Rannveig Sigurðardóttir er kjarnakona sem hefur búið víða um land, en er fædd og uppalin vestast í vesturbænum í Reykjavík, rétt hja KR vellinum. Þar áttu afi hennar og amma hús og lóðir. Þau gáfu sonum sínum sitt hvora lóðina sem lágu að þeirra húsi og þar byggði faðir Rannveigar yfir sína fjölskyldu. „Þetta var sveit í þá daga og bæði hestar og hænsni í nágrenninu. Grandahverfið var óbyggt“, rifjar Rannveig upp. Hún segir að mikil samheldni hafi ríkt meðal barnanna í hverfinu. Þau hafi verið á skautum á veturna, á Eiðistjörn í Eiðismýrinni. „Á vorin nýttum við svo mýrina. Það var ekki komið vor fyrr en við börnin vorum búin að tína vatnasóleyjar þar, til að selja í húsum á fimm og tíu aura búntið“, segir hún.
Gat ekki orðið bóndi
Rannveigu fannst yndislegt að búa á landsbyggðinni. „Ég var alltaf í sveit þegar ég var barn og unglingur og ætlaði að gerast bóndi. En svo gat ég ekki drepið skepnurnar, eða slátrað, þannig að ég gat ekki orðið bóndi“, segir hún og segist hafa verið strákastelpa þegar hún var lítil. Foreldrar hennar voru Sigurður Hallgrímsson tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu og Guðrún Karlsdóttir, sem lést árið 1959 þegar Rannveig var 5 ára og yngri systir hennar María 3ja ára. „ Hún var ættleidd hún mamma, ég komst að því þegar ég var unglingur, en hún ólst upp hjá góðu fólki. Svo kynntist ég móðurfólkinu mínu seinna og þar passaði ég eins og flís við rass“, segir Rannveig. Seinna eignuðust þær systur hálfbróður Hallgrím.
Ævintýraheimur fyrir börn í vesturbænum
Rannveig segir að vesturbærinn hafi verið alger ævintýraheimur fyrir börn. „Það var ekki búið að malbika göturnar og við vorum mjög dugleg að leika okkur í boltaleikjum. Það var bara hengd upp auglýsing á ljósastaurana, Brennibolti í kvöld, og allir mættu“. Hún segir að þau hafi tínt alls kyns drasl á gömlu öskuhaugunum og hún hafi geymt sitt í kjallaratröppunum heima hjá sér. „Pabbi var orðinn ansi leiður á því“, bætir hún við. Heldri menn í Reykjavík voru með hesta í hesthúsunum í hverfinu sem girt var í kringum. Þeir leyfðu börnunum stundum að fara á bak við hliðið og sitja á hestunum í hesthúsið. Stundum fóru þau á bak í leyfisleysi og riðu berbakt og beislislaus. Fjáhús og risastórt hænsnahús voru þar sem norðurendi KR vallarins er núna. Þar keyptu íbúarnir egg og þurftu að hlíta sérstökum reglum. Það átti að banka og bíða eftir að hjónin, sem iðulega voru að vinna í hænsnahúsinu, kæmu til dyra. „Ég var alltaf bráðlát og nennti ekki að bíða. Eitt sinn opnaði ég bara dyrnar og fékk hauslausa hænu á mig, en þá var verið að slátra með því að höggva af þeim hausana“.
Amman bölvaði hressilega
Vegna veikinda móður sinnar, var Rannveig snemma send að heiman og ólst mikið upp hjá ömmu sinni og systur hennar. „Ég er að tala um kjörömmu mína. Ég hitti svo líffræðilega ömmu mína einu sinni og er það minnisstætt hvað hún bölvaði hressilega, ég hafði aldrei heyrt gamla konu bölva“. Þær systur dvöldu einnig í smátíma á Silungapolli eftir að móðir þeirra veiktist. „Þá var mér sagt að passa Maríu systur mína og ég er enn að því“, segir Rannveig og hlær og segist vera nokkuð stjórnsöm.
Á að ræða jarðfræði og stjörnufræði við sjúklingana?
„Ég fór í tímakennslu hjá Þórði á Melhaganum og svo í Melaskóla og þaðan í Hagaskóla. Pabbi sendi okkur systurnar á námskeið í vélritun og vildi að ég færi í verslunardeildina. Hann sá fyrir sér að við færum í hefðbundin kvennastörf. Mig dreymdi um að fara í hjúkrun“, segir Rannveig. Á þessum tíma var verið að þyngja námið. Þegar hún útskrifaðist úr Hagaskóla með ágætiseinkunn var hætt að taka inn stelpur með gagnfræðapróf í hjúkrun og gerð krafa um að þær færu í 5.bekk á hjúkrunarkjörsviði í Lindagötuskóla áður en þær sæktu um í hjúkrun. „Ég gerði uppsteyt“, segir Rannveig,“ og spurði hvers vegna ég þyrfti að læra jarðfræði og stjörnufræði. Á ég að ræða þessar greinar við sjúklingana spurði ég“ Það var fátt um svör og svo var bætt við öðrum bekk, 6. bekk á hjúkrunarkjörsviði sem gerð var krafa um að stelpurnar tækju. „Þá hætti ég og fór að vinna sem þerna á Esjunni“, segir hún. Um tíma ætlaði hún að verða vélstjóri, en hún var svo sjóveik að það gekk ekki upp.
Barnabörnin öll yndisleg
Rannveig á fjögur börn sem eru uppkomin. Eiginmaður hennar Atli Gíslason fyrrverandi alþingismaður á þrjá syni og samanlagt eru barnbabörnin 17. Hún segir að þeim takist að halda utanum það verkefni, en bætir við að reyndar búi þrjú barna hennar erlendis með barnabörnin. Hún segir það hafa kosti og ókosti en vissulega missi hún sem amma svolítið af uppvexti barnanna. „Það er yndislegt að vera amma. Ég var aldrei hrifin af börnum og ætlaði ekki að eignast mörg börn, en það sem er öðruvísi við ömmuhlutverkið er að það er hægt að skila börnunum þegar maður vill fá hvíld“. Henni þykir gaman að vera með barnabörnunum. „Þau eru öll yndisleg og hvert með sinn karakter. Það er gaman að finna sterkan streng frá sjálfum sér í þeim“.
Bilaður jafnréttissinni
Rannveig hefur stundað margvísleg störf til sjós og lands um ævina. Hún vann verkamannavinnu, var í fiskvinnslu, skrifstofuvinnu, bankastörfum, vann á endurskoðendaskrifstofu og sem læknaritari svo nokkur starfanna séu nefnd. Hún hefur alltaf haft áhuga á baráttu fyrir réttlæti til handa verkafólki og segist líka hafa verið „bilaður jafnréttissinni alla ævi“. Hún er þeirrar skoðunar að jafnréttið byrji í uppeldi foreldra á sonum sínum. „Mínir synir voru látnir gera allt á heimilinu og gera enn. Þeir elda, kaupa inn og sjá um þvotta á heimilum sínum“. Rannveig segir að pabbi hennar hafi boðið þeim systrum í veiðiferðir og að gist hafi verið í tjöldum. „Ég var alin upp eins og strákur fannst mér og varð mjög frökk sem mér fannst gott. Það er mikilvægt að segja hlutina eins og þeir eru. Ég ber virðingu fyrir konum sem gera það. En eftir að netmiðlarnir komu til, er umræðan orðin svo hatrömm og dónaleg“, segir hún og henni finnst hafa orðið ákveðið bakslag í jafnréttismálunum. „Það voru til dæmis ekki margar konur sem stóðu upp og tjáðu sig á síðasta ársfundi ASÍ.
Fyrsta öldungaráðið í verkalýðsfélagi
Áhugi Rannveigar á réttlæti verkafólki til handa varð til þess að hún tók sæti í stjórn VR þegar Magnús L. Sveinsson var formaður. Hún hélt áfram í stjórn þegar Gunnar Páll varð formaður, en árið 2009 varð „hallarbylting“ í félaginu „Og þá duttum við öll út sem vorum þá í kjöri í stjórninni“, segir Rannveig. Nokkrum árum síðar var hún beðin um að koma aftur í stjórnina og hefur verið þar síðan. Hún hefur verið bæði í laganefnd og sjúkrasjóði VR og er nú einnig í nýju öldungaráði sem VR stofnaði nýlega. Það er fyrsta öldungaráðið sem verkalýðsfélag hér á landi stofnar. Henni finnst ekki eðlilegt að þegar fólk sé búið að greiða í félagið árum saman, sé bara sagt bless við það, þegar það verður 67 ára og hættir störfum á vinnumarkaði. „Markmið öldungaráðsins er að vera umræðu og samráðsvettvangur félaga VR sem eru sextugir og eldri og við erum stjórn VR til ráðgjafar í málum sem tengjast hagsmunum eldri borgara. Hvað viljum við svo gera? Við erum að reyna að finna út út því saman“, segir Rannveig.
Lífeyrissjóðirnir stofnaðir sem viðbót
„Við horfum á okkar félagsmenn og erlendu félagana okkar og viljum passa uppá að þeir þekki rétt sinn. Við erum með starfslokanámskeið fyrir okkar fólk, en höfum líka áhuga á að hitta yngra fólkið okkar. Það er algengt að það sé farið fram á að menn vinni sem verktakar á vinnumarkaðinum og við viljum benda unga fólkinu á að það kemur að starfslokum, líka hjá þeim, þegar fram líða stundir. Svo er það þetta týpiska vandamál skerðingin „krónu fyrir krónu“. Það þarf að gera eitthvað róttækt í því. Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir sem viðbót við almannatryggingakerfið, þess vegna er þetta svo óréttlátt. Þetta gengur ekki svona og við þurfum að vinna saman að leiðréttingu. Ef ríkisstjórnin stendur svona vel, hvers vegna er þá ekki farið í að bæta úr þessu?“ segir Rannveig.
Óréttlátt að fá smápeninga úr lífeyrissjóðnum
Rannveig sér fram á að það styttist í hennar starfslok, en segir að eftirlaunin verði ekki sérlega rífleg. „Fólk er búið að borga í lífeyrissjóð áratugum saman og svo fær það smápeninga í eftirlaun. Ef ég fer á lífeyri 65 ára, fæ ég innan við 200 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóðnum. En ég er heilsuhraust og get unnið. En hvers vegna á ég að fá þessa smápeninga? Mér finnst það óréttlátt“, segir hún og það er viðbúið að hún muni snúa sér að handavinnu þegar hún er komin á eftirlaun, því handavinnan er mikið áhugamál hjá henni. „Ég gæti ekki lifað án þess að vera að gera eitthvað í höndunum“, segir hún ákveðin.