið í ljós öndunarbilun og meðferð á gjörgæslu verður nauðsynleg og jafnvel öndunarvél.

Margoft hefur verið bent á að vissir hópar manna hafi aukna áhættu hvað varðar alvarleg veikindi af völdum sjúkdómsins og hættu á að sjúkdómurinn dragi þá til dauða. Einkum hafa hár aldur, sykursýki, ofþyngd, langvarandi lungna- og nýrnasjúkdómar, hjartasjúkdómar, heilablóðfall og krabbamein verið talin upp meðal áhættuþáttanna. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að beita sérstakri aðgát og auknum sóttvörnum þar sem slíkir einstaklingar eiga í hlut.

Greining sjúkdómsins byggist fyrst og fremst á því að veiran hafi fundist í sýni frá öndunarfærum, s.s. nefkoki eða munnkoki, hjá sjúklingi sem er með mörg af ofantöldum einkennum. Leit getur einnig þurft að gera að öðrum sýklum, bakteríum eða veirum, sem gætu leitt til svipaðra einkenna, og nauðsynlegt er að gera ýmsar aðrar rannsóknir sem geta sagt til um alvarleika ástandsins og geta gefið til kynna hvort önnur líffæri en öndunarfærin hafa orðið fyrir alvarlegu álagi eða skemmdum.

Meðferð sjúkdómsins snýst annars vegar um að gefa sértæk lyf sem geta unnið á veirunni, s.s. remdesivir og chloroquine, en einnig lyf sem draga almennt úr of miklum bólguviðbrögðum, s.s. steralyf, og hins vegar að tryggja vökvajafnvægi og næringu og koma í veg fyrir bilun í starfsemi líffæra og líffærakerfa, s.s. æðakerfisins.

Myndina hér fyrir neðan fékk Jóhann af netinu og er hún endurbirt hér.

Jóhann Heiðar hefur birt afar fróðlega pistla um Covid 19 á Facebook síðu sinni og gaf Lifðu núna góðfúslegt leyfi til að birta þá.

Ritstjórn janúar 18, 2021 16:36