Hversu seint er hægt að hefja tungumálanám?

Það er mikið um það rætt að það sé gott fyrir heilann þegar við eldumst, að fást við eitthvað nýtt. Læra eitthvað nýtt, svo sem á hljóðfæri, nýtt tungurmál, eða eitthvað annað sem við höfum ekki lagt okkur eftir áður. Vefurinn Considerable.com birti  grein um tungumálanám á efri árum, eftir Arika Okrent. Hún fer hér á eftir, örlítið stytt, í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Því eldri því erfiðara að læra nýtt tungumál

Þetta er eiginlega ekki sanngjarnt. Þú rembist við það árum saman að læra nýtt tungumál, á meðan krakkar sem dvöldu sumarlant í öðru landi, tala tungumálið reiprennandi þegar þau koma heim. Börn eiga gott með að læra tungumál, en því eldri sem þau verða, því erfiðara verður það. Hvenær skyldi vera orðið of seint að taka til við að læra nýtt mál? Það vitum við ekki, en það er uppörvandi að svarið gæti þess vegna verið – aldrei.  Við vitum að til að ná valdi á  málinu til fulls og tala það lýtalaust er betra að hefja námið á unga aldri. Það eru samt margir sem byrja að læra nýtt tungumál á fullorðinsaldri og ná virkilega góðum tökum á því.

Byrjuðu seint en gekk vel

Ný rannsókn sýnir að ensku kennarar sem höfðu nánast sama vald á enskunni og innfæddir, hófu enskunám fyrir 18 ára aldur. Eftir það minnkar getan til að ná fullum tökum á málinu. Samt sem áður höfðu margir þáttakendur í rannsókninni sem byrjuðu námið seint, náð ótrúlega góðum tökum á enskunni og töluðu hana nánast reiprennandi.

Hvað þýðir „reiprennandi“

Ef „reiprennandi“ þýðir að menn tala tungumálið eins og innfæddir, þá þýðir það að fullorðnir málanemendur geta aldri náð því. Ef það þýðir aftur á móti að fólk sé fært um að bjarga sér í daglegu lífi, jafnvel við flóknar aðstæður, þá eiga fullorðnir enn séns á að verða mjög góðir í málinu og tala það nánast reiprennandi.

Byrjaði að læra ungversku 47 ára gamall

Len Rix, sem vann til verðlauna sem þýðandi úr ungversku yfir á ensku, talaði enga ungversku fyrr en hann byrjaði að læra málið 47 ára gamall. Hann heyrði ungverskan vin sinn tala það í síma og varð svo hrifinn af því hvernig það hljómaði að hann ákvað á stundinni að hann yrði að læra það.  Hann lærði málið af bókum og diskum og seinna með því að tala það við vini sína. Hann bætti svo við sig þekkingu með því að sökkva sér niður í þýðingarverkefni. Það var ekki auðvelt, en ástríða hans fyrir tungumálinu varð til þess að hann lagði á sig þá vinnu sem nauðsynleg var, til að verða fær um að tala það vel.

Fullorðnir gera aðrar kröfur

Fullorðið fólk vill geta tjáð sig á jafn flókinn hátt nýja málinu og þeir eru vanir að gera á sínu eigin máli. Yngri nemendur eru ekki eins uppteknir af því. Það þarf ekki að vera, að börn séu betri í tungumálanámi en fullorðnir vegna þess að þau hafa ungan heila, ástæðan getur verið sú að það fylgja því ýmsar kvaðir að eldast. Fullorðnir hafa svo margt á sinni könnu að það er erfiðara fyrir þá að koma sér í þær kringumstæður sem börn upplifa þegar þau eru að læra. Þau hafa nægan tíma og geta sökkt sér algerlega niður í viðfangsefnin. Þau læra nýja tungumálið af því þau verða að gera það.

Verða að þora að gera mistök

Þar fyrir utan er það þannig, að eftir því sem menn eldast, safna þeir að sér meiri þekkingu og njóta ákveðins álits, þannig að þeir hika við að segja eitthvað sem hljómar heimskulega og gæti verið álitshnekkir fyrir þá. Það er mikilvægt að tala tungumálið til að læra það, en það útheimtir að menn séu tilbúnir að gera mistök. Þeir sem yngri eru ekki jafn kröfuharðir. Þeir taka eitt atriði í einu, læra að biðja um vatnsglas, kynna sig með nafni, lýsa gæludýrinu sem þá langar í og svo framvegis.

Verða að losna við spéhræðsluna

Eldri einstaklingar sem ná því að verða virkilega góðir í nýju tungumáli, eru færir um að finna leið til að sigrast á þeim kvöðum sem fylgja aldrinum, en þær eru hvorki líffræðilegar né óyfirstíganlegar. Þeir koma sér upp leið til að skapa sitt eigið málumhverfi og nota málið. Þeir sigrast á óttanum við að fólki finnist þeir hallærislegir. Það er ekki auðvelt, en það er ekki eingöngu aldurinn sem veldur því að það er erfitt.

 

Ritstjórn október 1, 2019 07:21