Eldri konur meira á Facebook en karlarnir

Það heyrist stundum að eldri kynslóðin eigi erfiðara með að tileinka sér nýja tækni, en yngri kynslóðin. Þegar tölur eru skoðaðar, kemur hins vegar í ljós að eldra fólk notar tölvur töluvert og þeim fjölgar í þessum aldurshópi sem fara daglega inná netið.  Fyrir fjórum árum sögðust 52%  67 ára og eldri fara á netið daglega, en í lok síðasta árs var þessi tala komin upp í 56% . Þetta kemur fram í könnun á stöðu og líðan aldraðra, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara.  Karlarnir eru virkari á netinu en konurnar. Um 65% karla fara daglega inná netið, en 50% kvenna. Aldur skiptir máli þegar skoðað er hvernig daglegri tölvunotun er háttað, eins og sést í töflunni hér fyrir neðan.

Og gift fólk virðist nota netið í ríkara mæli en þeir sem eru einir. Skoðum daglega notkun netsins eftir hjúskaparstöðu:

Þó karlarnir séu almennt virkari á netinu snýst það við þegar spurt er hvort fólk skoði samfélagsmiðla eins Facebook. Þá koma konurnar sterkar inn. 53% aðspurðra segjast í könnuninni fara á Facebook daglega. 43% karla gera það, en 62% kvenna.   Og aldurinn er greinilega ekki mikil fyrirstaða, því 46% fólks á aldrinum frá 80 ára til 87 ára fara daglega inná Facebook, en að vísu bara 14% þeirra sem eru 88 ára og eldri. 23% fólks 67 ára og eldra segist aldrei fara inná Facebook. Það vekur líka athygli að þeir sem eru ógiftir eru meira á Facebook en þeir sem eru giftir eða í sambúð.

Þá kemur fram í könnuninni að 61% fólks í þessum aldurshópi, 67 ára og eldri, notar tölvu daglega og 8% segjast nota tölvu oftar en einu sinni í viku, en þó ekki daglega. 24% nota aldrei tölvu.  Tölvunotkun eldra fólks er svipuð nú og hún var fyrir 4 árum. Karlarnir nota tölvur almennt  meira en konurnar, þó þær séu meira á Facebook en þeir. Smelltu hér til að skoða könnunina í heild.

Ritstjórn júní 13, 2017 14:20