Mistök að skipta reysluboltunum út

Eldri starfsmenn í rannsókn Jónu Valborgar Árnadóttur um það sem hvetur þennan aldurshóp á vinnumarkaðinum ,og sagt hefur verið frá hér á síðunni, sögðust allir hafa upplifað fordóma í samfélaginu í garð eldra fólks, hver á sinn hátt. Sumir höfðu reynt það á eigin skinni, en aðrir í gegnum viðhorf yfirmanna og samstarfsmanna. Aðrir höfðu séð vini og kunningja missa störfin sín í hendur yngra fólks og þeir ekki fengið starf í staðinn. Það kom fram að viðmælendurnir voru ekki sammála þeim viðhorfum sem umhverfið sendir þeim um að þeir eigi ekki erindi á vinnumarkaði. Þeim finnst sú mynd ekki passa við þá sjálfa og jafnaldra þeirra. Lítum á nokkur ummæli um þetta.

Einn viðmælenda telur að það séu afdrifarík mistök að losa sig við alla gömlu reynsluboltana og ráða inn „kappsfulla nýgræðinga“, þó sums staðar þurfi að taka til.

Ég held að þetta sé mikið mein. Og sums staðar þar sem þetta er bara kúltúr hreinlega, þar er þetta ekki á góðri leið. Ég held að þetta hafi aldrei farið vel heldur. Nei, ég þekki ekki mörg dæmi þess allavegana.“

Öðrum 56 ára viðmælanda þótti óskiljanlegt að hafa ekki sömu möguleika og þeir sem yngri eru til að fá annað starf.

Við erum aldrei veik, við erum aldrei með veik börn, þú veist. Þú ert náttúrulega í vinnu og þú ert að horfa á þetta fók. Þau þurfa alltaf að fá frí og það er frí í ágúst, eða júlí eða þegar barnaheimilin loka og maður bara allt í lagi, lúffar og reynir að koma til móts við þau. Maður er alltaf til og alltaf tilbúinn að vinna, þannig að mér finnst þetta mjög sérstakt.“

En 55 ára gamall viðmælandi hafði ekki sömu sögu að segja varðandi erfiðleika við að skipta um starf.

Minn gamli vinnustaður var að breytast mikið og ég var ekki jafnáægður með allar breytingarnar, þó ég væri ákveðinn í að þreyja þorrann þar í að minnsta kosti eitt ár og sjá hverju fram yndi. En svo bauðst mér annað starf og ég ákvað að stökkva til“.

 

Ritstjórn september 12, 2014 15:00