Laugardalur og Háaleitishverfi elstu hverfin

Frumbyggjar í Breiðholti eru margir farnir að hugsa sér til hreyfings í minna húsnæði

Frumbyggjar í Breiðholti eru margir farnir að hugsa sér til hreyfings í minna húsnæði

Íbúðahverfin í borginni eru mismunandi þegar kemur að fjölda fólks á eftirlaunum sem þar býr.  Þetta kemur fram í gögnum frá borginni, en hæsta hlutfall íbúa 67 ára og eldri er að finna í Laugardal og Háaleitishverfi. Tölurnar eru miðaðar við þjónustusvæði velferðarsviðsborgarinnar. Hlutfall íbúa 67 ára og eldri er hæst á Laugardals- og Háaleitissvæðinu eða 16%. Næsthæst er það í Breiðholti, eða 12.7%. Lægst er hlutfall 67 ára og eldri hins vegar í Árbæ og Grafarholti eða 8.6%

Á bak við þessar tölur á Laugardals og Háaleitissvæðinu eru rúmlega 4.800 einstaklingar, en af þeim eru 10 orðnir 100 ára. Í Árbæ og Grafarholti eru rétt tæplega 1500 einstakingar á bak við prósentutöluna  og þar er einn íbúi sem hefur náð 100 ára aldri. Þessar tölur eru alltaf á svolítilli hreyfingu, en ljóst að aldursskiptingin hefur áhrif á þjónustuna sem Reykjavíkurborg veitir í mismunandi hverfum.

Stefán Eiríksson sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar, segir að þegar íbúar í hverfi eldist, þurfi að huga sérstaklega að félagsstarfi eldra fólksins og leita leiða til þess að efla það og styrkja. Um leið þurfi að styrkja sérþekkingu þeirra sem veita þessum hópi þjónustu. Hann segir að áherslan sem núna sé lögð á að borgin verði aldursvæn, sé til hagsbóta fyrir alla íbúa, ekki bara þá sem séu í eldri kantinum. „Borg sem er aðgengileg fyrir eldra fólk, er það um leið fyrir alla aðra“, segir hann.

 

Ritstjórn júní 8, 2016 10:44