Tengdar greinar

„Gríðarleg sóknarfæri í íslenskum landbúnaði“

Rektor langar að gera rannsókn á því hvernig verð á lambakjöti hefur þróast síðustu 30 árin miðað við hvernig verð á fiskafurðum hefur þróast. Framsetning á fiskafurðum til neytenda hefur þróast nokkuð mikið á undanförnum áratugum, en lambakjötið minna.

Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) er reistur á grunni öflugrar rannsóknastofnunar og tveggja gróinna menntastofnana á landbúnaðarsviði, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala), Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. LbhÍ tók til starfa í upphafi árs 2005 og hefur mikla sérstöðu meðal háskóla hérlendis. Þessi sérstaða felst fyrst og síðast í viðfangsefni skólans sem er náttúra Íslands – nýting, viðhald og verndun. Viðfangsefni kennslu og rannsókna við LbhÍ er því landið og það sem á því lifir. Á stundum er sagt að LbhÍ sé Skóli lífs og lands sem er réttnefni en skólinn er lítill háskóli sem einnig markar honum sérstöðu. Nám á háskólabrautum er kennt á Hvanneyri í Borgarfirði og á Keldnaholti, en rannsóknir fara fram á öllum starfsstöðvum skólans. Búfræðinámið er kennt á Hvanneyri og nám á garðyrkjubrautum er kennt á Reykjum í Ölfusi, en starfseiningin þar er staðsett fyrir ofan sundlaugina í Hveragerði.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LbhÍ.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, efnaverkfræðingur, tók til starfa 1. janúar 2019. Hún var spurð hvort starf rektors Landbúnaðarháskóla Íslands væri draumastarf sem hún hefði horft til. Hún segist hafa séð starfið auglýst áður en þá ekkert hugsað til þess að sækja um það en þegar það var auglýst að nýju vakti það áhuga hennar  þótt hún hafi verið í spennandi verkefnum og þá sérstaklega í evrópskum samstarfsverkefnum.

Ragnheiður lauk meistaranámi í efnaverkfræði á sviði lífefnafræði og næringarfræði. Þegar heim kom úr námi fór Ragnheiður að vinna hjá Iðntæknistofnun og síðan hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Hún er því ekki ókunnug Keldnaholtinu. Á Keldnaholtsárunum  lauk hún doktorsnámi árið 2000, en viðfangsefnið fjallaði um tæringu málma. Í kjölfarið fór hún í MBA nám og útskrifaðist með MBA gráðu árið 2002 með áherslu á fjármál og rekstur. Árið 2004 hóf Ragnheiður störf sem deildarstjóri orkudeildar við Orkustofnun og 2005 var hún ráðin aðstoðarorkumálastjóri. Árið 2008 stofnaði hún sprotafyrirtækið Svinna-verkfræði ehf. og vann að nýsköpunarverkefnum og ráðgjöf.

–        Tengsl þín við landbúnað hafa þá væntanlega ekki verið mikil allt þar til þú hófst störf við Landbúnaðarháskólann?

,,Það er rétt, bein tengsl hafa ekki verið mikil en í gegnum stjórnsýslustörfin hjá Orkustofnun tengdist ég talsvert landinu, orkunni og auðlindunum og auðlindanýtingu og þannig tengdist ég óbeint landbúnaði og garðyrkju. Ég var með tengsl við nokkur sprotafyrirtæki á sviði  lífefnafræði og næringarfræði og í framhaldi t.d. fiskeldi en ég hef unnið talsvert í ráðgjöf fyrir fiskeldisfyrirtæki, t.d. hvað varðar umhverfisvottanir. Ég var aldrei í sveit þegar ég var unglingur en ég á systur sem býr í sveit og eiginmaður minn er frá sveitabæ svo það búa margir fjölskyldumeðlimir mínir í sveit. Þannig hef ég fylgst vel með og séð hvernig íslenskur landbúnaður hefur þróast á undanförnum árum, svo ég er ekki alls ókunnug landbúnaðinum.“

Það hvatti Ragnheiði einnig til að sækja um starf rektors að hún hefur talsvert tengst Evrópuverkefnum og hún sá að hún gæti nýtt tengsl sín og þekkingu á því sviði til hagsbóta fyrir skólann.

–        Mun erlent samstarf fá meira vægi í starfsemi skólans undir þinni stjórn en hefur verið áður?

,,Já, það hefur gerst að nokkru leyti og við viljum sækja fram og fá aukið fjármagn ekki síst frá erlendum rannsókna- og nýsköpunarsjóðum og ná þá jafnframt í aukna þekkingu í gegnum alþjóðlega samstarfsaðila. Þannig sé ég að þrjár meginstoðir skólans rannsóknir, nýsköpun og kennsla, styðji  við hver aðra. Til að efla kennslu og vera í fremsta flokki með nýjungar og góða innviði þarf rannsóknir og nýsköpun.“

Flottar umsóknir um kennarastöður

–        Hvernig gengur að fá kennara að skólanum?

,,Við höfum verið að fá margar  mjög flottar umsóknir um þau störf sem við höfum auglýst bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Það er því ástæða til bjartsýni. Við höfum markvisst verið að sækja fleiri doktorsnemendur í skólann og þeir hafa aldrei verið fleiri en þennan veturinn.“

–        Nemendafjöldinn að meðtöldum fjarnámsnemendum munu vera um 600 talsins. Er samsetning nemendahópsins æskileg, eru kannski of fáir nemendur á einhverjum sviðum?

,,Við höfum bætt í á öllum sviðum og nemendafjöldinn hefur nær tvöfaldast á undanförnum tveimur árum Eina brautin sem fær fleiri umsóknir en við getum annað er búfræðin, en það er helst verklegi þátturinn sem er takmarkandi. Við verðum að líta á skólann sem eina heild með þá sterku innviði sem hann hefur, til að ná þeim árangri sem við sækjumst eftir.  Svo má benda á að námið og tækifærin í búvísindum hefur talsvert breyst, ekki síst vegna nýjunga í matvælatækni og umhverfismálum.  Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, 17 talsins, tengjast markmiðum skólans með ýmsum hætti. Við erum með Landgræðsluskólann sem heyrir undir GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu hjá okkur, sem fær um 20 nemendur á hverju ári frá Afríku og Asíu. Þá er ávallt hópur skiptinema hjá okkur sem og erlendir kennarar. Andrúmsloftið hér er því oft mjög alþjóðlegt.  Evrópusambandið er að setja gríðarlega fjármuni til þeirra málaflokka sem skólinn vinnur að og því eftir miklu að sækja þangað, bæði til að styrkja skólann fjárhagslega en ekki síður til að efla alþjóðleg tengsl og sækja þekkingu.“

Mikilvægt að beina sjónum að samkeppnishæfni íslenskra landbúnaðarafurða

Skólabyggingin á Hvanneyri.

–        Umræðan um landbúnað fer stundum um víðan völl, og ekki alltaf studd miklum rökum. Þá hefur umræðan um innflutning á frosnum kjötvörum eða ófrosnum farið víða og oft ekki studd miklum sannfærandi rökum, jafnvel engum. Þetta mál hlýtur að bera stundum á góma í skólanum?

,,Þetta snýst svolítið um samkeppnishæfni íslenskra landbúnaðarafurða, hvað við getum bætt í okkar landbúnaði til að vera samkeppnishæfari á alþjóðlegum mörkuðum. Það er mjög undarlegt að sauðfjárræktin stendur varla undir sér, afurðaverð til bænda stendur ekki undir framleiðslukostnaði. Það virðast allir fá ásættanlegan hlut í keðjunni, nema sjálfur bóndinn, framleiðandinn. Það gengur ekki til lengdar að sauðfjárbóndi þurfi að stunda aðra atvinnu samhliða búskapnum til að eiga í sig og á.

Mig langar að gera rannsókn á því hvernig verð á lambakjöti hefur þróast síðustu 30 árin miðað við hvernig verð á fiskafurðum hefur þróast. Heil ýsa sem flestir borðuðu kostaði ekki mikið fyrir nokkrum áratugum, en hún sést varla í fiskborðinu í dag. Framboðið á fiski til neytenda er gjörbreytt og verðið líka. Mikið framboð er af tilbúnum fiskréttum sem einfalt og fljótlegt er að elda. Minni breytingar hafa orðið í lambakjötinu og úrval af slíkum einföldum réttum ekki eins mikið og í fiskinum.  Ég held að samanburðurinn á þróun þessara tveggja vara og verð þeirra á nokkurra áratuga tímabili verði mjög áhugaverður.“

–        Er framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands björt?

,,Við eigum alveg gríðarleg sóknarfæri í íslenskum landbúnaði. Það vilja allir vinna með Íslandi, enda erum við á sviði sem skiptir okkur öllu máli í náinni framtíð, þ.e. hvernig loftslagsmálin þróast, matvælaframleiðslan og hvernig okkur tekst að umgangast jörðina.

Margir nemendur hér í búvísindum fara í búskap, aðrir t .d. í ráðgjöf fyrir bændur eða hjá fyrirtækjum tengdum landbúnaði. Það eru t.d. fyrirtækjum sem flytja inn vörur og tæki fyrir bændur. Fyrir þá sem nema hér umhverfisskipulag og skipulagsfræði eru atvinnumöguleikar mjög góðir svo dæmi séu nefnd.“

Samstarfsnet  háskóla

–       Árlega stunda á þriðja hundrað nemendur nám á Hólum, flestir í fjarnámi með staðbundnum lotum. Er samstarf milli Landbúnaðarháskóla Íslands og háskólans á Hólum í Hjaltadal þar sem m.a. er rekin hestafræðideild, fiskeldis- og fiskalíffræðideild og ferðamáladeild?  

,,Við erum alltaf opin fyrir auknu samstarfi hér. Svo er verið að efla samstarfsnet allra sjö háskóla landsins og einnig opinberu háskólanna sérstaklega, Landbúnaðarháskólans, Háskólans á Hólum, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands.

Opinberu háskólarnir hafa sameiginlegan persónuverndarfulltrúa, náms- og starfsráðgjafa og samnýta ýmsa þjónustu t.d. á sviði tölvumála, lögfræðiþjónustu og vísindaskrifstofu. Þá er upplýsinga- og kennsluvefurinn sem nefnd er „Uglan“ samnýtt. Það eru haldnir sameiginlegir fundir rektora reglulega þar sem farið er yfir hvernig við getum styrkt samstarf háskólanna enn frekar,“ segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ritstjórn desember 1, 2021 07:41